Samgus í 30 ár

Stiklur úr sögu Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra 1992 – 2021.
Tekið saman af ritnefnd í tilefni afmælisárs

Samgus í 30 ár

SAMGUS

Aðdragandi og stofnfélagar

Allt frá árinu 1986 hafði hópur garðyrkjustjóra nokkurra sveitarfélaga hist á haustin til skrafs og ráðagerða um sameiginleg málefni. Hópurinn taldi að stofna þyrfti formleg samtök á Íslandi og mynda tengsl við systursamtök á Norðurlöndum, sem sumir höfðu þegar tengsl við sem mynduðust á námsárum ytra.

Stofnfundur Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga var haldinn á Akureyri 30. janúar 1992 af 13 stofnfélögum. Þau voru frá Akranesi, Akureyri, Blönduósi, Garðabæ, Hafnarfirði, Húsavík, Ísafirði, Kópavogi, Mosfellsbæ, Reykjavík, Sauðárkróki, Selfossi og Seltjarnarnesi.

 Lög samtakanna, markmið þeirra og tilgangur

Lög félagsins voru undirbúin áður og voru samþykkt einróma á stofnfundinum. Fyrsti formaður samtakanna var kosinn Einar E. Sæmundsen garðyrkjustjóri Kópavogs og hann ásamt Árna Steinari Jóhannssyni umhverfisstjóra á Akureyri og Erlu Bil Bjarnardóttur garðyrkjustjóra Garðabæjar mynduðu fyrstu stjórnina. Samþykkt var tillaga Árna Steinars að skammstöfun Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga yrði SAMGUS. Tilgangur og markmið samtakanna var m.a. að stuðla að þróun umhverfismála sveitarfélaga og auka skilning á mikilvægi þeirra. Einnig að vinna að bættri menntun ásamt fagþekkingu félagsmanna. Félagsmenn gátu þeir orðið sem voru garðyrkjustjórar sveitarfélaga, umhverfisstjórar sveitarfélaga og aðrir þeir sem gegndu hliðstæðum störfum fyrir sveitarfélög.

Faglegur bakgrunnur stofnandanna þrettán varðandi menntun var þannig: garðyrkjumenn (flestir með skrúðgarðyrkjumenntun), landslagsarkitektar, búfræðingar og grasafræðingur. Öll voru þau með starfsheitið garðyrkjustjóri nema Árni Steinar var umhverfisstjóri, sem vísaði til víðara sviðs umhverfismála en garðyrkjunnar einvörðungu.

Breytingar á tímabilinu

Á 30 árum hafa skiljanlega orðið talsverðar breytingar á SAMGUS. Hér verður stuttlega fjallað um hvern áratug fyrir sig og stiklað á stóru.

Fyrsti áratugurinn 1992-2001

Frá stofnfundi SAMGUS fram að fyrsta aðalfundi, sem haldinn var í mars 1993 í Reykjavík, hafði orðið um 25% fjölgun félagsmanna og voru 16 sveitarfélög með fulltrúa í samtökunum. Fyrstu árin voru tíð stjórnarskipti, þannig voru vinnureglurnar að í þriggja manna stjórn gekk einn út á hverjum aðalfundi og einn kom nýr inn, og einnig var leitast við að gæta jafnræðis milli landshluta í stjórninni.

Á þessum árum var aðaláherslan á að kynna samtökin og gera þau gildandi sem eitt af aðal fagfélögum garðyrkjunnar, ásamt félagi íslenskra landlagsarkitekta, félagi skrúðgarðyrkjumeistara o.fl. sem talsvert samstarf var við í ýmsum málum. Árið 1996 sendi stjórn SAMGUS t.d. sveitarfélögum með fleiri en 1.000 íbúa kynningarbréf um samtökin. SAMGUS fékk fulltrúa í fræðslu- og endurmenntunarnefndum Garðyrkjuskóla ríkisins sem þá var og komu ásamt öðrum fagfélögum að breytingum á starfsemi hans. Fulltrúi SAMGUS sat einnig í nefnd á vegum Evrópusambandsins um borgarskógrækt.

Á þessum fyrsta áratug SAMGUS var m.a. farið í að gera félagsmerki (logó), gerður var fræðslubæklingur um trjágróður á lóðum og gefinn út í 60.000 eintökum og gerð fyrsta heimasíða SAMGUS. Samhliða aðalfundinum í Mosfellsbæ 1995 var haldin garðyrkju- og tækjasýning, sem Oddgeir Þór Árnason sá um, og farið var í þrjár utanlandsferðir, sjá síðar í þessari skýrslu.

Um aldamótin var komið á tengslum við norrænu systursamtökin, eins og stefnt hafði verið að.

Í lok þessa fyrsta áratugar voru 20 félagar í SAMGUS frá 18 sveitarfélögum, þar sem í þá daga mátti aðeins vera einn fulltrúi frá hverju þeirra. Hinir tveir voru Einar E. Sæmundsen sem gerður hafði verið að heiðursfélaga og Árni Steinar Jóhannsson sem var í leyfi á Alþingi. Ennþá var garðyrkjustjóri langalgengasta starfsheiti félagsmanna en tveir voru umhverfisstjórar. Um 75% félaga voru garðyrkjumenntaðir en hinir landslagsarkitektar og búfræðingar.

 Annar áratugurinn 2002-2011

Í upphafi nýrrar aldar var mikill hugur í fólki að efla garðyrkju- og umhverfismál hjá sveitarfélögum landsins. SAMGUS hélt upp á 10 ára afmælið með ráðstefnunni „Umhverfismál sveitafélaga“ sem haldin var í Garðabæ í mars 2002 í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, sjá um það síðar. Á ráðstefnunni var kynnt könnun sem Friðrik Baldursson gerði meðal SAMGUSara um starfssvið félagsmanna árið 2001.

Á fyrstu árum þessa tímabils var lögum SAMGUS breytt til að opna á aðild fagfólks stofnana í eigu ríkis og sveitarfélaga og við það komu inn félagar frá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastdæma, Garðyrkjuskóla ríkisins (síðar Landbúnaðarháskóli Íslands) og Orkuveitu Reykjavíkur. Í framhaldinu voru rýmkuð skilyrði til inngöngu í félagið á þann hátt að heimila aðild fleiri en eins starfsmanns sveitarfélags, að því gefnu að viðkomandi gegndi lykilstöðu í þeim málaflokkum sem félagsmenn SAMGUS starfa við. Þessar breytingar leiddu til mikillar fjölgunar í samtökunum. Í tengslum við þetta var nafninu breytt í Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra, þótt skammstöfunin væri áfram SAMGUS.

Árið 2011 voru félagsmenn orðnir um 35 talsins, nær þrefalt fleiri en við stofnun SAMGUS, og komu frá 20 sveitarfélögum og 3 stofnunum. Ennþá voru 14 félagsmanna með starfsheitið garðyrkjustjóri og 7 voru umhverfisstjórar/-fulltrúar eða sambærilegt en að auki voru 10 verkstjórar og 3 með önnur starfsheiti og svo einn heiðursfélagi. Um 71% höfðu garðyrkju- og garðyrkjutæknimenntun, aðrir landslagsarkitektar, líffræðingar, smiðir, búfræðingar og skógfræðingur.

Þessum áratug í sögu SAMGUS lauk með með 5 daga fræðslu- og kynnisferð til Færeyja haustið 2011, þar sem m.a. var komið á tengslum við þarlenda garðyrkjustjóra, sjá nánar síðar í skýrslunni. 

Þriðji áratugurinn 2012-2021

Félögum í SAMGUS hélt áfram að fjölga verulega með fjölgun fagfólks sem starfar á sviði umhverfismála hjá sveitarfélögum landsins.

Norræna ráðstefnan Parks and Nature Congress var haldin í Hörpu í ágúst 2018. Ráðstefnan er stærsta einstaka verkefni sem SAMGUS hefur tekið að sér til þessa, sjá nánar síðar í skýrslunni.

Málefni garðyrkjunámsins og Reykja í Ölfusi voru iðulega á dagskrá funda SAMGUS þar sem félagsmenn höfðu áhyggjur af framgangi og staðsetningu garðyrkjunámsins á Reykjum, þó um tíma virtist allt ætla að ganga farsællega.

Árið 2021 voru félagsmenn orðnir 70 talsins, fjöldinn hafði tvöfaldast á áratug og meira en fimmfaldast frá stofnun SAMGUS. Félagar voru frá 25 sveitarfélögum og 3 stofnunum. 13 félaganna voru með starfsheitið garðyrkjustjóri, 10 voru umhverfisstjórar/-fulltrúar eða sambærilegt og 12 verkstjórar.

Starfsheitið verkefnastjóri var orðið mjög algengt en alls 18 höfðu þann titil, sviðsstjórar og deildarstjórar 8 og heiðursfélagar voru nú 3. Sex voru með önnur starfsheiti. Um 60% þessara 70 félaga voru garðyrkjumenntaðir, þar af þrír með garðyrkjutæknimenntun, aðrir verk-, tækni- eða skipulagfræðingar, landslagsarkitektar, líffræðingar, iðnaðarmenn, búfræðingar og annað. 

Starfsvið félagsmanna

„Hvað gera garðyrkju- og umhverfisstjórar?“ var titillinn á könnun sem gerð var á starfssviði félagsmanna árið 2001 og kynnt á 10 afmælisráðstefnunni. Þessi spurning á ekki við lengur þar sem þeir sem bera þessi starfsheiti nú eru aðeins um þriðjungur félagsmanna í SAMGUS á 30 ára afmælinu. Fyrir 20 árum átti spurningin við um hvort og þá að hve miklu leyti einn starfsmaður sveitarfélags hefði umsjón með þeim þáttum sem spurt var um. Nú eru margir starfsmenn frá fjölmennari sveitarfélögunum og sambærileg könnun yrði ekki marktæk.

Hér er þó fjallað um ýmsa þætti sem flestir félagsmenn koma að. Félagsmenn starfa við eftirtalda málaflokka, en þó mismikið. Í stærri sveitarfélögum skiptast málaflokkar á fleiri, í þeim fámennari sinnir jafnvel einn starfsmaður öllum garðyrkju- og umhverfismálum. Starfsmannahald og mannaforráð eru ótrúlega mikið á herðum félagsmanna.

Garðyrkjudeild, þar sem hún er til, heyrir undir tækni- og umhverfissvið, og oftast er deildin staðsett í Þjónustumiðstöð eða sambærilegu. Við stærri garðyrkjudeildir starfar fleira fagfólk í greininni, auk ófaglærðs starfsfólks, iðnaðar- og vélamanna. Verkefnin eru árstíðabundin, s.s. við undirbúning jólanna er m.a. valin jólatré fyrir opin svæði, torgtré og stofnanir, s.s. grunn- og leikskóla. Árið um kring eru tilfallandi verkefni, samt alltaf að halda bæjarlandinu hreinu og snyrtilegu.

Umhirða opinna svæða. Umsjón og umhirða gerð fjárhagsáætlana, útboð og eftirlit með verktökum. Algengt er að grassláttur sé unnin af verktökum skv. útboði, en víðast eru jafnframt starfræktir sláttuhópar eða sveitarfélagið sér alfarið um sláttinn.

Ræktun trjágróðurs, útplöntun og umhirða trjáreita og gróðurbeða er snar þáttur í starfi fjölmargra SAMGUSara.

Þegar sumarstarfsfólk mætir til vinnu í byrjun sumars eru margvísleg verkefni sem bíða.

Sumarblóm eru prýði bæjanna, garðyrkjudeildir verja miklum tíma í sumarblómin sem nokkur rækta sjálf. Nokkur bæjarfélög hafa undanfarna tvo áratugi sett upp blómakörfur á ljósastaura við torg og aðalgötur, einnig stór ker. Sumarblómum er plantað í gróðurbeð á opnum svæðum víðs vegar og við stofnanir. Gróðurinn í blómakerjum miðbæja er víða breytilegur eftir árstíðum.

Stofnanalóðir og opin leiksvæði umsjón og umhirða. Fjárhagsáætlanir og umsjón nýframkvæmda, sem oft eru í útboði. Gróðursetningar og umhirða gróðurs og leiktækja. Iðnmenntað fólk starfar við sumar þeirra deilda, s.s. smiðir með umhirðu og viðhald leiktækja og annars búnaðar. Öryggismál leiksvæða hafa síðastliðna tvo áratugi orðið sífellt viðameiri í starfsemi sveitarfélaga. Lögboðnar aðalskoðanir og rekstrarskoðanir á leiktækjum og leiksvæðum þurfa að fara fram reglulega samkvæmt reglugerð. Reglugerðin er nú í endurskoðunarferli.

Þjónustumiðstöðvar voru áður og jafnvel enn kallaðar áhaldahús og önnur heiti eru framkvæmdamiðstöð eða umhverfismiðstöð. Forstöðumenn bera ábyrgð á þeim verkþáttum sem tilheyra starfseminni og þeir sjá um almenna verkefnastýringu og forgangsröðum verkefna sem og starfsmannahald. Forstöðumaður ber ábyrgð á mörgum verkefnum sem og skipulagi og eftirliti á þeim þannig að þau séu rétt, fljótt og fagmannlega framkvæmd. Honum ber að fylgja eftir þeim samþykktu verkferlum og því verklagi sem ákveðið hefur verið hverju sinni. 

Um er að ræða fjölda verkþátta hjá sveitarfélögum landsins, m.a. eftirfarandi:  grassláttur, viðhald á gróðurbeðum, hálkuvarnir, snjómokstur, viðhald, framkvæmdir og eftirlit á opnum leik- og sparkvöllum, ýmis verkefni tengd stofnunum bæjarins, jóla- og áramótaskreytingum, eftirlit með verktökum, almenn þjónusta við bæjarbúa og margt fleira. Tekur þátt í fjárhagsáætlunargerð, kostnaðareftirliti, endurnýjun tækjabúnaðar og áhalda og sinnir almennri skrifstofuvinnu sem tilheyrir verksviði hans.

Vinnuskólar eru starfræktir í allflestum sveitarfélögum. Starfstíminn er misjafn, þ.e. frá 4 – 12 vikur. Einnig er það misjafnt milli sveitarfélaga hve margir árgangar fá vinnu. Unglingar vinnuskóla vinna við að snyrta, hreinsa og fegra umhverfið, gróðursetja sumarblóm og skógrækt. Einnig er algengt að unglingar séu til aðstoðar við íþróttanámskeið, sumarskóla barna og fleira. Fyrir flesta er þetta fyrsta reynsla á vinnumarkaði svo það er mikilvægt að vel takist til um kynni unglinganna af vinnu og vinnubrögðum. Félagsstarf í vinnuskólanum er gott og hjá flestum eru nokkrir dagar teknir í skipulagða leiki. Unglingar læra að taka tillit til annarra og vinna saman. Ýmsir hópar eru innan vinnuskólanna, s.s. lista-, umhverfis- og, fjölmiðlahópar svo eitthvað sé nefnt.  Flokkstjórar sem stjórna vinnuhópunum sækja undirbúningsnámskeið til að vera sem best undirbúnir fyrir sumarvinnuna og til að geta stjórnað vinnuhópnum sem best og tekist á við þau verkefni og vandamál sem upp kunna að koma.

Sumarstörf ungmenna 17-18 ára og eldri hafa verið í boði sveitarfélaga enda á þessi aldurshópur erfiðara með að fá sumarvinnu á almenna vinnumarkaðinum, t.d. eftir hrunið 2009 og í veirufaraldri. Þessir hópar hafa sumstaðar verið nefndir umhverfishópar/sumarátak til aðgreiningar vinnuskóla- og garðyrkjuhópum. Verkefnið hefur verið starfrækt í júní og júlí, misjafnt eftir sveitarfélögum. Markmiðið bæjaryfirvalda er að leita allra leiða til að tryggja ungu fólki sumarstörf. Hópar þessir vinna að fegrun og hreinsun bæjarlandsins og að ýmsum öðrum verkefnum. Verkefnin geta verið utan þéttbýlis við skógrækt/landgræðslu, stígagerð, ruslatínslu og hreinsun í fjörum, auk margvíslegra fjölbreyttra verkefna, s.s. heftingu útbreiðslu ágengra tegunda, þ.e. lúpínu og kerfils, og umhirðu útivistarstíga. Úrræði þetta hefur einnig boðist fötluðum ungmennum við ýmis verkefni. Stuðningsaðilar fylgja þjónustunotendum til vinnu og í frístund.

Atvinnuátök. Oftar en ekki fá yfirmenn þjónustumiðstöðva og garðyrkjustjórar beiðni um að hafa umsjón með starfsfólki sem ráðið er tímabundið, t.d. í tengslum við Vinnumálastofnun. Þá þarf að koma þessu starfsfólki til vinnu og í verkefnastýringu, þannig að það nýtist sem best. Þessar tímabundnu ráðningar hafa verið tengdar við 2-6 mánaðaráðningarsamning. 

Úrgangsmál og sorphirða. Sveitarfélög bera ábyrgð á allri meðhöndlun heimilisúrgangs. Flest þeirra semja við verktaka um sorphirðu og flutning á úrgangi, oftast með útboði, hvort sem um er að ræða endurvinnslu-hráefni, lífrænan úrgang eða almennan úrgang. Urðunarstaðir eru reknir af sveitarfélögum, ýmist sjálfum, í gegnum félög í eigu sveitarfélaga eða með samningi við verktaka. Oft hafa SAMGUS-félagar umsjón með þessum málaflokki í sínu sveitarfélagi.

Aukin umhverfisvitund íbúa, meira framboð flokkunaríláta og fræðsla á vegum sveitarfélaga hvetur íbúa til flokkunar, m.a. með 2 – 4 tunnum við heimilin. Auk jarðgerðartunna sem eru til notkunar til að jarðgera lífrænt sorp frá eldhúsi og garði eftir aðstæðum. Umhverfismál, þar á meðal úrgangsmál, taka örum breytingum síðari árin með tilstilli laga og reglugerða.

Náttúruverndar- og skógræktarsvæði. Þessi svæði eru víða vinsæl útivistarsvæði, flest staðsett utan þéttbýlis, og eru mörg hver í umsjá félagsfólks sem vettvangur fyrir sumarvinnu unglinga og fyrir fræðslu, s.s. útikennslu grunnskóla. Aukin útivist hefur kallað á gerð útivistarstíga, búnað á svæðunum, s.s. bekki, skýli og fræðsluskilti. Víða er gott samstarf við skógræktarfélög í heimabyggð við gróðursetningar og við landshlutabundnar Náttúrustofur. Umhverfisstofnun hefur umsjón með friðlýstum svæðum með sínum landvörðum. Síðari ár starfa landverðir einnig hjá sveitarfélögum við eftirlit á verndarsvæðum. Uppgræðsla hefur víða verið unnin í samstarfi við Landgræðsluna.

Þjónusta við íbúa. Garðyrkjustjórar margir hverjir leiðbeina garðeigendum, sé þess óskað, um verkefni sem íbúar geta gert sjálfir eða bent á fagfólk eða verktaka í greininni. Þetta getur verið smáræði og jafnvel stórfelldar trjáfellingar.

Mörg sveitarfélög leggja áherslu á að verja gangstéttar og stíga fyrir aðsteðjandi gróðri. Gerðar eru kannanir varðandi „gróður á lóðamörkum“ og sendar vinsamlegar ábendingar til viðkomandi garðeigenda um að klippa gróður sem vex út fyrir lóðarmörk. Gróðurinn veldur ekki bara gangandi og hjólandi ama, heldur einnig þjónustutækjum, s.s. við snjómokstur og sópun. Einnig er oft um mikilvægt öryggisatriði að ræða, s.s. útsýni á gatnamótum.

Starfsemi skólagarða fyrir börn og jafnvel eldri borgara hefur verið rótgróin í ártugi en hefur víðast hvar dalað vegna mikils framboðs annarrar afþreyingar fyrir börn. Útleiga matjurtagarða til íbúa, sumstaðar kallaðir fjölskyldugarðar eða garðlönd, er liður í þjónustu við íbúa. Þessi starfsemi er í umsjón SAMGUS félaga.  

Starfsemi SAMGUS

Reglulegir fundir

Hefð er fyrir því frá upphafi að halda tvo sameiginlega fundi á ári, svokallaðir vorfundir eru aðalfundir og haustfundir haldnir hjá ýmsum sveitarfélögum þar sem félagsmenn starfa. Fer þá m.a. fram kynning á viðkomandi sveitarfélagi, oftast varðandi skipulag- og umhverfismál. Oftar en ekki eru á fundunum nokkrir fyrirlestrar, ýmist frá félögunum eða utanaðkomandi gestum. Skoðunarferðir með leiðsögn og heimsóknir eru einnig ómissandi þáttur í fundum SAMGUS.

Fundur formanna norrænu garðyrkjustjórasamtakanna var haldinn hér á landi í maí 2001, og tókst hann í alla staði mjög vel. Systursamtökin halda einnig haustfundi á hverju ári til þess að styrkja innviði samtakanna, ásamt faglegum fyrirlesurum. 

Ráðstefnur, málþing og námskeið

Samtökin stóðu fyrir ráðstefnu í Reykjavík árið 1998 um trjárækt í þéttbýli í samvinnu við Félag garðyrkjumanna, Félag skrúðgarðyrkjumeistara, FÍLA og Garðyrkjuskólann.

Árið 1999 hélt SAMGUS, í samvinnu við sömu félög og Garðyrkjuskólann, fjölsótta ráðstefnu í Hveragerði um umhirðu opinni svæða.

Í apríl 2008 stóð SAMGUS, í samvinnu við LBHÍ, fyrir ráðstefnunni Leiksvæði barna sem var haldin á Hótel Natura í Reykjavík og á annað hundrað manns sóttu.

SAMGUS, ásamt Orkuveitu Reykjavíkur, stóð fyrir opnu málþingi í Reykjavík um grasslátt og ágengar plöntutegundir í tengslum við haustfundinn 2014 og var uppselt á viðburðinn.

SAMGUS hefur haldið afmælisráðstefnur á 10 ára fresti. Umhverfismál sveitafélaga var þemað á ráðstefnunni sem haldin var í Garðabæ í mars 2002 í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Markhópur hennar var fyrst og fremst fulltrúar í sveitarstjórnum og nefndarmenn umhverfis-, skipulags-, tækni-, náttúruverndar- og heilbrigðisnefnda, ásamt starfsmönnum sveitarfélaga sem störfuðu að þessum málum, auk alls fagfólks innan græna geirans. Ráðstefnan var fjölsótt.

Fullt hús var í Turninum í Kópavogi þegar SAMGUS hélt þar ráðstefnu í nóvember 2012 í tilefni 20 ára afmælis samtakanna. Ólíkt 10 ára afmælisráðstefnunni þá hafði þessi ekki eitthvað ákveðið þema, en segja má að þema ráðstefnunnar hafi verið afmælisbarnið sjálft. Erindin tengdust öll á mismunandi hátt starfssviði félagsmanna SAMGUS og voru því fjölbreytt eins og samtökin. Fyrirlesarar komu bæði frá öðrum félögum, stofnunum og fyrirtækjum og þótti ráðstefnan hin skemmtilegasta og fróðlegasta afmælisveisla.

LBHÍ, SAMGUS, FIT, Félag skrúðgarðyrkjumeistara og Félag garðplöntuframleiðenda stóðu saman í nóvember 2013 í Reykjavík að ráðstefnunni Stór tré – stór mál! sem var um tré og trjágróður.

Málþing um Trjágróður í þéttbýli – Ask veit ek standa… var haldið  27. febrúar 2015 í Reykjavík í samstarfi við Garðyrkjufélag Íslands.

Alþjóðlega ráðstefnan Parks and Nature Congress, var haldin í Hörpu 15.–17. ágúst 2018 í samstarfi við systursamtök SAMGUS á Norðurlöndum og alþjóðasamtökin Urban Parks (áður IFPRA). Skipuleggjendur voru Friðrik Baldursson, Berglind Ásgeirsdóttir, Þórólfur Jónsson og Sirrý Garðarsdóttir. Slíkar ráðstefnur eru haldnar á fjögurra ára fresti og höfðu borist óskir frá systursamtökunum að halda ráðstefnuna hér á landi árin 2006 og 2014, en þá treystum við okkur ekki til þess. Ráðstefnan samanstóð af fjölda áhugaverðra fyrirlestra og skoðanaferða með leiðsögn og kynningum. Hana sóttu um 100 manns frá 8 löndum og tókst hún frábærlega í alla staði og skilaði hagnaði.  

Kynnis- og fræðsluferðir

Haustið 1992 var skipulögð fræðsluferð dagana 1.-7. september á garðyrkjusýninguna Have og landskap í Gram í Danmörku, skoðaðir kirkjugarðar og sveitarfélagsið Odense heimsótt. Ferðin, sem var fyrsta kynnisferðin á vegum SAMGUS, var skipulögð af Einari E. Sæmundsen.

Haustið 1994 var farið í fræðsluferð til London og nágrennis, sem Árni Steinar Jóhannsson og Ragnhildur Skarphéðinsdóttir landlagsarkitekt hjá Hornsteinum skipulögðu. Víða var farið: Hyde Park, St. James Park, Lækningajurtagarður Chelsea Physic Garden, Kew Royal Botanica, Leeds Castle, Hampton Court Palace Gardens, Sissinghurst Garden Kent, London Borough og Camden, Camley Street Natural Park, The Regent Park í Queen Mary‘s, Holland Park og City hverfi Broadgate Circle.

Haustið 1999 var aftur farin skipulögð fræðsluferð á sýninguna Have og landskab í Slagelse í Danmörku, einnig dagsheimsókn til umhverfissviðs Malmö í Svíþjóð. Landbúnaðarháskólinn (SLU) í Alnarp var heimsóttur og ekið um Skán, m.a. Helsingjaborg, Lund, Stenshuvud-þjóðgarðinn o.fl. í leiðsögn Sveins Aðalsteinssonar skólameistara Garðyrkjuskólans. Ferðina skipulagði Erla Bil Bjarnardóttir.

Haustið 2011 stóð SAMGUS fyrir 5 daga fræðslu- og kynnisferð til Færeyja sem tókst frábærlega. Ferðin var í tilefni 20 ára afmælis SAMGUS. Skipuleggjendur voru Erla Bil Bjarnardóttir og Jón Birgir Gunnlaugsson sá um milligöngu við vinabæ Akureyrar. Með færeysku gestgjöfunum og SAMGUSurum mynduðust góð tengsl og síðar tók einn þeirra þátt í ráðstefnunni í Hörpu 2018. Í móttökunefnd Færeyinga voru Tóri í Höyvik garðyrkjustjóri og Michael Jacobæus landlagsarkitekt hjá sveitarfélaginu Þórshöfn, Tróndur Leivsson landskógarvörður og umhverfisstjóri hjá Umhverfisstofu Færeyja og Hans Hjalte Skaale garðyrkjustjóri Klakksvíkur, Jóan Peter Berg garðyrkjustjóri í Fuglafirði og fjöldi annarra bæjarstjóra og sveitarstjórnarmanna .

Ári síðar, eða í september 2012, átti SAMGUS þess kost að endurgjalda að nokkru gestrisnina í Færeyjum þegar þeir Tróndur, Tóri, Michael og einn færeyingur til komu í kynnisferð hingað. SAMGUS skipulagði og leiðsagði í tveggja daga skoðunarferð á valda staði á höfuðborgarsvæðinu. Var mikil ánægja á báða bóga með þetta.

Haustið 2016 var farin kynnisferð til Skotlands dagana 6.- 9. September. Berglind Ásgeirsdóttir og Sirrý Garðarsdóttir skipulögðu ferðina sem hófst Glasgow og tókst mjög vel. Byrjað var í West End þar sem við nærðum bæði líkama og sál í Kelvingrove safninu. Þaðan lá leiðin í Grasagarðinn í Glasgow þar sem við fengum skoðunarferð. Hin mögnuðu húsakynni Glasgow City Chambers voru heimsótt þar sem þau George og Christine frá borginni fóru yfir Green Glasgow 2015 verkefnið. Ein­stak­lega metnaðar­fullt og skemmtilegt verkefni þar sem unnið var markvisst að því að byggja upp græna menningu í borginni og hvetja íbúa til að vera umhverfisvænni í hugsun og hegðun. Necropolis kirkjugarðurinn var einnig skoðaður þann daginn. Einn dagur fór í  skoðunarferð. Vegna veðurs misfórst skoðun um Mugdock Country Park en við fengum í staðinn kynningu innanhúss. Balloch Country Park við Loch Lomond var skoðaður með leiðsögn og litið var við í smábænum Luss.

Í upphafi árs 2020 var búið var að skipuleggja fræðsluferð SAMGUS til Þýskalands, m.a. með heimsókn á garðyrkju- og tækjasýninguna GaLaBau sem haldin er í Nürnberg annað hvert ár. Henni var að sjálfsögðu frestað vegna Covid19. 

Samstarf við önnur félög og stofnanir

Systursamtök SAMGUS á Norðurlöndum eru Kommunale Park- og Naturforvaltere í Danmörku, Bad, Park- og Idrett í Noregi, Föreningen Sveriges Stadsträdgårdsmästare í Svíþjóð og Kaupunginpuutarhurien Seura í Finnlandi. Við stofnun SAMGUS var eitt helsta markmiðið að efla samskipti við þessi félög, enda er þess getið í lögunum. Oddgeir Þór Árnason var til að byrja með tengiliður SAMGUS en árið 2003 tók Þórólfur Jónsson við því hlutverki og hefur m.a. sótt ráðstefnur og formannafundi ytra og formenn félaganna hafa komið í heimsókn hingað. Í framhaldi af fyrsta alvöru „hittingi“ þessara félaga í Hörpu 2018 hefur verið rætt um að SAMGUS fjölmenni til Helsinki árið 2023, en þá og þar verður næsta Nordisk Park Congress haldin.

Samtök tæknimanna sveitarfélaga (SATS), líkt og SAMGUS heldur SATS tvo fundi á ári, í maí í sveitarfélögum á landsbyggðinni, en haustfundur er haldinn á höfuðborgarsvæðinu. Félögin hófu formlegt samstarf vorið 2008 og hafa SAMGUSarar sótt þessa fundi að vild undanfarin ár og nokkrir þeirra eru skráðir í bæði félögin. Tengiliðir SAMGUS við SATS voru Björn Bögeskov Hilmarsson og Sigurður Hafliðason, síðan Berglind Ásgeirsdóttir. Fulltrúar SAMGUS hafa oft flutt erindi á SATS-fundum, bæði vor og haust, um ýmis málefni er tengjast störfum okkar. Tveir SAMGUS félagar hafa hlotið heiðursmerki SATS, þau Árni Steinar Jóhannsson og Erla Bil Bjarnardóttir.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum, LbhÍ, FSu. SAMGUS hefur frá 1998 átt fulltrúa í fræðslu- og endurmenntunarnefnd skrúðgarðyrkjubrautar og einnig í fræðslu- og endurmenntunarnefnd brautar skógar og náttúru, sem áður kallaðist umhverfisbraut. SAMGUS hefur hvatt til framboðs endurmenntunar við Landbúnaðarháskólann/Garðyrkjuskólann, þar sem starfsfólk garðyrkju- og umhverfismála hjá sveitarfélögum hafa fjölmennt, og oft tekið þátt í undirbúningi námskeiða með skólanum.

Í lögum SAMGUS er sett fram undir markmiðum og tilgangi samtakanna „að vinna að bættri menntun, endurmenntun og aukinni fagþekkingu félagsmanna.“ Málefni garðyrkjunámsins hafa því ætíð verið ofarlega í hugum SAMGUSara, enda faglegt og gott nám undirstaða greinarinnar. Fulltrúar SAMGUS hafa verið boðnir og búnir til aðstoðar gegnum, t.d. með þátttöku við endurskoðun námslýsinga o.fl. Árið 2005 færðist Garðyrkjuskóli ríkisins inn í Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) og síðan undir Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSU) árið 2022. Samskipti skólans og SAMGUS hafa því staðið yfir í þrjá áratugi og verið bæði í blíðu og stríðu.

Græni geirinn og hollvinasamtök. Erla Bil Bjarnardóttir sat í stjórn regnhlífarsamtakanna Græna geirans f.h. SAMGUS, kynnti starfsemi samtakanna m.a. á aðalfundi SAMGUS 2006. Á fyrsta starfsári var haldinn fagráðstefnan Lauffall 2005 sem vel var sótt í tveimur sölum á Hótel Loftleiðum, en aðalmál stjórnar Græna geirans voru menntunarmál garðyrkjunnar og heimilisfesta Garðyrkjuskólans að Reykjum. Stjórnin fundaði nokkrum sinnum með Ágústi Sigurðssyni þáverandi rektor LBHÍ, einnig þingmönnum Suðurkjördæmis og ráðherra. Græni geirinn starfar ekki lengur.

Græni geirinn, samtök fagfélaga græna geirans, stóð fyrir að stofnuð voru hollvinasamtök garðyrkjunámsins á Íslandi. Formlegt nafn var Hollvinir garðyrkjunámsins og voru þau stofnuð á sumardaginn fyrsta 24. apríl 2008 að Reykjum í Ölfusi. Stjórn græna geirans gerði tillögu um undirbúningsnefnd en hana skipuðu Árni Steinar Jóhannsson, Friðrik Baldursson, Margrét Frímannsdóttir, Reynir Vilhjálmsson og Sædís Guðlaugsdóttir. Nefndin samdi m.a. samþykkt um hollvinasamtökin og fundaði allnokkrum sinnum. Markmiðið var „að starfa í anda hollvinafélaga með því að efla og viðhalda tengslum milli allra yngri og eldri garðyrkjunema og annarra sem bera hag fagsins fyrir brjósti og styðja við uppbyggingu garðyrkjunámsins og efla skólastarf á því sviði.“ Hollvinur stóðu fyrir söfnun félaga í samtökin og á 70 ára afmæli garðyrkjunáms á Reykjum vorið 2009, var félagatalið sem innihélt nöfn, netföng o.fl. alls tæplega 150 stuðningsmanna, afhent skólanum til afnota sem bakhjarla sem leita mætti til. Stjórnin lét í framhaldinu af störfum og síðan hefur ekkert til hennar spurst.

Samband íslenskra sveitarfélaga. SAMGUS hefur verið í samstarfi við Sambandið um ýmis málefni, s.s. umhverfismál og öryggismál leiksvæða.

Ýmislegt annað

Stýrihópur um borgarskógrækt. Evrópusambandið heldur úti og fjármagnar fjöldann allan af rannsóknarverkefnum af öllu mögulegu tagi, hluti þeirra eru sk. COST-verkefni. Í gegnum Skógrækt ríkisins átt SAMGUS kost á þátttöku í stýrihópi samevrópskrar rannsóknar um borgarskógrækt.  Fyrsti fundur hópsins var haldinn í Vín í mars 1998 en verkefninu lauk árið 2001. Árni Steinar Jóhannsson var fulltrúi SAMGUS í hópnum en aðrir fulltrúar Íslands voru Ragnhildur Skarphéðinsdóttir landslagsarkitekt f.h. FÍLA og Þórarinn Benedikz frá Rannsóknarstöð Skógræktarinnar á Mógilsá.

Samráðshópur umhverfismála, áður Staðardagskrá 21. Sk. Staðardagskrárhópur var starfandi á SV- horni landsins frá 2012, þar voru nokkrir fulltrúar SAMGUS. Tómas G. Gíslason var tengiliður SAMGUS við hópinn. Óformlegur samráðshópur sveitarfélaganna um umhverfismál og sjálfbærni hefur ekki verið virkur sl. ár, en í staðinn hefur virkni hans færst yfir á vettvang Sambands íslenskra sveitarfélaga með samstarfsverkefnum sem tengjast innleiðingu Heimsmarkmiða SÞ annars vegar og loftslagsmálum sveitarfélaga hins vegar. Einnig hafa Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) haft samráðsvettvang, t.d. um samræmingu göngu- og hjólastíga og sameiginlega loftslagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið.

Samráðshópur Vinnuskóla. Margir SAMGUSara hafa rekstur vinnuskóla á sinni könnu. Frá 1995 hafa forstöðumenn vinnuskóla á SV-horninu og víðar að hist reglulega og borið saman bækur sínar. Friðrik Baldursson var lengi tengiliður þessa hóps við SAMGUS, en hjá Kópavogsbæ var um langt árabil unnið að gagnaöflun og greiningarvinnu varðandi vinnuskóla sveitarfélaganna.

www.samgus.is. Málefni vefsíðunnar hefur verið nær árlega til umfjöllunar á fundum samtakanna sl. 20 ár. Síðan hefur tvisvar verið uppfærð, síðast árið 2017. Félagatal sem uppfært er reglulega, ársskýrslur o.fl. er birt á vef SAMGUS.  Undanfarið ár hefur SAMGUS einnig haldið úti tveimur Facebook-síðum, annarri opinni og hinn lokaðri fyrir félagsmenn.

Viðburðardagatal og fréttabréf. Árið 2005 var tekin upp sú nýbreytni hjá SAMGUS að senda reglulega út viðburðadagatal þar sem bent var á ýmsa viðburði sem tengdust störfum félagsfólks og mæltist þetta vel fyrir. Erla Bil Bjarnardóttir annaðist viðburðadagatalið fyrir hönd stjórnar, auk stopula fréttabréfa til félagsmanna frá stjórn með upplýsingum um það helsta sem stjórnin var að fást við hverju sinni.

Minning. SAMGUS átti frumkvæði að minnast látins félaga og fékk Dalvíkurbyggð og RARIK til samstarfs. Vígsla minningarreits um Árna Steinar Jóhannsson stofnfélaga SAMGUS fór fram á haustfundi SAMGUS á Dalvík 4. september 2017. Minningar­reiturinn er staðsettur við fallega tjörn og gosbrunn, beint á móti æskuheimili Árna Steinars. Valur Þór Hilmarsson, Tryggvi Marinósson, Erla Bil Bjarnardóttir og Steinunn Árnadóttir minntust Árna Steinars með skemmtilegum sögum að viðstaddri fjölskyldu hins látna. Árni Steinar var mikill frumkvöðull og talinn fyrsti umhverfisstjórinn hérlendis. Á bókasafni Dalvíkur var samhliða haldin sýning á skólaverkefni hans sem hann vann í Kaupmannahöfn ásamt skólasystkinum sínum. Nánar má sjá um Árna Steinar á www.samgus.is

Lokaorð

Í 30 ára félagatali, sem Friðrik Baldursson tók saman, sem nær frá stofnun SAMGUS árið 1992 og til ársloka 2021, kemur fram að alls hafa 140 manns átt aðild að SAMGUS í 1-30 ár og helmingur þeirra var í samtökunum í árslok 2021. Sveitarfélög sem átt hafa aðild að SAMGUS hingað til eru 33 talsins, þegar tekið hefur verið tillit til sameiningar og nafnabreytinga sem átt hafa sér stað á tímabilinu, og félagar hafa komið frá 5 stofnunum. Af stofnfélögunum 13 árið 1992 voru fimm ennþá í SAMGUS í árslok 2021 og aðrir fjórir sem hafa verið félagar í meira en 20 ár. Meðal kynjahlutfall á þessum 30 árum er 59%/41% körlum í vil, en það var einmitt hlutfallið í árslok 2021 líka.

Tengslanetið sem SAMGUS hefur skapað og viðhaldið er nú meira og mikilvægara en nokkru sinni. Við í ritnefndinni erum ánægð með hvernig samtökin okkar hafa þróast og eflst gegnum tíðina, þau eru fyrir löngu búin að sanna sig og framtíðin er björt.

Saga SAMGUS í 30 ár var tekin saman í tilefni afmælisráðstefnu og vorfundar samtakanna í Hafnarfirði 6.- 8. apríl 2022, en formlega opnuð á haustfundi í Hveragerði 28.-29. september 2022 og birt á www.samgus.is

Ritnefnd skipuðu:

Björn Bögeskov Hilmarsson

Erla Bil Bjarnardóttir

Friðrik Baldursson

Steinunn Árnadóttir

 

 

 

 

SAMGUS

Kennitala

521093-2509

Tengiliður

Ingibjörg Sigurðardóttir
S: 664 5674

Við viljum heyra frá þér

4 + 12 =