Minning

Einar E. Sæmundsen f. 5.mars 1941 – d. 15. september 2023

 Einar E. Sæmundsen, landslagsarkitekt og fyrsti formaður SAMGUS, lést 15. september 2023. Hann fæddist í Reykjavík 5. mars 1941 en ólst upp fyrstu fimm árum á Vöglum í Fnjóskadal, þar sem faðir hans var skógarvörður. Fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur 1947 og síðan í Kópavog 1950.

Einar útskrifaðist sem handavinnukennari árið 1961 en fór svo til Danmerkur í garðyrkjunám og þaðan til Noregs þar sem hann lauk tækninámi í garðyrkju 1965. Einar starfaði í eitt ár á Teiknistofu Reynis Vilhjálmssonar og fór síðan í nám í landslagsarkitektúr við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn þaðan sem hann útskrifaðist árið 1972. Næstu árin starfaði Einar á Teiknistofu Reynis Vilhjálmssonar en hóf rekstur eigin teiknistofu 1977.

Árið 1987 var Einar ráðinn garðyrkjustjóri Kópavogsbæjar og gegndi hann þeirri stöðu til ársins 1993. Ári síðar stofnaði hann teiknistofuna Landmótun ásamt landslagsarkitektunum Yngva Þór Loftssyni og Gísla Gíslasyni og starfaði þar til 2017. Meðal fjölmargra verkefna sem Einar kom að á löngum starfsferli sínum eru hönnun Gufuneskirkjugarðs, Fossvogskirkjugarðs, Kópavogskirkjugarðs, Seðlabanka Íslands, skipulag þjóðgarðsins við Jökulsárgljúfur, skipulag þjóðgarðsins á Þingvöllum, skipulag miðhálendis Íslands og skipulag Geysissvæðisins, ásamt fjölmörgum einkalóðum og öðrum skipulags- og hönnunarverkefnum um land allt.

Einar sat í stjórn Landverndar á árunum 1974-1985 og í Náttúruverndarráði 1981-1992. Hann var um tíma í hlutastarfi lektors við Landbúnaðarháskóla Íslands og síðar stundakennari við skólann.

Hann var einn af stofnendum SAMGUS árið 1992 og fyrsti formaður samtakanna og heiðursfélagi. Einnig var hann stofnfélagi FÍLA árið 1978 og jafnframt heiðursfélagi félagsins frá 2015. Hann ritaði ótal greinar um skipulagsmál, garðhönnun og garðsögu. Árið 2018 gaf hann út bókina „Að búa til ofurlítinn skemmtigarð“ með undirtitlinum Íslensk garðsaga – landslagsarkitektúr til gagns og prýði.

Einar, eða Bússi eins og flestir kölluðu hann, var vandaður maður og einstaklega þægilegur samstarfsmaður. Óbilandi elja hans og áhugi gegnum tíðina hefur skilað sér til meiri fagmennsku í skrúðgarðyrkju, landslagsarkitektúr og skipulagsmálum almennt enda var hann einn af helstu frumkvöðlunum á því svið hérlendis. Framlag hans til garðsögu Íslands er einnig ómetanlegt.

Blessuð sé minning hans.

 Friðrik Baldursson

 

Jóhann Pálsson f. 21. júlí 1931 – d. 3. mars 2023

Jóhann Pálsson fyrrverandi garðyrkjustjóri Reykjavíkur var kvaddur frá Grafarvogskirkju á 92. aldursári þann 9. mars 2023. Hans minnumst við hér sem eins stofnfélaga Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra sem stofnað var árið 1992. Jóhann réðst til Reykjavíkur sem garðyrkjustjóri árið 1985 en þá voru mjög fáir með það starfsheiti. Hann gegndi því starfi til ársins 2001 er hann lét af störfum fyrir aldurssakir.

Haustið 1986 hittist í fyrsta sinn hópur er myndaði forvera Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra, sem stofnuð voru formlega norður á Akureyri 1992, skammstöfuð SAMGUS.

Jóhann Pálsson fæddist í Reykjavík 17. júlí 1931 og lést 3. mars 2023, hann var Reykvíkingur í húð og hár en rætur hans lágu við borgarmörkin í Keldnalandi. Þar lék hann sem barn og ræktaði landið til hinsta dags, yndisskóg í Kálfamóa sem hann skilur eftir sig.

Þrátt fyrir þennan áhuga á ræktun strax í æsku, liðu áratugir þar til hann sveigði á þá braut. Hann hóf ungur nám í leiklist og starfaði við þá listgrein í um tvo áratugi. Jóhann starfaði einnig sem loftskeytamaður og sigldi á millilandaskipum. Þar til hann hóf nám í líffræði við Háskóla Íslands: Hann stundaði síðan í grasafræði við Háskólann í Uppsölum. Að því námi loknu fluttist fjölskyldar norður á Akureyri þar sem Jóhann tók við stöðu forstöðumanns við Lystigarðinn. Þá fékk hann áhuga á ræktun rósa og kynnti sér norðlæg afbrigði.

Jóhann flutti suður og gerðist garðyrkjustjórinn í Reykjavík 1985. Hann var öflugur á sviði gróður rannsókna og kynbóta, þar sem hann leitaði að nýjum tegundum til ræktunar í borgarlandinu. Áhugi hans á rósum varð til þess að hann flutti inn í tilraunaskyni norðlægar rósir fyrir borgarlandið.

Jóhann vann að uppbyggingu Húsdýragarðsins og síðan Fjölskyldugarðsins í Laugardal auk fjöldamargra annarra framkvæmda á grænum svæðum.

Árið 1985 stofnuðu nokkrir áhugamenn óformlegan félagsskap sem kallast Gróðurbótafélagið um varðveislu á söfnunarefni frá Alaska 1985 og kynbætur trjáa. Þar á meðal Jóhann Pálsson en Vilhjálmur Lúðvíksson veitti félaginu formennsku. Síðar beindist áhugi þeirra að kynbótum á íslensku birki, sem Þorsteinn Tómasson hefur mest fengist við. Þessi félagsskapur tók að sér að finna fallegustu birkitrén á höfuðborgarsvæðinu. Valin voru tré með einn meginstofn, heppilega greinabyggingu, ljósan barkarlit og góðan vöxt. Afrakstur þessara kynbóta varð birkikvæmið Embla.

Jóhann stundaði kynbætur á garðrósum og mörg af þeim rósayrkjum má sjá í Rósagarðinum í Laugardal og sum þeirra fást í garðyrkjustöðvum. Um 1990 prófaði Jóhann eigin víxlanir á rósum, fyrsta yrki hans heitir Hadda (eftir konu sinni) og Logafold (heimili þeirra).

Jóhann Pálsson var fræðimaður ritaði fjölda fræðigreina og gerði úttektir á flóru og framvindu gróðurs og náttúru í ýmis tímarit og bækur. 

Þakka yfirlestur Þórólfs Jónssonar, einnig góðar ábendingar og mynd frá Vilhjálmi Lúðvíkssyni.

Erla Bil Bjarnardóttir

 

Árni Steinar Jóhannsson f. 12. júní 1953 – d. 1.nóvember 2015

Árni Steinar Jóhannsson fæddist á Dalvík 12. júní 1953. Hann lést á Dalvík 1. nóvember 2015 og var jarðsettur í Dalvíkurkirkjugarði 9. nóvember sama ár.

Foreldrar Árna Steinars voru hjónin Valrós Árnadóttir, f. 3. ágúst 1927, fyrrverandi verslunarkona á Dalvík, og Jóhann Ásgrímsson Helgason sjómaður, f. 20. nóvember 1920, d. 9. apríl 1963. Systkini Árna Steinars eru Friðbjörg, Helga og Óli Þór Jóhannsbörn.

Árni Steinar ólst upp á Dalvík og lauk þar gagnfræðaprófi árið 1969. Hann var við nám í Memorial High í Wisconsin í Bandaríkjunum 1971, lauk prófi í skrúðgarðyrkju frá Garðyrkjuskóla ríkisins 1974 og stundaði svo framhaldsnám í Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1974-1979. Eftir námsdvölina í Danmörku settist Árni Steinar að á Akureyri og varð garðyrkjustjóri bæjarins 1979-1986 og umhverfisstjóri 1986-1999. Hann var kosinn alþingismaður fyrir Vinstri græna í Norðurlands-kjördæmi eystra 1999-2003. Eftir að þingmennsku lauk var hann í ráðgjafarstörfum og síðar umhverfisstjóri Fjarðabyggðar til dánardægurs. Árni Steinar var virkur í ýmsum félagasamtökum um ferðamennsku og umhverfismál, bæði hérlendis og erlendis. Hann var í stjórn Rarik 2008-2014, þar af stjórnarformaður 2009-2014. Í stjórnmálum var hann fyrst í framboði fyrir Þjóðarflokkinn 1987 og 1991, síðan fyrir Alþýðubandalagið og óháða 1995, Vinstri græna 1999 og 2003. Hann var varaþingmaður 1996, 1998, 2003 og 2006. Á Akureyrarárunum byggði Árni Steinar ásamt öðrum nýbýli út úr jörðinni Höskuldsstöðum í Eyjafjarðarsveit og nefndi Rein. Það var í senn íbúðarhús og gróðrarstöð. Árni var brautryðjandi í grænu bæjarskipulagi.

Vorið 1992 boðaði Árni Steinar garðyrkjustjóra sveitarfélaga til Akureyrar til formlegs stofnfundar Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga, sem hans hugmynd var að skammstafa SAMGUS. Þá var fyrsta formlega stjórn SAMGUS kosin, en nokkur hópur hafði hist óformlega frá haustinu 1986, venjulega þegar Árni Steinar var á ferð í borginni. Hann var fyrsti umhverfisstjóri hjá sveitarfélagi, enda umhverfismálin fyrirferðarmeiri með hverju árinu.

Í tilefni tíu ára afmælis SAMGUS var þann 8. mars 2002 haldin ráðstefnan Umhverfismál sveitarfélaga, þar var reynt að höfða til bæjar- og sveitarstjórnarmanna og starfsmanna sem vinna við umhverfis- og skipulagsmál sveitarfélaga. Einnig til fagaðila innan „græna geirans”. Tilgangurinn var að ræða umhverfismál og auka þverfaglegt samstarf í sveitarfélögum á því sviði. Í lok vel heppnaðrar ráðstefnu opnaði Árni Steinar Jóhannsson alþingismaður nýja vefsíðu samtakanna www.samgus.is

Tilgangur og tilurð SAMGUS verða ekki rakin hér, þær upplýsingar er m.a. að finna í annál 1992-2002 hér á www.samgus.is

Árni Steinar var tvímælalaust frumkvöðull í umhverfismálum sveitarfélaga sem við félagar hans tókum mark á. Þar má telja hugmynd hans um græna byltingu í bæjarskipulaginu árið 1980 sem kallaðist græni trefilinn sem skyldi umvefja Akureyrarbæ. Hann lá ekki á skoðunum sínum um málefnin og alltaf tilbúinn að miðla af þekkingu sinni. Árni Steinar hafði einstakt lag á að ná athygli fólks og var hrókur alls fagnaðar, enda sterkur persónuleiki: fyrirferðarmikill, sjálfsöruggur, fullur af lífsgleði. Ávallt klæddur einkennisfatnaði sínum; hvíti skyrtu með bindi, svellfínn á frakkanum og gljáfægðum skóm. Frásagnargleði hans var einstök og hann gat hrifið alla viðstadda með sér með skemmtilegum sögum. Árni Steinar hafði mannbætandi áhrif á alla sem umgengust hann og hafði áhrif á marga sem hneigðust að garðyrkju og umhverfismálum. Hann var m.a. fulltrúi SAMGUS í Evrópska borgarskógræktarverkefninu COST.

Eitt var það í fari Árna Steinars sem hann hafði meira af en aðrir kollegar hans, það var að skipuleggja móttökur og veita leiðsögn innlendum sem erlendum hópum sem var viðbótarkostur umhverfisstjórans.

Árni Steinar skilur eftir sig þekkingu víða í samfélaginu. Hann var gerður að heiðursfélaga SAMGUS árið 2014 fyrir brautryðjandastörf sín fyrir samtökin og framlag til umhverfismála sveitarfélaga. Hann var árið 2014 sæmdur heiðursmerki SATS, Samtaka tæknimanna sveitarfélaga fyrir vel unnin störf á sviði umhverfis-, framkvæmda- og tæknimála hjá sveitarfélögum og fyrir framtak til eflingar Samtökum tæknimanna sveitarfélaga og fyrir félagsstörf í þágu samtakanna. Við fráfall hans var stórt skarð höggvið í raðir garðyrkju- og umhverfisstjóra hjá sveitarfélögum, en við höldum áfram að fegra bæina okkar og minnumst Árna Steinars í verkum okkar.

Árni Steinar féll frá langt fyrir aldur fram eftir baráttu við krabbamein. Til að minnast hans hafði SAMGUS forgöngu um að reisa minnisvarða á opnu svæði við Karlsrauðatorg í heimabæ hans Dalvík í samstarfi við sveitarfélagið Dalvíkurbyggð og RARIK.

Hann var heimsborgari og drengur góður.

SAMGUS

Kennitala

521093-2509

Tengiliður

Ingibjörg Sigurðardóttir
S: 664 5674

Við viljum heyra frá þér

14 + 6 =