Aðalfundur SAMGUS – Selfoss 2023

Skýrsla stjórnar 2022

Stjórn SAMGUS frá 1. október 2022:

Ingibjörg Sigurðardóttir, formaður
Sirrý Garðarsdóttir og Berglind Ásgeirsdóttir, gjaldkerar
Heiða Ágústsdóttir, ritari
Kristín Snorradóttir, meðstjórnandi (fæðingarorlof)
Svavar Sverrisson, meðstjórnandi

Stjórnin

Stjórn SAMGUS frá síðasta aðalfundi er þannig skipuð: Ingibjörg Sigurðardóttir formaður, Sirrý Garðarsdóttir og Berglind Ásgeirsdóttir gjaldkerar, Heiða Ágústsdóttir ritari, Kristín Snorradóttir og Svavar Sverrisson meðstjórnendur.
Endurskoðendur ársreikninga voru á síðasta aðalfundi kjörnir þeir H. Birgir Haraldsson og Kári Aðalsteinsson.

Haldnir voru níu stjórnarfundir á tímabilinu 2022-2023. Auk þess sem mikil samskipti voru í síma,tölvupóstum og messenger. Samstarfið hefur að venju gengið mjög vel.

Samskipti og tenglar

LbhÍ, Garðyrkjuskólinn og FSu –

Búið er að færa Garðyrkjuskólann undir FSu og hefur fluttningurinn að mestu gengið vel. 
Skipaður var svokallaður framtíðarhópur, sem var skipaður af hagsmunaaðilum fagsins.
Hópurinn skilaði af sér skýrslu fyrir áramót sem á enn eftir að fá faglega umfjöllun og meðferð hjá þinginu.
Framtíðin virðist vera björt á Reykjum og því ber að fagna.

SATS

Vorfundur SATS fer fram á Akureyri dagana 4. og 5. Mai 2023.  Fyrir áhugasama er hægt að skrá sig  á www.samgus.is en félagsmenn Samgus eru velkomin á SATS fundi.
SATS hefur alltaf óskað eftir erindi frá Samgus fyrir fundi hjá þeim og höfum við oftast fundið eitthvað skemmtilegt út úr því.  Stjórnirnar hafa ekki fundað saman enn sem komið er. Ritari hefur nýverið sett sig í samband við formann SATS með von um fundarboð á vormánuðum.

Norræn samskipti

Þórólfur Jónsson hefur leitt þessi samskipti sem áður, en nú með Berglind Ásgeirsdóttur sér við hlið. Fyrirhuguð ferð til Finnlands verður farin í September á þessu ári. Dagskrá verður kynnt á aðalfundi SAMGUS og á samgus.is

Von stjórnar er að félagsmenn fjölmenni á þessa ráðstefnu.

Vinnuskólahópurinn

Hópurinn fundaði ekki formlega árið 2022 en fundaði nýverið á netinu.
Það stendur til að funda aftur í haust.

Heimasíða SAMGUS

Heimasíðan www.samgus.is er opin og eru nýlegar fréttir komnar þar inn. Félagsmenn eru hvattir til að fara reglulega inn á síðuna og fylgjast með nýjustu upplýsingum og fréttum. Einnig mega félagsmenn vera duglegir að senda inn efni sem má birta á síðunni eða benda stjórn á hvað þeim finnst að ætti að skoða og birta. Heiða Ágústsdóttir ritari hefur séð um að uppfæra nýtt efni á síðunni og má senda til hennar á heida@mos.is fréttir og tilkynningar til birtingar á síðunni.

Facebook síður

Stjórn minnir á opna síðu Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga og lokaða síðu Félagsmanna SAMGUS. Eru allir félagar hvattir til þess að gerast meðlimir í lokaða hópnum og líka við opnu síðuna. Þar er góð leið að deila myndum og öðru efni sem má svo færa yfir á heimasíðuna www.samgus.is þegar fundist hefur hentugur miðill til að halda utan um myndirnar á vefnum.

Ritnefnd Samgus næstu ár

Annáll SAMGUS hefur verið ritaður frá 1992-2002 og frá árunum 2002 – 2022 og er aðgengilegur inná heimasíðu SAMGUS. Ritnefnd var valin á aðalfundi 2021 og voru það þau Erla Bil Bjarnardóttir, Steinunn Árnadóttir, Björn Bögeskov Hilmarsson og Friðrik Baldursson sem rituðu sögu félagsins og þökkum við þeim vel fyrir þá vinnu.

Fastir fundir SAMGUS

Samgus hefur frá stofnun samtakanna árið 1992 haldið tvo fasta fundi á ári, annan að vori og hinn að hausti. Aðalfundur Samgus 2022 var síðast haldin í Hafnarfirði og Haustfundur fór fram í Hveragerði.

Stjórnin þakkar gestgjöfum og skipuleggjendum undirbúning, góðar móttökur og skemmtilega dagskrá.

Aðalfundur Apríl 2022 – í Hafnarfirði – stiklað á stóru
Árið 2022 fagnaði Samgus 30 ára afmæli og var því efnt til ráðstefnu sem bar heitið Grænu svæðin og loftslagsmálin – frá hönnun til umhirðu. Ráðstefnan gekk vel og var vel mætt.

Þegar ráðstefnu lauk hófst dagskrá vorfundar í Hafnarfirði.

Tekið var á móti hópnum í Byggðarsafni Hafnarfjarðar og svo borðað á Fjörukránni í boði Samgus.

Á fimmtudegi hittust félagsmenn í Þjónustumiðstöð Hafnarfjarðar þar sem boðið var uppá veglegan morgunverð og kynningu á starfsemini. Að því loknu var garður systranna í Karmelklaustri skoðaður og svo boðið upp á hádegisverð í Hásölum.

Þá var haldið í útsýnisferð um Hafnarfjörð sem lauk á skoðunarferð um Kaplakrika. Og að því loknu var haldið í Kænuna þar sem sagt var frá framtíðarsýn, uppbyggingu og starfsemi Hafnarfjarðarhafnar. Kvöldverður var í boði Hafnarfjarðar á Kænunni.

Á föstudegi var aðalfundur haldinn í félagsheimili Sörla, Einar E. Sæmundssen sagði frá verkefni sínu Garðar – Lifandi minjar.

Í lok fundar var gengið yfir til Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og starfsemin kynnt.

Ítarlega fundargerð vorfundar 2022 má nálgast á www.samgus.is