Aðalfundur SAMGUS 2015

Skýrsla stjórnar

milli aðalfunda 2014-2015

Stjórn SAMGUS frá 4. apríl 2014:

Friðrik Baldursson, formaður

Björn Bögeskov Hilmarsson, gjaldkeri

Björg Gunnarsdóttir, ritari

Erla Bil Bjarnardóttir, meðstjórnandi

Freyr Ævarsson, meðstjórnandi

 

Hluti núverandi og fyrrverandi félagsmanna á málþingi SAMGUS og GÍ 27. febrúar 2015. Nöfn fyrrum SAMGUSara eru undirstrikuð.

Frá vinstri: Svavar Sverrisson, Friðrik Baldursson, Hrafnkell Proppé, Guðrún Birna Sigmarsdóttir, Jóhann Pálsson, Magnús Bjarklind, Guðný Olgeirsdóttir, Gunnsteinn Olgeirsson, Bjarni Ásgeirsson, Steinunn Árnadóttir, Þórólfur Jónsson, Jón Birgir Gunnlaugsson, Kristinn H. Þorsteinsson, Baldur Gunnlaugsson, Björn Bögeskov Hilmarsson, Berglind Guðmundsdóttir, Ari Eggertsson, Jón Ingvar Jónsson, Smári Guðmundsson, , Linda Björk Jóhannsdóttir, Erla Bil Bjarnardóttir, Sigurður Hafliðason og Samson Bjarnar Harðarson. Aðrir SAMGUSarar sem voru á málþinginu en vantar á myndina eru: Bjarki Valberg, Hjalti J. Guðmundsson, Matthías Ólafsson og Vignir Friðbjörnsson.

Stjórnin

Stjórn SAMGUS frá síðasta aðalfundi er þannig skipuð: Friðrik Baldursson formaður, Björn Bögeskov Hilmarsson gjaldkeri, Björg Gunnarsdóttir ritari, Erla Bil Bjarnardóttir og Freyr Ævarsson sem eru meðstjórnendur. Endurskoðendur ársreikninga voru síðasta aðalfundi kjörnir þeir Þorgeir Adamsson og Haraldur Birgir Haraldsson.

Haldnir voru átta stjórnarfundir á starfsárinu, auk þess sem mikil samskipti voru í síma og tölvupóstum. Sem kunnugt er lét Björg Gunnarsdóttir af störfum hjá Borgarbyggð í árslok og hafa því stjórnarliðar verið fjórir síðan. Þess má geta að Björg gegnir nú stöðu framkvæmdastjóra Garðyrkjufélags Íslands.

Samskipti og tenglar

SAMGUS hefur fulltrúa og tengiliði í ýmsum nefndum o.þ.h. Hér er upptalið það helsta í þeim efnum.

SATS

Björn Bögeskov Hilmarsson er tengiliður SAMGUS við SATS (Samtök tæknimanna hjá sveitarfélögum) og situr stjórnarfundi hjá þeim. Hann er jafnframt fulltrúi okkar í sérstakri heiðursmerkjanefnd samtakanna. SATS, ásamt Félagi byggingarfulltrúa og Félagi skipulagsfulltrúa, heldur sínar fundi að vori og hausti, líkt og SAMGUS. Óskað hefur verið eftir að SAMGUS leggi til erindi á þessum fundum og/eða stingi upp á fyrirlestrum á og hefur félagið orðið við því.

Vorfundur SATS 2014 var haldinn í Reykjanesbæ 15.-16. maí og flutti Margrét Sigurðardóttir þar erindi um leiksvæðastefnu Reykjavíkurborgar. Á fundinum var Árni Steinar Jóhannsson, umhverfisstjóri Fjarðabyggðar sæmdur heiðursmerki SATS, að tillögu SAMGUS.

Haustfundur SATS var að venju í Reykjavík, að þessu sinni 7. nóvember. Báða fundina sótti nokkur fjöldi SAMGUSara venju samkvæmt.

Vorfundur SATS 2015 verður haldinn í Snæfellsbæ dagana 7.-8. maí nk. Þar mun Magnea Magnúsdóttir fyrir hönd SAMGUS halda erindi um landgræðsluverkefni ON á Hellisheiði. Við vonumst til að einhverjir SAMGUSarar sjá sér fært að mæta undir Jökul í maí, þó sumum hafi eflaust fundist þeir hafa verið á jökli í allan vetur.

LBHÍ

SAMGUS á fulltrúa í fagnefndum garðyrkjunámsins Landbúnaðarháskóla Íslands. Í fagnefnd skrúðgarðyrkjubrautar eru Friðrik Baldursson og Björn Bögeskov Hilmarsson. Í fagnefnd skógar- og náttúrubrautar er Erla Bil Bjarnardóttir. Axel Knútsson er fulltrúi SAMGUS í vinnuhóp sem vinnur að því að garðyrkjuskólinn geti tekið nema á verknámssamning í skrúðgarðyrkju.

Lítið hefur þó verið um fundarhöld hjá þessum fulltrúum á árinu. Þá situr Erla Bil í stjórn Hollvinafélags Landbúnaðarháskólans f.h. garðyrkju.

Norræn samskipti

Þórólfur Jónsson er tengiliður SAMGUS við norrænu systrasamtökin í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Á fjögurra ára fresti er haldin sameiginleg ráðstefna og í ágúst 2014 var hún haldin í Malmö. Þórólfur fór þangað og hélt erindi. Óskað hefur verið eftir að SAMGUS haldi næstu ráðstefnu sem verður 2018. Það mál verður tekið fyrir hér á eftir.

Samráðshópur um Staðardagskrá 21

Margir SAMGUSarar sjá um Staðardagskrármálin hjá sveitarfélögunum. Þau mynda samstarfshóp sem hittist reglulega og ræða sameiginleg mál. Lúðvík E. Gústafsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga situr einnig fundina. Tómas G. Gíslason er tengiliður hópsins við SAMGUS og mun hann gefa stutt yfirlit um þau mál hér á fundinum.

Vinnuskólahópurinn

Samskonar hópur er starfandi um málefni vinnuskóla, enda margir SAMGUSara sem hafa rekstur vinnuskóla á sinni könnu. Sl. 20 ár hafa forstöðumenn vinnuskóla á SV-horninu og víðar að hist 1-2 sinnum á ári og borið saman bækur sínar. Síðasti fundur var haldinn 30. Október í Hafnarfirði. Óvíst er hvort haldinn verði samráðsfundur nú fyrir vorið en verði svo verður það tilkynnt á næstunni. Friðrik Baldursson er tengiliður þessa hóps við SAMGUS.

Heimasíða SAMGUS

Heimasíðan okkar, www.samgus.is, hefur verið opin sl. ár og settar hafa verið inn fréttir af helstu atburðum. Björg Gunnarsdóttir hefur stýrt þessum málum, jafnvel eftir að hún yfirgaf SAMGUS.

Ráðstefnur, námskeið, málþing

SAMGUS stóð fyrir tveimum málþingum í Reykjavík á tímabilinu. Það fyrra var haldið 25. september í tengslum við haustfund SAMGUS og fjallaði annars vegar um grasslátt og hirðingu og hins vegar um baráttu við ágengar plöntutegundir. Seinna málþingið, „Ask veit ek standa…“, um trjágróður í þéttbýli, var haldið 27. febrúar í samvinnu við Garðyrkjufélag Íslands. Bæði málþingin þóttu heppnast mjög vel og voru vel sótt, einkum af SAMGUSurum, og að mati stjórnar ætti að halda áfram á þessari braut.

Ekki hefur farið mörgum sögum af námskeiðum LBHÍ fyrir okkar hóp á árinu en þó má nefna má nefna námskeið 10. apríl nk. „Gróðurvist í þéttbýli“ sem ég efa ekki að margir SAMGUSarar sæki.

Af öðrum áhugaverðum námskeiðum o.þ.h. á tímabilinu má t.d. nefna „Minni sóun, meiri hagkvæmni“ sem haldið var á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga 19. mars sl. og daginn eftir á vegum Landgræðslunnar „Lífrænn úrgangur- bætt nýting, minni sóun“

Utanlandsferð

Haustið 2011 stóð SAMGUS fyrir 5 daga fræðslu- og kynnisferð til Færeyja sem tókst frábærlega. Félagið hafði safnað í dálítinn sjóð sem notaður var til að styrkja þá sem fóru í ferðina, alls 24. Þá var rætt um að raunhæft væri að gera þetta á 5 ára fresti og tíminn flýgur því samkvæmt þessu ætti að stefna að utanlandsferð SAMGUS á næsta ári. Peningar eru farnir að safnast fyrir og þetta ætti að vera eitt af verkefnum næstu stjórnar.

Fastir fundir SAMGUS

SAMGUS hefur frá stofnun samtakanna árið 1992 haldið tvo fasta fundi á ári, annan að vori og hinn að hausti. Mörg undanfarin ár hefur venjan verið að vera með aðalfund að vori. Ítarlegar fundargerðir þessara funda voru sendar félögum og er því ekki ástæða til að endurtaka þær hér, heldur aðeins stikla á stóru. Gestgjöfunum og skipuleggjendum, þeim Björgu Gunnarsdóttur, Kára Aðalsteinssyni og Samson B. Harðarsyni annars vegar og Þorgeiri Adamssyni og Sigríði Garðarsdóttur hin vegar, þakkar stjórnin góðar móttökur og fræðandi dagskrár.

Vorferð og aðalfundur

Aðalfundur SAMGUS 2014 var haldinn í Borgarbyggð dagana 3.-4. apríl í samstarfi sveitarfélagsins og Landbúnaðarháskóla Íslands. Aldrei áður hafa jafn margir SAMGUSarar komið saman, hvorki í fjölda né sem hlutfall af félagsmönnum, en mæting var um 80%.

Mættir voru (sumir reyndar ekki báða dagana): Anna Katrín Svavarsdóttir, Ari Eggertsson, Atli Marel Vokes, Axel Knútsson, Ágúst Þór Bragason, Berglind Ásgeirsdóttir, Bjarni Ásgeirsson, Björg Gunnarsdóttir, Björn Bögeskov Hilmarsson, Erla Bil Bjarnardóttir, Freyr Ævarsson, Friðrik Baldursson, Guðjón Steinar Sverrisson, Guðný Arndís Olgeirsdóttir, Gunnsteinn Olgeirsson, Helga Gunnlaugsdóttir, Hjalti Jóhannes Guðmundsson, Íris Reynisdóttir, Jón Birgir Gunnlaugsson, Jón Ingvar Jónsson, Kári Aðalsteinsson, Kristján Bjarnason, Marta María Jónsdóttir, Matthías Ólafsson, Páll Ingþór Kristinsson, Samson Bjarnar Harðarson, Sigríður Garðarsdóttir, Sigurður Hafliðason, Smári Guðmundsson, Steinunn Árnadóttir, Svavar Sverrisson, Tómas Guðberg Gíslason, Úlfar Trausti Þórðarson, Valur Þór Hilmarsson, Þorgeir Adamsson og Þórólfur Jónsson.

Fundurinn hófst við LBHÍ á Hvanneyri en þaðan var farið í rútuferð undir leiðsögn Bjargar Gunnarsdóttur, umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi Borgarbyggðar. Byrjað var á að ganga um Borgarnes og m.a stoppað á hinum sögufræga Bjössaróló og í Skallagrímsgarði, einum elsta skrúðgarði landsins þar fræddi Samson B. Harðarson gesti um áætlun um endurbætur á garðinum Farið var í heimsókn í gróðrarstöðina Gleym-mér-ei, sem er í útjaðri bæjarins, þar tók Sædís Gunnlaugsdóttir á móti hópnum. Síðan var ekið um sveitir Borgarfjarðar þar til komið var að Reykholti. Í Snorrastofu var hlýtt á erindi Eddu Arinbjarnar um fyrirhugaða stofnun jarðvangs (geopark) í Borgarfirði og síðan var farin skoðunarferð um Reykholtsstað undir leiðsögn sr. Geirs Waage sóknarprests og Friðriks Aspelund skógfræðings. Snæddur var kvöldverður í Reykholti og gist þar um nóttina.

Morguninn eftir var aftur haldið með rútu til Hvanneyrar.

Þar sýndi Guðmundur Brynjólfsson hjá OR hópnum skólphreinsistöð fyrir Hvanneyri og síðan sýndi Kári Aðalsteinsson, garðyrkjustjóri LBHÍ, okkur aðstöðu sem hann hefur á staðnum til moltugerðar. Að því loknu var gengið um Hvanneyrarstað undir leiðsögn Bjarna Guðmundssonar forstöðumanns Landbúnaðarsafnsins og endað í nýju skólabyggingunni þar sem aðalfundur SAMGUS var haldinn.

Stjórn SAMGUS og endurskoðendur gáfu öll kost á sér til áframhaldandi setu og var endurkjörin. Einnig var samþykkt að árgjald hækki úr 10.000 kr í 12.000

Árna Steinar Jóhannsson og Steinunn Árnadóttir voru gerð að heiðursfélögum SAMGUS. Anna Katrín tók við heiðursskjali fyrir hönd Árna Steinars en Steinunni var afhent heiðursskjal af fulltrúm stjórnar SAMGUS þegar hún lét af störfum hjá Seltjarnarneskaupstað í maí 2014.

Að loknum aðalfundi var hlýtt á fyrirlestra.

Þorbjörg Kjartansdóttir og Jörgen Þormóðsson kynntu LÍSU-samtökin sem vinna með landupplýsingar, sjá nánar á www.landupplysingar.is og því næst flutti Hlynur Óskarsson dósent og deildarforseti umhverfisdeildar hjá LBHÍ Hugleiðingu um votlendi. Þar fjallaði hann m.a. um Votlendissetur Íslands á Hvanneyri og gagnagrunninn nytjaland, sjá www.nytjaland.is.

Helena Guttormsdóttir námsbrautarstjóri umhverfisdeildar kynnti að lokum nám í umhverfisskipulagi við LBHÍ.

Nýir heiðursfélaga SAMGUS 2015 taka við viðurkenningum, Árni Steinar Jóhannsson í Fjarðabyggð úr hendi Önnu Katrínar Svavarsdóttur og Steinunn Árnadóttir á Seltjarnarnesi úr hendi Friðriks Baldurssonar.

Tvöfaldur haustfundur og málþing

Árlegur haustfundur SAMGUS var haldinn í Reykjavík dagana 24. og 26. september. Fyrri dagurinn var í umsjá Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma (KGRP) og sá síðari í umsjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Daginn þarna á milli, þ.e. 25. september, hélt SAMGUS málþing um grasslátt og hirðingu og baráttu við ágengar plöntutegundir.

Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma

voru gestgjafar miðvikudaginn 24. september.

Mættir í Fossvogskirkjugarð voru:

Axel Knútsson, Berglind Ásgeirsdóttir, Bjarki Valberg, Björg Gunnarsdóttir, Björn Bögeskov Hilmarsson, Erla Bil Bjarnardóttir, Freyr Ævarsson, Friðrik Baldursson, Guðjón Steinar Sverrisson, Guðný Arndís Olgeirsdóttir, Gunnsteinn Olgeirsson, Helga Gunnlaugsdóttir, Jón Birgir Gunnlaugsson, Jón Ingvar Jónsson, Sigríður Garðarsdóttir, Sigurður Hafliðason, Smári Guðmundsson, Svavar Sverrisson, Valur Þór Hilmarsson, Þorgeir Adamsson og Þórólfur Jónsson. Heimir Janusarson og Viðar Gunnarsson starfsmenn KGRP tóku einnig þátt í haustfundinum. Aðrir gestir fundarins voru Þórir Sigursteinsson og Linda Jóhannsdóttir frá Garðabæ og Guðlaug Guðjónsdóttir frá Reykjavíkurborg.

Þorgeir Adamsson kynnti starfsemi garðyrkjudeildar KGRP og Þórsteinn Ragnarsson forstjóri fjallaði um starfsemina almennt. Að lokinni kynningu var farin gönguferð um Fossvogskirkjugarð og duftreitinn Sólland undir leiðsögn Þorgeirs. M.a. var skoðuð nokkuð umfangsmikil moltugerð sem garðyrkjudeildin annast. Eftir hádegisverð var haldið í rútu í Hólavallagarð og hann skoðaður undir leiðsögn Heimis Janusarsonar og Sólveigar Ólafsdóttur sagnfræðings. Þaðan var haldið í Gufuneskirkjugarð þar sem Helena Sif Þorgeirsdóttir verkstjóri sagði frá starfseminni. Því næst var farið aftur í Fossvogskirkjugarð þar sem haldinn var hefðbundinn haustfundur SAMGUS. Hafði þá hópurinn þynnst all ótæpilega því aðeins 14 félagar sátu fundinn. Að fundi loknum var snæddur kvöldverður sem alveg hefði mátt vera fjölmennari.

Orkuveita Reykjavíkur

var gestgjafi föstudaginn 26. september.

Mættir á Bæjarháls 1 voru:

Berglind Ásgeirsdóttir, Björg Gunnarsdóttir, Björn Bögeskov Hilmarsson, Freyr Ævarsson, Friðrik Baldursson, Guðjón Steinar Sverrisson, Guðný Arndís Olgeirsdóttir, Íris Reynisdóttir, Jón Ingvar Jónsson, Ralf Trylla, Sigríður Garðarsdóttir, Svavar Sverrisson og Þórólfur Jónsson. Guðlaug Guðjónsdóttir frá Reykjavíkurborg tók einnig þátt í þessum degi haustfundarins.

Sigríður Garðarsdóttir fjallaði um starfsemi garðyrkjudeildar OR á höfuðborgarsvæðinu og á Suður- og Vesturlandi. Þá var Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingarfulltrúi OR, með kynningu á OR og ON (Orku náttúrunnar). Síðan var Reynir Guðjónsson, öryggisstjóri OR, með kynningu á öryggismálum, m.a. stefnu fyrirtækisins í “Núll slysa sýn”. Að lokum var Magnea Magnúsdóttir landgræðslustjóri ON með kynningu á landgræðslu á Hellisheiði.

Þá var farið upp í rútu og haldið að hreinsistöð fráveitu í Klettagörðum þar sem Stefán Kjartansson verkstjóri hjá Veitum sýndi okkur starfsemina. Þaðan var haldið i félagsheimili OR í Elliðaárdal þar sem gestir fengu hádegissnarl og síðan var gengið að gömlu Elliðaárstöðinni þar sem Ingi Þór Hafsteinsson vélfræðingur sýndi hópnum stöðina. Aftur var haldið upp í rútu og nú farið að Hellisheiðarvirkjun. Þar tók Magnea Magnúsdóttir landgræðslustjóri ON á móti okkur og skoðaðar voru nýstárlegar aðferðir við uppgræðslu og árangur af þeim.

Félagaskrá

Á aðalfundi 2013 fjölgaði félögum í SAMGUS um 20% og fóru í fyrsta skipti yfir 40. Árið 2014 var fjölgunin aftur um 20% og við urðum 50 talsins. Þrátt fyrir að 5 hafi hætt í SAMGUS sl. ár höldum við þeim fjölda og gott betur því eftir þennan fund telur félagatal okkar 53 félaga.

Það er líka ánægjulegt að hlutur kvenna helst. Þær eru nú þriðjungur félagsmanna en voru tæpur fimmtungur fyrir áratug.

Þeir sem hættu í SAMGUS á árinu eru: Björg Gunnarsdóttir hjá Borgarbyggð, Jan Klitgaard hjá Norðurþingi, Kristján Bjarnason hjá Grindavík, Marta María Jónsdóttir hjá Árborg og Úlfar Trausti Þórðarson hjá Fljótsdalshéraði.

Steinunn Árnadóttir hætti hjá Seltjarnarnesbæ og er nú heiðursfélagi SMGUS sem og Árni Steinar Jóhannsson hjá Fjarðabyggð sem nú er í veikindaleyfi.

Nýir félagar á þessum aðalfundi eru: Björn Júlíusson hjá Reykjavíkurborg, Davíð Halldórsson hjá sveitarfélaginu Ölfusi, Guðrún Birna Sigmarsdóttir hjá Mosfellsbæ, Linda Björk Jóhannsdóttir hjá Garðabæ, Magnea Magnúsdóttir hjá Orku náttúrunnar, Ólafur Melsteð hjá Hvalfjarðarsveit, Vignir Friðbjörnsson hjá sveitarfélaginu Vogum og Þorkell Gunnarsson hjá Háskóla Íslands.

Stjórnin þakkar þeim sem hætt hafa á árinu fyrir samstarfið og óskum þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi. Jafnframt bjóðum við nýja félaga velkomna í SAMGUS.

Að lokum má geta til marks um fjölgun í félaginu að af núverandi félögum eru 18 manns, eða rösklega þriðjungur, sem ekki voru í SAMGUS þegar núverandi stjórn tók til starfa fyrir tæpum þremur árum.

Með þeim orðum læt ég lokið þessari skýrslu stjórnar SAMGUS milli aðalfunda 2014-2015.

Friðrik Baldursson, formaður