Við, félagar í samtökum garðyrkju- og umhverfisstjóra (SAMGUS) viljum koma á framfæri áhyggjum okkar varðandi yfirvofandi breytinga á starfsmenntanámi við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ).

Mikilvægt er að skoða hver sé krafa nútíma samfélags í umhverfismálum og hvernig menntakerfið ætlar að bregðast við þeirri kröfu. Jafnframt þarf að vera skýr framtíðarsýn um faglega umgjörð starfsmenntanáms sem tryggir færa sem og faglega starfsmenn á vinnumarkaði.

Að því sögðu vilja félagsmenn SAMGUS, sem starfa vítt og breitt um landið við hin ýmsu umhverfisverkefni s.s. garðyrkju og náttúruvernd, koma eftirfarandi á framfæri:
Félagsmenn óska eftir:

  • Styrkingu starfsmenntanáms sem áhugavert og sjálfstætt nám á framhaldsskólastigi.
  • Að framtíð skrúðgarðyrkju og tengdra greina í geiranum verði tryggð án togstreitu milli skólastiga og þessar námsgreinar fái að blómstra.
  • Að framtíðarsýn garðyrkjunáms sem starfsmenntanáms verði skýr og umgjörð þess fagleg.

Við erum ánægð með nýsamþykkta námsskrá starfsmenntanámsins og fögnum þessari faglegu og góðu nálgun sem er þar komin frá fjölda hagsmunaaðila og fagfólks. Engu að síður er nú kominn upp fullkominn trúnaðarbrestur á milli fagsins og rektors LbhÍ, Ragnheiðar Þórarinsdóttur.

Staða fagsins er grafalvarleg ef hugmyndir núverandi rektors við LbhÍ ná fram að ganga.
Við hörmum þetta ástand og treystum á að menntamálaráðherra tryggi framtíð starfsmenntanáms í garðyrkju.

Fyrir hönd félagsmanna SAMGUS.
Berglind Ásgeirsdóttir, formaður.

Mynd: Garðyrkjuskólinn/Mats Wibe Lund