Aðalfundur SAMGUS 2016

Skýrsla stjórnar

milli aðalfunda 2015-2016

Stjórn SAMGUS frá 27. mars 2015:

Freyr Ævarsson, formaður

Berglind Ásgeirsdóttir, gjaldkeri

Erla Bil Bjarnardóttir, ritari

Sigríður Garðarsdóttir, meðstjórnandi

Valur Þór Hilmarsson, meðstjórnandi

Stjórnin

Stjórn SAMGUS frá síðasta aðalfundi er þannig skipuð: Freyr Ævarsson formaður, Berglind Ásgeirsdóttir gjaldkeri, Erla Bil Bjarnardóttir ritari, Sigríður Garðarsdóttir og Valur Þór Hilmarsson sem eru meðstjórnendur. Skoðunarmenn ársreikninga voru á síðasta aðalfundi kjörnir þeir Þorgeir Adamsson og Haraldur Birgir Haraldsson.

Haldnir voru 12 stjórnarfundir á starfsárinu, auk þess sem mikil samskipti voru í síma og tölvupóstum. Samstarfið hefur að venju gengið mjög vel þetta árið.

Samskipti og tenglar

SAMGUS hefur fulltrúa og tengiliði í ýmsum nefndum o.þ.h. Hér er upptalið það helsta í þeim efnum.

SATS

Björn Bögeskov Hilmarsson hefur verið tengiliður SAMGUS við SATS (Samtök tæknimanna hjá sveitarfélögum) undanfarin ár og setið stjórnarfundi hjá þeim. Hann er jafnframt fulltrúi okkar í sérstakri heiðursmerkjanefnd samtakanna. Björn hefur ákveðið að gefa ekki lengur kost á sér sem tengiliður SAMGUS við SATS og er tillaga stjórnar að við því hlutverki taki Sigurður Hafliðason. SATS, ásamt Félagi byggingarfulltrúa og Félagi skipulagsfulltrúa, heldur sína fundi að vori og hausti, líkt og SAMGUS. Óskað hefur verið eftir að SAMGUS leggi til erindi á þessum fundum og/eða stingi upp á fyrirlestrum og hefur félagið orðið við því.

Vorfundur SATS 2015 var haldinn í Snæfellsbæ 7. og 8. maí og flutti Magnea Magnúsdóttir þar erindi um landgræðsluverkefni ON á Hellisheiði.

Haustfundur SATS var að venju í Reykjavík, að þessu sinni 6. nóvember. Báða fundina sótti nokkur fjöldi SAMGUSara venju samkvæmt.

Vorfundur SATS 2016 verður haldinn í Fjallabyggð dagana 12 og 13. maí nk. Þar mun Björn Bögeskov Hilmarsson fyrir hönd SAMGUS halda erindi um mikilvægi SAMGUSara. Við vonumst til að einhverjir SAMGUSarar sjái sér fært að mæta í Fjallabyggð í maí.

LBHÍ

SAMGUS á fulltrúa í fagnefndum garðyrkjunámsins Landbúnaðarháskóla Íslands. Í fagnefnd skrúðgarðyrkjubrautar eru Friðrik Baldursson og Björn Bögeskov Hilmarsson. Í fagnefnd skógar- og náttúrubrautar er Erla Bil Bjarnardóttir. Axel Knútsson er fulltrúi SAMGUS í vinnuhóp sem vinnur að því að garðyrkjuskólinn geti tekið nema á verknámssamning í skrúðgarðyrkju.

Lítið hefur verið um fundarhöld hjá þessum fulltrúum á árinu. Þá situr Erla Bil í stjórn Hollvinafélags Landbúnaðarháskólans f.h. garðyrkju.

Norræn samskipti

Þórólfur Jónsson er tengiliður SAMGUS við norrænu systrasamtökin í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Á fjögurra ára fresti er haldin sameiginleg ráðstefna og í ágúst 2014 var hún haldin í Malmö. Þórólfur fór þangað og hélt erindi. SAMGUS mun standa fyrir næstu ráðstefnu sem verður 2018. Nánar verður fjallað um þá ráðstefnu síðar á fundinum.

Samráðshópur um Staðardagskrá 21

Margir SAMGUSarar sjá um Staðardagskrármálin hjá sveitarfélögunum. Þau mynda samstarfshóp sem hittist reglulega og ræða sameiginleg mál. Lúðvík E. Gústafsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga situr einnig fundina. Tómas G. Gíslason er tengiliður hópsins við SAMGUS og mun hann gefa stutt yfirlit um þau mál hér á fundinum.

Vinnuskólahópurinn

Samskonar hópur er starfandi um málefni vinnuskóla, enda hafa margir SAMGUSarar rekstur vinnuskóla á sinni könnu. Sl. 20 ár hafa forstöðumenn vinnuskóla á SV-horninu og víðar að hist 1-2 sinnum á ári og borið saman bækur sínar. Fundað var tvisvar árið 2015 en ekki hefur verið fundað á þessu ári. Friðrik Baldursson er tengiliður þessa hóps við SAMGUS.

Heimasíða SAMGUS

Heimasíðan okkar, www.samgus.is, hefur verið opin sl. ár og settar hafa verið inn fréttir af helstu atburðum.

Facebook síður

Tvær síður sem Berglind Ásgeirsdóttir stofnaði, eru fyrir SAMGUSara annars vegar opin síða sem heitir Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga og hins vegar lokaður hópur sem heitir Félagsmenn SAMGUS. Allir félagar eru hvattir til að gerast meðlimir í lokaða hópnum og líka við opnu síðuna.

Ráðstefnur, námskeið, málþing

Nokkrir SAMGUSarar sóttu sýnikennslu í trjáklifri og -fellingum sem haldið var þann 9. desember 2015. Í tengslum við sýnikennsluna var fundur þar sem rætt var hvernig auka megi öryggi og bæta vinnubrögð þegar unnið er við trjáumhirðu og við notkun keðjusaga.

Utanlandsferð

Haustið 2011 stóð SAMGUS fyrir 5 daga fræðslu- og kynnisferð til Færeyja sem tókst frábærlega. Félagið hafði safnað í dálítinn sjóð sem notaður var til að styrkja þá sem fóru í ferðina. Þá var rætt um að raunhæft væri að fara í slíka ferð á 5 ára fresti. Eins og vonandi flestir vita er því komið að næstu utanlandsferð og verður hún farin til Skotlands 6.-9. september nk.

Fastir fundir SAMGUS

SAMGUS hefur frá stofnun samtakanna árið 1992 haldið tvo fasta fundi á ári, annan að vori og hinn að hausti. Mörg undanfarin ár hefur venjan verið að vera með aðalfund að vori. Ítarlegar fundargerðir þessara funda voru sendar félögum og er því ekki ástæða til að endurtaka þær hér, heldur aðeins stikla á stóru. Árið 2015 má segja að haldnir hafi verið þrír fundir, þ.e. vorfundur í Reykjanesbæ, og tveir haustfundir, sá fyrri á Ísafirði og hinn opinberi haustfundur í Háskóla Íslands. Haustfundurinn á Ísafirði var afar fámennur því þar var einungis einn félagi auk gestgjafa, en fámenni fundarins stafaði af því að ekkert var flogið til Ísafjarðar daginn sem fundurinn var haldinn. Gestgjöfunum og skipuleggjendum, þeim Berglindi Ásgeirsdóttur og Bjarna Karlssyni í Reykjanesbæ, Ralf Trylla hjá Ísafjarðarbæ og Þorkeli Gunnarssyni hjá Háskóla Íslands þakkar stjórnin undirbúninginn, góðar móttökur og fræðandi dagskrár.

Vorferð og aðalfundur

Aðalfundur SAMGUS 2015 var haldinn í Reykjanesbæ dagana 26. og 27. mars í samstarfi Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs.

Mættir voru (sumir reyndar ekki báða dagana): Ágúst Þór Bragason, Berglind Ásgeirsdóttir, Berglind Guðmundsdóttir, Bjarki Þórir Valberg, Bjarni Ásgeirsson, Bjarni Karlsson, Björn Bögeskov Hilmarsson, Davíð Halldórsson, Erla Bil Bjarnardóttir, Freyr Ævarsson, Friðrik Baldursson, Guðjón Steinar Sverrisson, Guðný Arndís Olgeirsdóttir, Guðrún Birna Sigmarsdóttir, Jón Birgir Gunnlaugsson, Jón Ben Einarsson, Jón Ingvar Jónsson, Linda Björk Jóhannsdóttir, Matthías Ólafsson, Páll Ingþór Kristinsson, Samson Bjarnar Harðarson, Sigurður Hafliðason, Smári Guðmundsson, Svavar Sverrisson, Tómas Guðberg Gíslason, Valur Þór Hilmarsson, Vignir Friðbjörnsson og Þorkell Gunnarsson.

Fundurinn hófst á því að farið var í kynnisferð um Keflavík og Njarðvík að morgni 26. mars. í ferðinni var Ungmennagarðurinn við 88. Húsið skoðaður sem og safnið Víkingaheimar og Rokksafnið í Hljómahöll. Í lokin var komið við í skrúðgarðinum í snjókomu og síðan snæddur hádegisverður í Kaffi Duus. Þar bættust félagar í hópinn.

Þá kom fjölfróður Reynir Sveinsson leiðsögumaður frá Sandgerði í rútuna, ekið var um Ásbrú, Ósabotnaveg þar skoðuð forn höfn, Þórshöfn, einnig Hvalsneskirkja sem og Stafnes. Stoppað var í Fræðasetri Náttúrustofu Suðvesturlands í Sandgerði. Þar hélt Samson B. Harðarson erindi um Yndisgarð utan við Sandgerðisbæ sem er við óblíðustu veðurskilyrði allra Yndisgarða á landinu. Fróðlegt stopp með veitingum Sandgerðisbæjar.

Áfram var haldið með skemmtilegri og fróðlegri leiðsögn og komið við á safninu í Garði. Þar var tekin hópmynd. SAMGUSarar snæddu síðan saman kvöldverð á veitingastaðnum Vitanum í Sandgerði.

Gestir voru fyrri daginn Guðbrandur Stefánsson æskulýðsfulltrúi í Garðinum og Sigurður G. Þórarinsson verkfræðingur.

Morguninn eftir var aðalfundur SAMGUS haldinn.

Töluverðar breytingar urðu á stjórn en úr stjórn gengu Friðrik Baldursson, Björn Bögeskov Hilmarsson og Björg Gunnarsdóttir, en Erla Bil Bjarnardóttir og Freyr Ævarsson gáfu kost á sér áfram. Í stað þeirra sem hættu komu inn í stjórnina þau Berglind Ásgeirsdóttir, Sigríður Garðarsdóttir og Valur Þór Hilmarsson. Skoðunarmenn reikninga þeir Haraldur Birgir Haraldsson og Þorgeir Adamsson gáfu kost á sér til áframhaldandi starfa.

Samþykkt var að árgjald yrði óbreytt frá fyrra ári, þ.e. kr. 12.000.-

Á fundinum voru tvö stór mál til umræðu: Annars vegar hvort SAMGUS ætti að standa fyrir Norrænni garðyrkjuráðstefnu árið 2018 og hins vegar hvort stefna ætti á utanlandsferð SAMGUS árið 2016. Að loknum nokkrum umræðum var báðum málum vísað til stjórnar.

Í lok fundarins þökkuðu fráfarandi stjóranrmenn fyrir sig og got samstarf, óskuðu nýrri stjórn velfarnaðar og buðu nýja félaga velkomna.

Hádegisbita kom Jón Ben með. Félagar spjölluðu saman að loknum fundi meðan snætt var brauð og kaffi.

Haustfundur hinn fyrri á Ísafirði

Halda átti haustfund félagsins á Ísafirði 27. og 28. ágúst. Formaður SAMGUS mætti til Ísafjarðar að kvöldi 26. ágúst til að kanna aðstæður og undirbúa komu annarra félaga. Skemmst er frá því að segja að ekkert var flogið til Ísafjarðar daginn eftir og var því ákveðið, eftir allmörg símtöl, að fresta fundinum. Ralf, gestgjafi á Ísafirði, sýndi eina þátttakanda „haustfundar hins fyrri“ ýmislegt af því sem til stóð að sýna þeim SAMGUSurum sem heima sátu. Meðal þess sem skoðað var voru Tjöruhúsið á Ísafirði, snjóflóðavarnargarðar í Bolungarvík, gamall urðunarstaður á Flateyri og skrúðgarðurinn á Núpi þar sem meðfylgjandi „hópmynd“ var tekin. Þátttakandi „haustfundar hins fyrri“ þakkar móttökurnar og leiðsögn, sem voru til fyrirmyndar. 

Haustfundur hinn síðari í HÍ

Eftir miklar umræður og skoðanakönnun meðal félagsmanna (sem einungis sautján félagar tóku þátt í), var ákveðið að halda haustfund SAMGUS í tengslum við haustfund SATS. Í framhaldinu var ákveðið að óska eftir við Háskóla Íslands að vera gestgjafi fundarins.

Viðstödd haustfund voru: Axel Knútsson, Berglind Ásgeirsdóttir, Bjarni Ásgeirsson, Björn Bögeskov Hilmarsson, Davíð Halldórsson, Erla Bil Bjarnardóttir, Friðrik Baldursson, Guðjón Steinar Sverrisson, Guðrún Birna Sigmarsdóttir, Íris Reynisdóttir, Jón Birgir Gunnlaugsson, Jón Ingvar Jónasson, Linda Jóhannsdóttir, Matthildur Ásta Hauksdóttir, Ralf Trylla, Sigríður Garðarsdóttir, Smári Guðmundsson, Steinunn Árnadóttir, Svavar Sverrisson, Tómas G. Gíslason, Þorgeir Adamsson, Þorkell Gunnarsson, Þórólfur Jónsson samtals 23. Forföll boðuðu Freyr Ævarsson formaður og Valur Þór Hilmarsson.

Þorkell Gunnarsson garðyrkjustjóri HÍ setti fundinn kl. 13:00 og bauð félaga velkomna í húsnæði menntavísindasviðs HÍ.

Fundarstjóri var kjörinn Þórólfur Jónsson og Erla Bil Bjarnardóttir ritari.

Fundargerð haustfundar

Ralf Trylla – kynnti Ísafjarðarbæ sem hann var búinn að undirbúa fyrir komu SAMGUSara til haustfundar á Ísafirði sem féll niður eins og áður hefur komið fram. Hann kynnti starfsemi umhverfissviðs Ísafjarðarbæjar sem er víðfeðmt sveitarfélag. Hann kynnti Matthildi sem hefur með garðyrkjuna að gera. Ralf sýndi myndir frá grænum svæðum og náttúru.

Þorkell Gunnarsson – kynnti umsjón og umhirðu lóða Háskólans m.a. tilraun að blá grænum lausnum á háskólasvæðinu, þar sem er gríðarlegur vatnsagi. Sýndi kynningarmyndband af þessu verkefni sem unnið er í samstarfi við Magnús Bjarklind ráðgjafa hjá EFLU þ.e. tilraunir með græn þök. Mælt verður afrennsli af þökunum og veðurstöð er tengd við þökin (skoðað í vettvangsferð). Spennandi verkefni um sjálfbærar ofanvatnslausnir sem eru í vinnslu.

Þorkell kynnti einnig starfsemi Félags skrúðgarðyrkjumeistara, sem hann er formaður í. Félagið er að vinna að námsbók um nýjungar í skrúðgarðyrkju, sem fékk norrænan styrk.

Látins félaga minnst – Erla Bil Bjarnardóttir minntist látins félaga Árna Steinars Jóhannssonar sem lést þann 1. nóv. sl. á heimaslóðum á Dalvík. Hún sýndi nokkrar myndir þar sem Árni Steinar kom við sögu í félagsstarfi SAMGUS. Það má segja að Árni Steinar hafi verið lærifaðir í garðyrkju- og umhverfismálum sem við öll tókum mark á.

Félagsfundur SAMGUS

Norræn ráðstefna SAMGUS 2018 – Þórólfur Jónsson og Berglind Ásgeirsdóttir fóru yfir stöðu undirbúnings norrænu ráðstefnunnar 2018, með glærum sem Friðrik Baldursson kynnti á aðalfundi SAMGUS 2015. Þau héldu undirbúningsfund fyrr um daginn þau Þórólfur, Berglind og Friðrik, en Valur Þór Hilmarsson forfallaðist. Samið hefur verið við ráðstefnuþjónustufyrirtækið Athygli um umsjón ráðstefnunnar. Búið er að taka frá sali í Hörpu dagana 15.-17. ágúst 2018 með tengingu við Menningarnótt borgarinnar. Fjöldi þátttakenda er áætlaður að lágmarki 80 manns. Dýrt er að koma til Íslands, en það er inn að koma hingað til funda svo gera má ráð fyrir 100+. Ekki gera skipuleggjendur ráð fyrir að flytja inn dýra fræga fyrirlesara, en vini okkar í Færeyjum verður haft samband við. Undirbúningsnefndin óskar eftir hugmyndum að erindum og ekki síst styrktaraðilum. Strax var bent á Þorkel Gunnarsson með verkefni sjálfbærra lausna á Háskólasvæðinu. Eftir er að kanna með styrki frá t.d. norrænu ráðherranefndinni. Þátttökugjald er áætlað kr. 80.000.- sem var í Malmö ráðstefnunni kr. 120.000.- gjaldið innifelur skoðunarferðir.

Aðalfundur SAMGUS 2016 – Erla Bil Bjarnardóttir tilkynnti boð Garðbæinga um að halda aðalfund SAMGUS vor 2016.

Kynnisferð SAMGUS 2016 – Berglind Ásgeirsdóttir og Sigríður Garðarsdóttir kynntu innsendar hugmyndir félagsmanna um kynnis/skoðunarferð SAMGUS sem áætluð er haustið 2016. Komu nokkrar tillögur sem voru ræddar og hvað fólki fannst áhugavert þ.e. sýning eða heimsókn í sveitarfélag eða bæði. Félagar töldu áhugaverðast að heimsækja bæjarfélag ekki of stórt frekar en bara sýningu. Tengiliðir hjá bæjarfélögum er mikilvægt atriði í skipulagi slíkrar ferðar. Sýningarsvæði eru svo stór og gleypa tímann, en möguleiki að taka hluta sýningarsvæðis. Til umræðu var sýningin GaLaBau í Nurnberg sem nokkrir hafa sótt. Lönd til skoðunar voru nefnd Skotland, Þýskaland, Írland og Norðurlöndin. Þannig að stjórnin hefur margt um að velja og vinna að. Tómas Gíslason hefur skipulagt slíkar kynnisferðir, því stungið uppá honum til liðsinnis með undirbúning ferðarinnar.

Vettvangsskoðun um Háskólasvæðið í leiðsögn Þorkels Gunnarssonar

Þorkell leiðsagði hópinn í um klukkustund um lóðir Háskólans sem er gríðarlega stórt svæði. Hann sýndi tilraunaverkefnið með gras og hnoðra á þökum, spennandi verður að fylgjast með framvindu þess. Sagði frá fyrirhuguðum byggingum á lóðinni og fleira.

Heimsókn til Vegagerðarinnar

Mættum kl. 16:30 í fundarsal Vegagerðarinnar í Borgartúni þar tók á móti okkur G. Pétur Matthíasson deildarstjóri samskiptadeildar/upplýsingarstjóri, Jónas Snæbjörnsson framkvæmdastjóri framkvæmda og Ásbjörn Ólafsson sem kynnti verkefnið EuroVelo hjólaleiðin. Þeir sannarlega kynntu starfsemi Vegagerðarinnar og svöruðu greiðlega spurningum. Áhugaverð heimsókn, einnig skemmtileg.

Félagaskrá

Eftir aðalfund SAMGUS 2016 verða félagar alls 55 en voru 51 eftir aðalfundinn 2015.

Breytingar sem urðu á félagatalinu á árinu eru eftirfarandi: 1) Þann 1. nóvember sl. lést Árni Steinar Jóhannsson heiðursfélagi SAMGUS 2) Frá síðasta aðalfunda hafa hætt í félaginu þau Guðrún Kr. Björgvinsdóttir – Akureyri, Jón Ingvar Jónasson – Seltjarnarnesbæ, Guðjóna Björk Sigurðardóttir – Reykjavík, Anna Katrín Svavarsdóttir – Fjarðabyggð 3) Á þessum aðalfundi ganga í félagið þau, Auður Jónsdóttir- yfirverkstjóri í Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar, Einar Friðrik Brynjarsson – umhverfis- og tæknifulltrúi Sveitarfélaginu Garði og Sandgerðisbæ, Guðlaug F. Þorsteinsdóttir – yfirverkstjóri garðyrkjudeildar vestur Reykjavík, Héðinn Björnsson – yfirverkstjóri umhverfis­miðstöð Akureyrarbæjar, Jón Ingvar Jónasson – yfirverkstjóri þjónustu­mið­stöðvar Kópavogs, Ólafur Melsted – skipulags- og um­hverf­is­fulltrúi Hvalfjarðarsveit, Smári Jónas Lúðvíksson – garðyrkju­stjóri Norðurþingi og Þórir Sigursteins­son – smiður garðyrkjudeild Garða­bæjar og Anna Berg Samúelsdóttir – Fjarðabyggð.

Stjórnin þakkar þeim sem hætt hafa á árinu fyrir samstarfið og óskar þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi. Jafnframt bjóðum við nýja félaga velkomna í SAMGUS.

Fyrir hönd stjórnar,

Freyr Ævarsson, formaður