SAMGUS fagnar 30 ára afmæli í ár og var því efnt til ráðstefnu sem bara heitið Grænu svæðin og loftslagsmálin – frá hönnun til umhirðu. Ráðstefnan var haldin í sal safnaðarheimilis Hafnarfjarðarkirkju Hásölum miðvikudaginn 6.apríl. Vel var mætt eða um 80 manns sátu mjög áhugaverða ráðstefnu. 

Hér má sjá þau erindi sem voru á ráðstefnunni:

Einar E. Sæmundssen fyrsti formaður Samgus setti ráðstefnuna
Gunnar Óli Guðjónsson – Stokkar og Steinar
Jón Kalmansson – Hvaða þýðingu hafa töfrar náttúrunnar? 
Ása L. Aradóttir – Náttúra í hinu byggða umhverfi. 
Guðríður Helgadóttir – Blóma engi, villtur gróður og sláttur
Edwin Roald – Carbon Par: Kolefnisbinding á slegnu grasi
Sigríður Kristjánsdóttir – Skipulag svæða
Steinar í Þöll – Götutré – hvað virkar? 

Ráðstefnunni lauk kl 15 og hófst þá dagskrá vorfundar Samgus.

Félagsfólk innritaði sig á Viking hótel við Fjörukránna í Hafnarfirði og rölti um sólríkan Hafnarfjörð. 

Kl 17 tók Björn Pétursson bæjarminjavörður Hafnarfjarðar á móti hópnum í Byggðarsafni Hafnarfjarðar þar sem fólk skoðaði sig um og gæddi sér á veglegum veitingum. Eftir dágóða og fróðlega stund í safninu rölti hópurinn til baka á Fjörukránna þar sem kvöldverður var í boði Samgus. 

Fimmtudaginn 7. Apríl hittust félagsmenn í Þjónustumiðstöð Hafnarfjarðar að Norðurhellu 2, boðið var upp á veglegan morgunmat á meðan félagsfólk gæddi sér að honum kynnti Björn Bögeskov Hilmarsson forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar starf umhverfis- og skipulagssviðs bæjarins. Síðan var fólki boðið upp á að skoða aðstöðuna sem er til fyrirmyndar og virkilega gaman að skoða. 

Eftir góða stund í Þjónustumiðstöðinni var haldið af stað í rútu og garður systranna í Karmelklaustri skoðaður. Tvær systur tóku á móti hópnum sem fræddu hópinn um afar fallegan garð sem þær sinna af mikilli list. Ekki sakaði hversu fallegt veðrið var og var dásamlegt að ganga um garðinn og skoða skjólgóðann og fallegan garð. 

Næst var boðið upp á hádegisverð í Hásölum.

Eftir vel þeginn hádegisverð var haldið áfram í útsýnisferð um Hafnarfjörð, gengið var um í Hellisgerði sem verður 100 ára á næsta ári, þangað er alltaf gaman að koma. Víðistaðatún skoðað og sögðu heimamenn frá svæðinu. Nýbyggingasvæði í Skarðshlíð tekið út og keyrt um splunkunýjan veg sem tengir Skarðshlíð við Kaldárselsveg og inn í Hafnarfjörð. 

Þessari fróðlegu og skemmtilegu útsýnisferð lauk við svæði Kaplakrika en þar tók Viðar Halldórsson á móti hópnum og sagði frá starfsemi FH, einnig var gengið um svæðið og skoðað í nýjasta hús FH-inga Skessuna. En það er stálgrindarhús klætt með segli sem leyfir iðkenndum að æfa fótbolta allt árið um kring. 

Því næst var haldið í Kænuna þar sem Lúðvík Geirsson hafnarstjóri og fyrirverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar sagði frá framtíðarsýn, uppbyggingu og starfsemi Hafnarfjarðarhafnar. Þáðu félagsmenn léttar veitingar. 

Kvöldverður var í Kænunni í boði Hafnarfjarðar og var setið fram eftir kvöldi í góðu spjali. 

Föstudagur 8.apríl

Aðalfundur Samgus haldin í Félagsheimili Sörla

Áður en fundur var settur sagði Einar E. Sæmundssen Landslagsarkitekt frá verkefni sínu Garðar – Lifandi minjar.

Fundur var svo settur kl 10:00

Heiða Ágústsdóttir ritari var staðgengill formanns á fundinum. Stungið var upp á Birni Bögeskov Hilmarssyni sem fundarstjóra og var það samþykkt. 

Heiða Ágústsdóttir las skýrslu stjórnar 2021

Sirrý Garðarsdóttir las upp ársreikning 2021 og var hann samþykktur án athugasemda. Sirrý las einnig upp fjárhagsáætlun fyrir árið 2022. 

Kosning formanns og stjórnar, auk tveggja endurskoðenda H. Birgir Haraldsson og Kári Aðalsteinsson endurskoðendur.

Berglind Ásgeirsdóttir og Sirrý Garðarsdóttir ganga úr stjórn í stað þeirra koma Kristín Snorradóttir frá Hveragerði og Svavar Sverrisson úr Kópavogi. 

Heiða Ágústsdóttir las upp nýja félagsmenn voru þeir samþykktir og boðnir velkomnir í félagið. 

Önnur mál: 

Lagt fram í tilefni 30 ára afmæli Samgus að uppfæra logo félagsins. Lagðar voru fram nokkrar tillögur. Félagsmenn voru mishrifnir af tillögunum. Tekin var ákvörðun um að vinna áfram með logo félagsins eins og það lítur út í dag og uppfærða það frekar en að umturna alveg. Heiða Ágústsdóttir ætlar að vinna áfram með þetta og kynna á haustfundi sem verður haldinn í Hveragerði í september. 

Erla Bil Bjarnadóttir, Friðrik Baldursson og Björn Bögeskov Hilmarsson kynntu annál Samgus 2002 – 2022 sem verður birtur á samgus.is þegar hann verður tilbúinn. 

Friðrik tók saman alla þá félaga sem hafa verið og eru í Samgus og sýndi lista sem var hengdur upp fyrir alla að skoða. 

Friðrik Baldursson og Björn Bögeskov Hilmarsson minntust félaga sem létust á síðasta ári þau Björg Gunnarsdóttir og Siggeir Ingólfsson. 

Önnur mál voru ekki á dagskrá:

Fleira ekki gert, fundi slitið kl 11.10

Eftir fund voru haldnar vinnustofur og fólki skipt upp í fjóra hópa. Ræddi hver hópur eftirfarandi mál:

Aukið samráð meðal félagsmanna allt árið
Sorpflokkun á  opnum svæðum og vinnustað
Rekstrarhandbók og BSI á Íslandi
Opin svæði, sláttur og villt svæði. 

Niðurstöður þessara vinnuhópa verður birt á samgus.is

Eftir hádegisverð var gengið yfir að Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar þar sem Steinar Björgvinsson tók á móti hópnum og fræddi um starfsemi félagsins.

Stjórn Samgus þakkar Hafnarfjarðarbæ fyrir gott skipulag, skemmtilega og fróða dagskrá og umfram allt dásamlega gott veður.