Enn á ný berast fréttir þess efnis að gróður hafi, í leyfisleysi, verið eyðilagður. Skilningsleysi á verðmætum sem felast í jákvæðum áhrifum gróðurs virðist ráða för, en ekki er hægt að senda reikning fyrir jákvæðum áhrifum gróðurs á mannlífið.
Framleiðsla á gróðri er kostnaðarsöm og tímafrek, en mikil verðmæti eru falin í heilbrigðu fallegu tré sem hefur náð góðri hæð og veitir skjól, auðgar dýralíf, vinnur gegn gróðurhúsaáhrifum og fegrar umhverfið.
Sitt sýnist hverjum og oft má gróður víkja, en það þarf að standa rétt að því. Fyrst þarf að afla tilskilinna leyfa og skoða áhrif þess að fjarlægja gróður í samvinnu við alla sem hlut eiga að máli. Við klippingu og grisjun þarf að vanda til verka svo vel sé og því mikilvægt að fá aðstoð fagaðila sem geta bæði leiðbeint við framkvæmdina og komið þar með í veg fyrir að klippingar valdi varanlegu tjóni á plöntunum.