Aðalfundur SAMGUS 2014
Skýrsla stjórnar
milli aðalfunda 2013-2014
Stjórn SAMGUS frá 5. apríl 2013:
Friðrik Baldursson, formaður
Björn Bögeskov Hilmarsson, gjaldkeri
Björg Gunnarsdóttir, ritari
Erla Bil Bjarnardóttir, meðstjórnandi
Freyr Ævarsson, meðstjórnandi
Stjórnin
Stjórn SAMGUS frá síðasta aðalfundi er þannig skipuð: Friðrik Baldursson formaður, Björn Bögeskov Hilmarsson gjaldkeri, Björg Gunnarsdóttir ritari, Erla Bil Bjarnardóttir og Freyr Ævarsson sem eru meðstjórnendur. Freyr kom nýr inn í stjórn í stað Jóns Arnars Sverrissonar sem gekk úr stjórn. Endurskoðendur ársreikninga voru kjörnir þeir Þorgeir Adamsson og Haraldur Birgir Haraldsson.
Haldnir voru 7 stjórnarfundir á starfsárinu, sá síðasti í gærmorgun, auk þess sem mikil samskipti voru í síma og tölvupóstum. Samstarfið hefur gengið mjög vel og verið málefnalegt.
Samskipti og tenglar
SAMGUS hefur fulltrúa og tengiliði í ýmsum nefndum o.þ.h. Hér er upptalið það helsta í þeim efnum.
SATS
Björn Bögeskov Hilmarsson er tengiliður SAMGUS við SATS (Samtök tæknimanna hjá sveitarfélögum) og situr stjórnarfundi hjá þeim. Hann er jafnframt fulltrúi okkar í sérstakri heiðursmerkjanefnd SATS. SATS, ásamt Félagi byggingarfulltrúa og Félagi skipulagsfulltrúa, fundar að vori og hausti, líkt og SAMGUS. Óskað hefur verið eftir að SAMGUS leggi til erindi á þessum fundum og/eða stingi upp á fyrirlestrum á og hefur félagið orðið við því. Vorfundur SATS 2013 var haldinn í Fjarðabyggð 2.-3. maí og flutti Friðrik Baldursson þar erindi um hvort stór tré væru stórmál í þéttbýli. Haustfundur SATS var að venju í Reykjavík, að þessu sinni 7. nóvember. Vorfundur SATS 2014 verður haldinn í Reykjanesbæ dagana 15.-16. maí nk. Þar mun Margrét Sigurðardóttir fyrir hönd SAMGUS halda erindi um leiksvæðastefnu Reykjavíkur. Þrátt fyrir afleita tímasetningu fundarins vonumst við til að einhverjir SAMGUSarar sjái sér fært að mæta á Suðurnesin.
LBHÍ
SAMGUS á fulltrúa í fagnefndum garðyrkjunáms við Landbúnaðarháskóla Íslands. Í fagnefnd skrúðgarðyrkjubrautar eru Friðrik Baldursson og Björn Bögeskov Hilmarsson. Í fagnefnd skógar- og náttúrubrautar er Erla Bil Bjarnardóttir. Axel Knútsson er fulltrúi SAMGUS í vinnuhóp sem vinnur að því að garðyrkjuskólinn geti tekið nema á verknámssamning í skrúðgarðyrkju. Þá situr Erla Bil í stjórn Hollvinafélags Landbúnaðarháskólans.
Norræn samskipti
Þórólfur Jónsson er tengiliður SAMGUS við norrænu systrasamtökin í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Á fjögurra ára fresti er haldin sameiginleg ráðstefna og eins og kynnt var á síðasta haustfundi verður hún haldin dagana 20.-22. ágúst nk. í Malmö. Þórólfur fór á undirbúningsfund til Svíþjóðar í ágúst 2013. Hann mun halda erindi á ráðstefnunni um samtökin okkar. Þeir sem tök hafa á eru hvattir til að mæta til Malmö. Þórólfur fjallar um málið hér á eftir en nánari upplýsingar er einnig að finna á samgus.is.
Ekki er búið að ákveða hvaða land heldur næstu ráðstefnu sem verður 2018. Ákveðið var á haustfundi SAMGUS að skoða hvort félagið ætti að halda þá ráðstefnu. Það mál er of stutt á veg komið til að hægt sé að taka um það ákvörðun en fyrir vorið 2015 þarf SAMGUS að segja af eða á.
Staðardagskrárhópurinn
Margir SAMGUSarar sjá um Staðardagskrármálin hjá sveitarfélögunum. Þau mynda samstarfshóp sem hittist reglulega og ræðir sameiginleg mál. Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga situr fundina. Tómas G. Gíslason er tengiliður hópsins við SAMGUS og mun hann gefa yfirlit um þau mál hér á fundinum.
Vinnuskólahópurinn
Samskonar hópur er starfandi um málefni vinnuskóla, enda margir SAMGUSara sem hafa rekstur vinnuskóla á sinni könnu. Frá 1995 hafa forstöðumenn vinnuskóla á SV-horninu og víðar hist 1-2 sinnum á ári og borið saman bækur sínar. Síðasti fundur var í nóvember í Mosfellsbæ en til stendur að halda vorfund nú á næstunni. Nánar um það síðar. Friðrik Baldursson er tengiliður þessa hóps við SAMGUS.
Heimasíða SAMGUS
Heimasíðan okkar, www.samgus.is, hefur legið niðri sl. ár, eins og einhverjir hafa eflaust tekið eftir. Vinna við hana hefur verið í gangi og sérstaklega nú síðustu vikurnar. Í ljós kom að form hennar og uppsetning voru óþarflega þung og mikil vinna fólgin í öllum uppfærslum og breytingum. Að auki höfum við verið að borga Símanum óþarflega mikið fyrir hýsingu. Leitað var til verktaka með endurgerð síðunnar. Björg Gunnarsdóttir hefur stýrt þessum málum, nú undir lokin með aðstoð Freys Ævarssonar og Sigurðar Hafliðasonar. Nýja heimasíðan mun formlega verða tekin í notkun hér á eftir.
LBHÍ, námskeið
Sl. haust var óskað eftir aðkomu SAMGUS, ásamt Félagi garðplöntuframleiðenda og Félagi skrúðgarðyrkjumeistara, að undirbúningi námskeiðs um stór tré. Námskeiðið, sem haldið var 6. nóvember, í tengslum við haustfund SATS, var vel heppnað og sóttu það hátt í hundrað manns, þar af fjölmargir SAMGUSarar. Á námskeiðinu endurflutti Friðrik erindi sitt frá vorfundi SATS.
Af öðrum námskeiðum LBHÍ fyrir okkar hóp er ekki mikið að segja, þau hafa verið fá.
Þetta vekur upp spurningar hvort snúa eigi dæminu við, þ.e. að SAMGUS haldi námskeið um efni sem okkur eru hugleikin, af nægu er að taka, og þá hugsanlega í samstarfi við LBHÍ. A.m.k. tel ég þetta vert skoðunar.
Reglugerð um leiksvæði og leikvallatæki og eftirlit með þeim
Málið endalausa sem rætt hefur verið á flestum fundum SAMGUS undanfarinn áratug. Friðrik hefur verið í sambandi við Guðjón Bragason, lögfræðing Sambands íslenskra sveitarfélaga, vegna áframhalds vinnu sem hafin var haustið 2011, við endurskoðun reglugerðarinnar. Guðjón hefur lítil viðbrögð fengið frá Umhverfisstofnun og -ráðuneyti. Stjórn SAMGUS mun áfram fylgjast með málinu.
Starfssvið félaga í SAMGUS
Á síðasta aðalfundi urðu talsverðar umræður um mismunandi starfssvið SAMGUSara og jafnvel skort á starfslýsingu. Starfsviðið hefur alltaf verið mismunandi eftir sveitarfélögum enda aðstæður misjafnar. Í framhaldi fundarins var send út til fróðleiks skýrsla um könnun á þessu sviði sem gerð var árið 2002. Til stóð jafnvel að stjórnin myndi standa að sambærilegri könnun nú fyrir aðalfundinn en horfið var frá því. SAMGUS hefur breyst mikið á þessum tíma, störf og starfssvið orðið fjölbreyttara, auk þess sem nú eru oft fleiri en einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi. Sumir félaganna koma heldur ekki frá sveitarfélögum, heldur stofnunum þeirra og fyrirtækjum. Spurningalistann og framkvæmd könnunarinnar þarf því að endurskoða frá grunni, áður en af henni getur orðið.
Fastir fundir SAMGUS
SAMGUS hefur frá upphafi haldið tvo fasta fundi á ári, annan að vori og hinn að hausti. Mörg undanfarin ár hefur venjan verið að vera með aðalfund að vori.
Aðalfundur
Aðalfundur SAMGUS 2013 var haldinn í Kópavogi dagana 4.-5. apríl.
Mættir voru: Axel Knútsson, Berglind Ásgeirsdóttir, Bjarni Ásgeirsson, Björg Gunnarsdóttir, Björn Bögeskov Hilmarsson, Erla Bil Bjarnardóttir, Friðrik Baldursson, Guðjón Steinar Sverrisson, Haraldur Birgir Haraldsson, Íris Reynisdóttir, Jón Arnar Sverrisson, Jón Ingvar Jónsson, Kári Aðalsteinsson, Margrét Sigurðardóttir, Marta María Jónsdóttir, Samson Bjarnar Harðarson, Sigríður Garðarsdóttir, Sigurður Hafliðason, Steinunn Árnadóttir, Sunna Áskelsdóttir, Svavar Sverrisson, Tómas Guðberg Gíslason, Valur Þór Hilmarsson, Þorgeir Adamsson og Þórólfur Jónsson.
Gestir: Gunnþór Hermannsson, Jökull Sigurðsson, Sigurður Grétar Ólafsson, Sólveig Helga Jóhannsdóttir og Stefán Gunnarsson, „grænu“ starfsmenn Kópavogsbæjar.
Vorfundur var haldinn í aðsetri Vinnuskóla Kópavogs Kópavogsdal og hófst með stuttari kynningu á Kópavogsbæ og grænu málunum þar. Síðan var farið í skoðunarferð um hluta bæjarins undir leiðsögn Friðriks. Þá var farið á bæjarskrifstofurnar þar sem Birgir H. Sigurðsson skipulagsstjóri kynnti vinnu við aðalskipulag Kópavogs 2012-2024. Þar á eftir kom Hrafnkell Proppé skipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins (og fyrrum SAMGUSari) og sagði frá vinnu sinni við endurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins.
Áfram var haldið í skoðunarferðinni og næst komið við í trjásafninu í Meltungu í Fossvogsdal, þar sem m.a. var skoðaður yndisgarður og Samson B. Harðarson sagði lítillega frá því verkefni. Úr Fossvogsdal var farið upp að Elliðahvammi á Vatnsenda þar sem Þorsteinn Sigmundsson bóndi með meiru tók á móti okkur og sýndi og sagði frá starfseminni, en Þorsteinn rekur kjúklingabú í Elliðahvammi og stundar auk þess býflugna- og ávaxtatrjáaræktun.
Næst var haldið enn ofar í hlíðina í Guðmundarlund, sem er í umsjá Skógræktarfélags Kópavogs. Þar tók á móti okkur Bragi Mikaelsson formaður sem sagði okkur frá svæðinu. Svo var ekið í gegnum Kóra-, Sala-, Linda- og Smárahverfi niður í Kópavogsdal aftur, þar sem ferðalanga beið kínamatur og drykkir í boði Kópavogsbæjar og SAMGUS.
Aðalfundurinn var á sama stað 5. apríl og byrjaði á kynningu frá Guðríði Helgadóttur um nám til eflingar færni í skógrækt og öðrum málum sem SAMGUS hefur unnið að með LBHÍ að undanförnu.
Eftir aðalfundarstörf og hádegisverð var svo farið gangandi um Kópavogsdal, Tjarnargarðinn og Hlíðargarðinn undir leiðsögn Friðriks, auk þess sem litið var við á Kópavogsvelli, þar sem Ómar Stefánsson umsjónarmaður íþróttavalla og varaformaður bæjarráðs Kópavogs tók á móti okkur og fræddi okkur um starfsemina.
Haustfundur
Haustfundur var haldinn í Rangárþingi ytra og Rangárþingi eystra dagana 12.-13. september.
Mættir voru: Axel Knútsson, Björg Gunnarsdóttir, Björn Bögeskov Hilmarsson, Erla Bil Bjarnardóttir, Freyr Ævarsson, Friðrik Baldursson, Guðjón Steinar Sverrisson, Guðný Arndís Olgeirsdóttir, Gunnsteinn Olgeirsson, Haraldur Birgir Haraldsson, Jan Klitgaard, Jón Arnar Sverrisson, Jón Birgir Gunnlaugsson, Marta María Jónsdóttir, Samson B. Harðarson, Smári Guðmundsson, Svavar Sverrisson, Þorgeir Adamsson og Þórólfur Jónsson.
Gestir: Anton Kári Halldórsson, Gunnar Aron Ólason og Úlfar Trausti Þórðarson.
Haustfundurinn var haldinn á Hótel Leirubakka í Landsveit og var byrjað á að skoða Heklusetrið sem þar er til húsa. Heimasmenn, þeir Haraldur Birgir og Anton Kári, fóru með hópinn um héruð í rútu undir leiðsögn Sveins Sigurjónssonar frá Galtalæk II. Næst var haldið í Gunnarsholt þar sem Guðjón Magnússon og Magnús Jóhannsson tóku á móti hópnum og buðu í hádegismat. Sagnagarður Landgræðslunnar heimsóttur þar sem Magnús leiddi okkur um sýninguna Landgræðsla í hundrað ár. Hlýtt var á fyrirlestur um samanburð á 10 tegundum lífræns áburðar í ræktun. Hreinn Óskarsson skógarvörður á Suðurlandi og verkefnisstjóri Hekluskóga hélt fyrirlestur um Hekluskóga og áhrif öskufalls úr Eyjafjallajökli á trjágróður í Þórsmörk. Í Gunnarsholti bættist Anton Kári Halldórsson, byggingar- og skipulagsfulltrúihjá Rangárþingi eystra, í hópinn. Áfram var haldið með rútunni og farin torfæruleið framhjá Keldum og Þríhyrningi að Tumastöðum í Fljótshlíð. Þar tók Hrafn Óskarsson ræktunarstjóri á móti hópnum og sýndi lýðveldislundinn sem plantað var 1944. Næsta heimsókn var til Sláturfélags Suðurlands á Hvolsvelli, þar sem Guðmundur Svavarsson framleiðslustjóri kynnti okkur starfsemi þessa samvinnufélags bænda á Suður- og Vesturlandi. Hann kynnti áhugaverð umhverfismál fyrirtækisins og nýtingu afurða. Þar var boðið upp á góðar veitingar. Á leiðinni til baka að Leirubakka eftir víðfeðma og áhugaverða skoðunarferð var stoppað hjá Gísla Gíslasyni landslagsarkitekt á teiknistofu hans Steinsholti á Hellu. Hann kynnti skipulagsmál sem stofan er að vinna að, m.a. aðalskipulagsvinnu fyrir hálendið, sem Steinsholt er að vinna fyrir sveitarfélögin þrjú, þ.e. Rangárþingin bæði og Skaftárhrepp. Um kvöldið var síðan glæsilegur kvöldverður á Heklusetrinu í boði Rangárþings ytra.
Þann 13. september var hefðbundinn haustfundur SAMGUS haldinn.
Gestgjöfum fundanna og skipuleggjendum, þeim sem hér talar og Haraldi Birgi Haraldssyni, þakkar stjórnin góðar móttökur og fræðandi dagskrár.
Félagaskrá
Á síðasta aðalfundi fjölgaði félögum í SAMGUS um 7 og fóru þeir þá í fyrsta skipti yfir 40. Annað árið í röð er fjölgunin um 20% og verða SAMGUSarar 50 talsins að loknum þessum fundi. Það er líka ánægjulegt að hlutur kvenna er að aukast en þær eru nú 1/3 félagsmanna. Fyrir 10 árum voru þær 5 af alls 30 félögum, þ.e. 1/6 hluti.
Þeir sem hættu í SAMGUS á árinu eru: Valur Þór Hilmarsson hjá Fjallabyggð sem kom svo aftur og þá fyrir Dalvíkurbyggð, Jón Arnar Sverrisson hætti hjá Dalvíkurbyggð og Sunna Áskelsdóttir hjá Ölfusi.
Nýir félagar á þessum aðalfundi eru: Atli Marel Vokes, Guðjóna Björk Sigurðardóttir og Hjalti Jóhannes Guðmundsson hjá Reykjavík, Matthías Ólafsson hjá Garðabæ, Úlfar Trausti Þórðarson hjá Fljótsdalshéraði, Anna Katrín Svavarsdóttir hjá Fjarðabyggð, Ari Eggertsson hjá Hveragerði, Berglind Guðmundsdóttir hjá Hafnarfirði og Bjarki Valberg hjá Kópavogsbæ.
Stjórnin þakkar þeim sem hætt hafa á árinu fyrir samstarfið og óskar þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi. Jafnframt bjóðum við nýja félaga velkomna í SAMGUS.
Við fögnum því að samtökin okkar þykja það áhugaverður vettvangur að þeir sem sinna grænu málaflokkunum hafi áhuga á að koma til okkar eða eins og ónefndur stjórnarmaður orðaði það: „að SAMGUS sé vinsælt félag þar sem fara fram jákvæð samskipti okkur til betrunar, en ekki togstreita.“
Fyrir hönd stjórnar,
Friðrik Baldursson, formaður