Aðalfundur SAMGUS 2017

Skýrsla stjórnar

milli aðalfunda 2016-2017

Stjórn SAMGUS frá 15. apríl 2016:

Freyr Ævarsson, formaður

Berglind Ásgeirsdóttir, gjaldkeri

Sigríður Garðarsdóttir, ritari

Bjarni Ásgeirsson, meðstjórnandi

Valur Þór Hilmarsson, meðstjórnandi

Stjórnin

Stjórn SAMGUS frá síðasta aðalfundi er þannig skipuð: Freyr Ævarsson formaður, Berglind Ásgeirsdóttir gjaldkeri, Sigríður Garðarsdóttir ritari og Bjarni Ásgeirsson og Valur Þór Hilmarsson meðstjórnendur. Endurskoðendur ársreikninga voru á síðasta aðalfundi kjörnir þeir Þorgeir Adamsson og Haraldur Birgir Haraldsson. Þar sem Þorgeir er hættur í félaginu var Björn Bögeskov Hilmarsson fenginn til að skoða ársreikninginn með Haraldi Birgi að þessu sinni.

Haldnir voru ellefu stjórnarfundir á starfsárinu, auk þess sem mikil samskipti voru í síma og tölvupóstum. Samstarfið hefur að venju gengið mjög vel.

Samskipti og tenglar
SAMGUS hefur fulltrúa og tengiliði í ýmsum nefndum o.þ.h. Hér er það helsta talið upp.

SATS
Sigurður Hafliðason hefur verið tengiliður SAMGUS við SATS (Samtök tæknimanna hjá sveitarfélögum) frá síðasta aðalfundi og setið stjórnarfundi hjá þeim. Hann er jafnframt fulltrúi okkar í sérstakri heiðursmerkjanefnd samtakanna. SATS, ásamt Félagi byggingarfulltrúa og Félagi skipulagsfulltrúa, heldur sína fundi að vori og hausti, líkt og SAMGUS. Óskað hefur verið eftir að SAMGUS leggi til erindi á þessum fundum og/eða stingi upp á fyrirlestrum og hefur félagið orðið við því.

Vorfundur SATS 2016 var haldinn í Fjallabyggð 12. og 13. maí og flutti Björn Bögeskov Hilmarsson þar erindi.

Haustfundur SATS var að venju í Reykjavík, að þessu sinni 4. nóvember. Báða fundina sótti nokkur fjöldi SAMGUSara venju samkvæmt.

Vorfundur SATS 2017 verður haldinn í Vík í Mýrdal dagana 4 og 5. maí nk. Við vonumst til að einhverjir SAMGUSarar sjái sér fært að mæta í Vík í maí.

LBHÍ
SAMGUS á fulltrúa í fagnefndum garðyrkjunámsins við Landbúnaðarháskóla Íslands. Í fagnefnd skrúðgarðyrkjubrautar eru Friðrik Baldursson og Björn Bögeskov Hilmarsson. Í fagnefnd skógar- og náttúrubrautar hefur Erla Bil Bjarnardóttir verið fulltrúi SAMGUS, en þar sem hún lætur af störfum innan skamms vantar fulltrúa SAMGUS í hennar stað og verður hann valinn á aðalfundinum. Axel Knútsson er fulltrúi SAMGUS í vinnuhóp sem vinnur að því að garðyrkjuskólinn geti tekið nema á verknámssamning í skrúðgarðyrkju.

Þá situr Erla Bil í stjórn Hollvinafélags Landbúnaðarháskólans f.h. garðyrkju.

Norræn samskipti
Þórólfur Jónsson er tengiliður SAMGUS við norrænu systrasamtökin í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Á fjögurra ára fresti er haldin sameiginleg ráðstefna og í ágúst 2014 var hún haldin í Malmö. Þórólfur fór þangað og hélt erindi. SAMGUS mun standa fyrir næstu ráðstefnu sem verður 2018 og er undirbúningur í höndum Berglindar Ásgeirsdóttur, Friðriks Baldurssonar auk Þórólfs. Dagskrá er nánast tilbúin og verður send út nú í vor, en gert er ráð fyrir að heimasíða ráðstefnunnar fari í loftið í ágúst og þá verði opnað fyrir skráningar. Nánar verður fjallað um ráðstefnuna á aðalfundinum.

Samráðshópur um Staðardagskrá 21
Margir SAMGUSarar sjá um Staðardagskrármálin hjá sveitarfélögunum. Þau mynda samstarfshóp sem hittist reglulega og ræða sameiginleg mál. Lúðvík E. Gústafsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga situr einnig fundina. Tómas G. Gíslason er tengiliður hópsins við SAMGUS og mun hann gefa stutt yfirlit um þau mál á fundinum.

Vinnuskólahópurinn
Samskonar hópur er starfandi um málefni vinnuskóla, enda hafa margir SAMGUSarar rekstur vinnuskóla á sinni könnu. Sl. 20 ár hafa forstöðumenn vinnuskóla á SV-horninu og víðar að hist 1-2 sinnum á ári og borið saman bækur sínar, þó hefur ekki verið fundað undanfarin ár. Friðrik Baldursson er tengiliður þessa hóps við SAMGUS.

Heimasíða SAMGUS
Heimasíðan okkar, www.samgus.is, hefur verið opin sl. ár og settar hafa verið inn fréttir af helstu atburðum.

Facebook síður
Tvær síður sem Berglind Ásgeirsdóttir stofnaði, eru fyrir SAMGUSARA annars vegar opin síða sem heitir Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga og hins vegar lokaður hópur sem heitir Félagsmenn SAMGUS. Allir félagar eru hvattir til að gerast meðlimir í lokaða hópnum og líka við þá opnu.

Fastir fundir SAMGUS
SAMGUS hefur frá stofnun samtakanna árið 1992 haldið tvo fasta fundi á ári, annan að vori og hinn að hausti. Mörg undanfarin ár hefur venjan verið að vera með aðalfund að vori. Ítarlegar fundar­gerðir þessara funda voru sendar félögum og er því ekki ástæða til að endurtaka þær hér, heldur aðeins stikla á stóru. Árið 2016 var vorfundur félagsins haldinn í Garðabæ en í september lögðust SAMGUSarar í víking og héldu haustfundinn í Glasgow. Gestgjöfum og skipuleggjendum, þeim Erlu Bil Bjarnardóttur, Lindu Jóhannsdóttur, Sigurði Hafliðasyni og Smára Guðmundssyni hjá Garðabæ og undirbúningsnefnd haustfundarins, þakkar stjórnin góðar móttökur og fræðandi dagskrár.

Aðalfundur SAMGUS haldinn í Garðabæ, 14. – 15. apríl 2016.
Fimmtudagur 14. apríl
Félagar mættu í Safnaðarheimilið Kirkjuhvol upp úr klukkan níu og tóku tal saman yfir morgun­verðar­borði. Veðrið var bjart en frekar kalt og lofaði góðu fyrir skoðunarferð. 26 mættir þar af einn gestur við dagskrá fimmtudagsins Snorri Sigurðsson Reykjavík. Vorfundinn setti Erla Bil kl.9:30 bauð félaga velkomna og kynnti dagskrá dagsins. Að venju vorfundar er dagskrá fyrri dagsins helguð kynningu á sveitarfélagi fundarstaðarins.

Ávarp flutti Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur í Garðabæ. Skipulag og friðlýsingar fjallaði Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri Garðabæjar um. Erindi um ofanvatnslausnir á Urriðaholti, deiliskipulag Heiðmerkur sem er í vinnslu og samgöngustíga fjallaði um Þráinn Hauksson frá Landslagi.

Stutt hlé til að rétta út sér, síðan tóku við stutt erindi stjórnenda grænna mála bæjarins:

Sigurður Hafliðason, forstöðumaður – Hvað gerir Þjónustumiðstöðin?

Smári Guðmundsson, garðyrkjustjóri – Sláttur, hirðing, skipulag.

Linda Jóhannsdóttir, yfirverkstjóri garðyrkjudeildar – Umhirða á grænum svæðum og tengsl við Vinnuskólann.

Erla Bil umhverfisstjóri – Útmörkin, umsjón friðlýstra svæða, votlendi, samskipti við skógræktarfélög, um landvörslu og sumarstörf ungmenna í umhverfishópum.

Vettvangsferð um Garðabæ og nágrenni var næst, gengið út í rútu.

Í vettvangsferð sáu Sigurður Hafliðason og Erla Bil um leiðsögn um bæinn og skógræktarsvæðin ofan byggðar. Tekin var hressileg ganga um Smalaholtið að áningarstað og Náttúrufræðistofnun Íslands heimsótt, Trausti Baldursson kynnti starfsemina, með kaffi og kleinum. Veglegar móttökur hjá IKEA sem bauð öllum til hádegisverðar. Stefán R. Dagsson verslunarstjóri og Guðný Camilla „sustainability manager“ tóku á móti hópnum, buðu til matar að eigin vali síðan sest að snæðingi í hliðarsal til kynningar á umhverfismálum IKEA sem óskað var eftir að fjallað yrði um. Móttökur og fræðsla um starfsemi IKEA var góð. Bessastaðakirkja var næsta heimsókn, þar tók á móti hópnum í kirkjudyrunum sr. Hans Guðberg Alfreðsson prestur Bessastaðasóknar. Hann var afar fróður um sögu kirkjunnar sem hefur mátt þola súrt og sætt gegnum aldirnar. Ekið var um Álftanesið sem sameinaðist Garðabæ árið 2013, þar eru enn fjölmörg verkefni framundan til að koma jafnvægi milli sveitarfélaganna t.d. eru opnir skurðir þar víða. Eftir akstur um Garðabæ, var ekið til Hafnarfjarðar þar tók Steinþór Einarsson eigandi Garðyrkjan ehf á móti hópnum með kynningu á fyrirtækinu og léttum veitingum.

Að lokum var ekið til kvöldverðar í Safnaðarheimili Garðabæjar í boði Garðabæjar. Þar tók á móti Samgusurum Gunnar Einarsson bæjarstjóri, bauð gesti velkomna og fór með gamanmál. Myndasýning frá SAMGUS var á tjaldi í bakgrunninn.

Adalfundur2016

Föstudagur 15. apríl
Aðalfundur SAMGUS 2016, haldinn í Garðabæ, hófst kl. 9:00.

Viðstaddir: Freyr Ævarsson formaður, Berglind Ásgeirsdóttir, Sigríður Garðarsdóttir, Helga Gunnlaugsdóttir, Valur Þór Hilmarsson, Bjarni Ásgeirsson, Tómas G. Gíslason, Guðjón Steinar Sverrisson, Björn Bögeskov Hilmarsson, Svavar Sverrisson, Friðrik Baldursson, Kári Aðalsteins­son, Sigurður Hafliðason, Smári Guðmundsson, Steinunn Árnadóttir, Þórólfur Jónsson, Auður Jóns­dóttir, Davíð Halldórsson, Guðlaug F. Þorsteinsdóttir, Guðný Arndís Olgeirsdóttir, Guðrún Birna Sigmarsdóttir, Jón Ingvar Jónasson, Linda Jóhannsdóttir, Matthías Ólafsson, Berglind Guðmunds­dóttir, Þorgeir Adamsson og Ólafur Melsted. Erla Bil Bjarnardóttir ritar fundargerð.

Forföll: Jón Birgir Gunnlaugsson á aðalfundinn, en var fyrri daginn. Íris Reynisdóttir boðaði forföll.

Friðrik Baldursson var kosinn fundarstjóri, en Sigurður Hafliðason stjórnaði tæknimálum.

Skýrsla stjórnar flutti Freyr Ævarsson formaður SAMGUS.
Ársreikningar, Berglind Ásgeirsdóttir gjaldkeri, kynnti reikninga félagsins 2015. Reikningarnir voru samþykktir með eignir uppá 1,5 mkr. og samþykkt að félagsgjald verði óbreytt 12.000 kr. Kynnti einnig fjárhagsáætlun fyrir árið 2016.
Stjórnarkjör: Erla Bil Bjarnardóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Tillaga frá stjórn að Bjarni Ásgeirsson í Mosfellsbæ kæmi inn í stjórn, var samþykkt. Að örðu leyti var stjórnin endurkjörin Freyr formaður, Berglind gjaldkeri, Sigríður Garðsdóttir ritari í stað Erlu Biljar og Valur Þór Hilmarsson og Bjarni Ásgeirsson meðstjórnendur.
Félagatal. Erla Bil kynnti níu nýja félaga: Einar Friðrik Brynjarsson umhverfis- og tæknifulltrúi Garðs og Sandgerðis, Jón Ingvar Jónasson yfirverkstjóri þjónustumiðstöðvar Kópavogi (áður hjá Seltjarnarnesi), Smári Jónas Lúðvíksson garðyrkjustjóri Húsavík, Þórir Sigursteinsson smiður garðyrkju Garðabæ, Auður Jónsdóttir yfirverkstjóri Ræktunarstöð Reykjavíkur, Héðinn Björnsson yfirverkstjóri Umhverfismiðstöð Akureyri, Guðlaug F. Þorsteinsdóttir yfirverkstjóri Garðyrkjudeild vestur Reykjavík, Ólafur Melsted skipulags- og umhverfisfulltrúi Hvalfjarðarsveit og Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri Fjarðabyggð. Félagatalið var látið ganga milli félaga á fundinum til leiðréttingar.
Þau sveitarfélög sem saknað er í samtökin eru Árborg, Grindavík, Borgarbyggð, Snæfellsbær og Hornafjörður.
Vefsíðan samgus.is – Berglind sagði frá tveimur síðum sem hún stofnaði á Facebook. Önnur er opin síða en hin lokaður hópur ætlaður félagsmönnum SAMGUS.
Kynnisferð SAMGUS haustið 2016 – Berglind og Sigríður kynntu dagskrá og fyrirkomulag kynnisferðarinnar til Glascow og nágrennis í haust, en þær voru búnar að senda félögum tvær tilkynningar um ferðina. Skráning er til 22. apríl nk. Makar eru velkomnir með að viðbættu 10.000 kr. þátttökugjaldi.
Stjórn SAMGUS ákvað við undirbúning ferðarinnar að samtökin greiddu kostnað við rútur, leiðsögn, aðgang í garða og söfn. Ekki verður veittur styrkur til einstaklinga eins og í fyrri ferðum.
Garðyrkjunámið við LBHI: Sagt var frá fagnefndafundi austur á Garðyrkjuskólanum að Reykjum þann 11. janúar 2016, þar var góð mæting af fulltrúum fagnefndanna þ.á m. Friðrik, Böddi, Erla Bil og Ari f.h. SAMGUS. Yfirlýsing til nýrrar Menntamálastofnunar var undir­rituð af öllum viðstöddum. Efni hennar var að hafna styttingu garðyrkjunámsins sem stofnun­in hefur krafist í tengslum við styttingu náms til stúdentsprófs. Bent var á að verknámið sé utan skólans og nemendur séu á launum á verkstað.
Norræn ráðstefna SAMGUS 2018
Undirbúningsnefnd Norrænu ráðstefnunnar hélt fund 14. apríl á fundarstað. Á 1. fundi fráfarandi stjórnar, þann 27.03.15 var samþykkt að halda ráðstefnuna sem Norrænu systra­félögin hafa beðið eftir í mörg ár. Pantaðir hafa verið salir í Hörpu í Reykjavík, einn aðal­salur og tveir minni til hópavinnu. Félagsmenn töldu sterkt að vera í Hörpunni. Ræða þarf við mögulega samstarfsaðila hér innanlands t.d. Skóg­rækt­ina, Landvernd o.fl. Jafnvel væri hægt að bjóða/leigja fyrir­tækja­kynningu í öðrum minni salnum.
Samráðshópur um Staðar­dagskrá 21 er Tómas kynnti. Fór yfir starfsemi hópsins sem samanstendur af upplýsingum og samráði um umhverfismál þvert á sveitarfélög á SV horni landsins. Öllum er heimilt að vera með. Hann rakti þau mál sem hafa verið til umfjöllunar undanfarið s.s. úrgangsmál sem oft eru rædd, dýrahald, veggjakrot, vorhreinsun opinna svæða, merkingu hjólastíga o.s.frv. Tómas sagði Sd 21 ekki virka í núverandi mynd, breytingar væru framundan.
Tómas nefndi að áhugasamir gætu fengið fundargerðir hópsins sendar til upplýsingar.
SATS Böddi kynnti dagskrá vorfundar SATS sem haldinn verður á Siglufirði (í Fjallabyggð) dagana 12.-13. maí 2016. Hann tekur að sér erindi SAMGUS að þessu sinni, sem kveðju úr stjórn SATS, við sæti hans sem fulltrúi SAMGUS á stjórnarfundum SATS tekur Sigurður Hafliðason sem hefur verið í starfsþjálfun og mætt á nokkra stjórnarfundi.
Fundarstjóri bar upp við fundinn hvort Sigurður væri samþykktur sem næsti tengill. Fundurinn samþykkti Sigga.
Árna Steinars Jóhannssonar minnst – Á haustfundi SAMGUS var Árna Steinars minnst en hann lést 1. nóvember 2015, nokkrum dögum fyrir haustfundinn. Hugmynd um útgáfu bókar þar sem samferðafólk ritaði í var kynnt fyrir stjórn SAMGUS, sem gaf samþykki fyrir að kanna málið. Þær Erla Bil og Steinunn unnu í málinu og fengu til liðs við sig í ritnefnd Friðrik og Bödda. Fjáröflun gekk nokkuð vel, staðfestir styrkir 1,05 mkr. þar af 250þús. kr. framlag SAMGUS, sem kom fram sem tillaga ritnefndar til stjórnar. Bókaútgáfan Opna var til í verkefnið ef efnið sem bærist væri efni í bók, en svo var ekki. Þess vegna ákvað ritnefndin að leggja bókarhugmynd á hilluna.
Plan B er að minnast Árna Steinars á annan hátt t.d. á æskuslóðum hans á Dalvík með einhvers konar áningastað. Þessa hugmynd leist fundarfólki vel á og voru nokkrar góðar umræður um málið. Valur upplýsti að nýlega hafi fundist teikningar Árna Steinars frá námsárum hans í Kaupmannahöfn af opna svæðinu við lækinn. Áhugavert væri að sjá þær. Talað var um hugmyndasamkeppni í félagi við Fíla. Fundurinn ákvað að sent yrði formlegt bréf frá SAMGUS til sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar um viðræður um þessa hugmynd með afriti til stjórnar Fíla.
Næstu fundir SAMGUS – Freyr formaður sagði haustfundinn verða í Glasgow og vor-/aðalfundinn fyrirhugaðan í Mosfellsbæ.
Þorgeir Adamsson kvaddi sér hljóðs, tilkynnti að hann væri búinn að segja upp starfi sínu í Kirkjugörðunum og hyggðist halda til fjalla í landvörslu í sumar. Þakkaði SAMGUS liðin ár.
Erlu Bil þökkuð stjórnarstörfin sem spanna orðið þrjá áratugi. Hún hafði áhyggjur af gögnum SAMGUS sem hún hefur geymt, sem þyrfti að vista á safni.
Með góðri kveðju og þökk fyrir komuna í Garðabæinn

Erla Bil Bjarnardóttir

Fræðsluferð SAMGUS til Skotlands dagana 6.-9. september
Glasgow 1

Ferðalangar hittust hressir og kátir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þriðjudaginn 6. september og fóru þaðan með flugvél Icelandair til Glasgow.

Á flugvellinum tók Inga fararstjóri á móti okkur og við hittum hinn bráðfyndna bílstjóra Kenny, sem keyrði okkur til West End þar sem við nærðum bæði líkama og sál í Kelvingrove safninu.

Þaðan lá leiðin í Botanic Gardens, lítinn almenningsgarð með gömlum og fallegum gróður­húsum. Eitthvað hafði tímabókun okkar þar skolast til og enduðum við á að fá leiðsögn frá Ewen sem er framkvæmdastjóri garðsins, en hann sýndi okkur allt það merkilegasta.

Einstaklega fróðlegt og skemmtileg skoðunarferð um alla ranghala gróðurhúsanna og fengum við að sjá margt sem er í gangi á bakvið tjöldin. Að því loknu fórum við á hótelið og fengum smá tíma fyrir sameiginlegan kvöldverð sem var haldinn á La Bonne Auberge. Þar var einnig haustfundurinn haldinn við góðar undirtektir.

Miðvikudaginn 7. september fórum við öll í hin mögnuðu húsakyni Glasgow City Chambers þar sem þau George og Christine fóru yfir Green Glasgow 2015 verkefnið. Ein­stak­lega metnaðar­fullt og skemmtilegt verkefni þar sem unnið var markvisst að því allt árið að byggja upp græna menningu í borginni og hvetja íbúa til að vera umhverfisvænni í hugsun og hegðun.

Enduðum við daginn með skoðunarferð um Necropolis kirkjugarðinn og skoðuðum þar fjölda skúlptúra, styttur eftir fræga hönnuði og mikilfengleg grafhýsi.

Fimmtudagurinn 8. september rann upp blautur og já… mjög blautur, skipuleggjendum til lítillar gleði þar sem til stóð að vera mikið utandyra þennan daginn. Kenny hressi rútubílsstjórinn fór á kostum eins og áður á meðan Inga sagði okkur frá því sem fyrir augu bar á leið okkar til Mugdock Country Park. Vegna veðurs var skoðunarferðin færð inn í myrkan litin sal, en virkilega fróðlegt og skemmtilegt starf sem þarna fer fram. Eins var Gilian Neil hjá West Lothian Council mjög fróð og sagði okkur margt um Balloch Country Park. Enn rigndi á okkur en þó örlítið minna en hafði gert fyrr um daginn. Veðrið var svo hið fínasta þegar við komum til Luss en við fengum okkur hádegismat á virkilega notalegum stað sem heitir The Village Rest. Södd og sæl fórum við af stað í sól og blíðu, en leiðin lág til Glengoyne Distillery þar sem við smökkuðum á viskí samhliða leiðsögn um verksmiðjuna.

Þar með lauk formlegri dagskrá og flug heim var um hádegi föstudaginn 9. september.

Ferðanefnd þakkar kærlega fyrir sig og hlakkar til að fara aftur út með félagsmönnum SAMGUS við næsta tækifæri, enda frábær og skemmtilegur hópur.

Félagaskrá
Á aðalfundi 2014 náði fjöldi félagsmanna í SAMGUS í fyrsta skipti 50. Síðan þá hefur fjölgun í félaginu verið hæg en örugg og verða félagsmenn eftir aðalfund 2017 orðnir 57.

Það er líka ánægjulegt að hlutur kvenna eykst. Þær eru nú rúmlega þriðjungur félagsmanna en voru tæpur fimmtungur fyrir áratug.

Þeir sem hættu í SAMGUS á árinu eru: Þorgeir Adamsson – Kirkjugörðum Reykjavíkurprófasts­dæmis, Þorkell Gunnarsson – Háskóla Íslands, Kári Aðalseins­son – Landbúnaðarháskóla Íslands, Ólafur Melsteð – Hvalfjarðar­sveit, Hjalti Steinar Guðmundsson – Grindavík og Íris Reynisdóttir – Akranesi.

Nýir félagar á þessum aðalfundi eru: Hrafnhildur Tryggvadóttir hjá Borgarbyggð, Ingibjörg Sigurðardóttir í Hafnarfirði, Lulu Munk Andersen í Hvalfjarðarsveit, Jóna Valdís Sveinsdóttir í Grasagarði Reykjavíkur, Heiða Ágústsdóttir í Mosfellsbæ og Guðbjörg Brá Gísladóttir í Garðabæ.

Stjórnin þakkar þeim sem hætt hafa á árinu fyrir samstarfið og óskum þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi. Jafnframt bjóðum við nýja félaga velkomna í SAMGUS.

Fyrir hönd stjórnar,

Freyr Ævarsson, formaður