Aðalfundur SAMGUS haldinn í Garðabæ
- september 2005
Skýrsla stjórnar
Aðalfundur Samgus árið 2004 var haldinn á Húsavík dagana 30. september og 1. október. Formaður félagsins og Jan Klitgaard sáu að mestu um undirbúning fundarins. Dagskráin var fjölbreytt og móttökur allar til fyrirmyndar. Jan og þeim Húsvíkingum færir félagið bestu þakkir fyrir.
Akureyri.
Flestir fundarmanna komu með flugi til Akureyrar og safnaðist hópurinn saman í flugstöðinni.
Kl.12 héldu 13 félagar af stað í rútu austur í Þingeyjarsýslu. Með í för var einnig Sveinn Aðalsteinsson skólameistari Garðyrkjuskóla ríkisins.
Laufás.
Þar var snæddur hádegisverður. Undir matnum skýrði Sveinn stöðu mála hjá Garðyrkjuskólanum og þá óvissu sem framundan var vegna sameiningar Garðyrkjuskóla við hinn nýstofnaða Landbúnaðarháskóla. Rætt var um stofnun hollvina Reykja. Fundarmenn skoðuðu gamla bæinn og einnig gamlan Ilmreynir (plantað 1847 og 1853), sem stendur þar við kórbak á leiði föður og afa Tryggva Gunnarssonar, þess er gerði garðinn við Alþingishúsið.
Garður í Fnjóskárdal.
Frá Laufási var haldið sem leið liggur um Dalsmynni og að Garði í Fnjóskárdal og litið á blæöspina þar, en í landi Garðs er fyrsti fundarstaður blæaspar á Íslandi.
Jarðböðin í Mývatnssveit.
Í blíðskaparveðri var haldið austur í Mývatnssveit og nýju jarðböðin skoðuð. Sumir létu sér nægja að skoða þau af bakkanum en aðrir fóru í bað og létu vel af.
Húsavík.
Haldið var til Húsavíkur um Hólasand. Lúpínubreiðurnar og lerkið sem plantað hefur verið í sandinn á vegum Húsgulls blasti við augum úr bílnum, þar hefur verið unnið átak í uppgræðslu sandsins. Í Kaldbakskoti við Húsavík tók á móti okkur Sigurjón Benediktsson formaður Húsgulls o.fl. Sigurjón rekur ferðaþjónustu í Kaldbakskoti sem er á útivistarsvæði umhverfis affallstjarnir frá hitaveitu bæjarins. Gengið var um svæðið undir leiðsögn Sigurjóns sem lá ekki á skoðunum sínum um ýmis mál er okkur varðar.
Í Kaldbakskoti var snæddur kvöldverður í boði Húsavíkurbæjar. Fulltrúi bæjarins var Vigfús Sigurðsson, bæjartæknifræðingur sem borðaði með okkur ásamt eiginkonu sinni.
Aðalfundurinn.
Fundurinn hófst kl 10. Mættir voru eftirtaldir 16 félagsmenn af 32. Ásthildur, Baldur, Björn, Erla Bil, Guðjón, Helga, Jan, Jóhannes, Jón Birgir, Jón Arnar, Oddgeir, Siggeir, Sigurður, Svavar, Tryggvi og Þórólfur. Fundarstjóri var kjörinn Oddgeir Árnason.
Að lokinni kynningu og afgreiðslu skýrslu stjórnar, reikninga fyrir árið 2003, fjárhags- og starfsáætlunar fyrir árið 2005, hófust fjörugar og fjölbreyttar umræður.
Starfsemi félagsins.
Talsverðar umræður urðu um tilgang félagsins, starfsemi þess og verkefni. Helstu mál sem upp komu voru:
Baldur ræddi heimasíðuna og ágæti þess að halda úti heimasíðu. Gera ákveðnar lagfæringar á síðunni sem myndi einfalda viðhald. Sigurður Hafliðason hefur komið að vinnunni með Baldri. Samþykkt var að fela þeim félögum áframhaldandi umsýslu síðunnar.
Erla stakk uppá því að tekið yrði saman viðburðadagatal sem fært yrði inn í væntanlegir atburðir sem kunna að varða félagsmenn. Allir myndu hjálpast að við að vekja athygli á spennandi atburðum.
Friðrik sendi erindi þar sem hann vekur máls á því hvort ástæða væri til að endurprenta bæklinginn um trjágróður á lóðum eða hvort frekar ætti að leita eftir samstarfi við félag byggingarfulltrúa um bækling sem tæki á fleiri atriðum.
Samþykkt var að fela Jón Birgi og Birni, mögulega í samstarfi Garðyrkjuskólans, að kanna málið frekar í samráði við stjórnina.
Baldur stakk upp á í félagi við Jan að eitt af verkefnum félagsins væri að hefja vinnu að áætlun um að draga markvisst úr notkun eiturefna. Slík áætlun gæti orðið Samgus til sóma. Hann lagði til að fyrir vorfund 2005 liggi fyrir drög að áætlun. Samþykkt.
Margir fundarmenn tóku til máls um þessi efni og fleiri m.a. um að félagið beitti sér fyrir námskeiðum í heimajarðgerð. Möguleika á samstarfi við Sats- félagið. Reglugerð um öryggi leiksvæða. Frábært framtak Friðriks varðandi gagnagrunninn Börk o.fl.
Þórólfur sagði frá för sinni á formannafund norrænu félaganna sem haldinn var í Rovaniemi
11.-13. júní. Ferðin var greidd til helminga af Samgus og Reykjavíkurborg.
Oddgeir bauð Mosfellsbæ sem væntanlegan fundarstað fyrir vorfund og var það samþykkt.
Stjórnarkjör.
Davíð Halldórsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórninni. Stjórnin lagði fram eftirfarandi tillögu:
Tryggvi Marinósson sitji áfram sem formaður. Í stað Davíðs er stungið uppá Guðmundi Bjarnasyni. Ágúst Þór Bragason taki við sem gjaldkeri af Erlu Bil Bjarnadóttur, sem þó sitji áfram í stjórninni og að Þórólfur haldi áfram sem ritari og norrænn tengiliður. Engar aðrar tillögur komu fram og var tillaga stjórnar samþykkt.
Skoðunarmenn ársreikninga voru kosnir Oddgeir Árnason og Þorgeir Adamsson
Garðyrkjuskólinn, hollvinasamtök og græni geirinn.
Þráðurinn um málefni Garðyrkjuskólans var tekinn upp frá deginum áður og urðu miklar umræður um það. Einnig um stofnun einhverskonar samtaka til stuðning skólanum o.fl. í þeim dúr.
Samþykkt var að stjórnin semdi tillögu ályktun um málið og bæri upp fyrir fundarmenn áður en haldið yrði heim. (sjá síðar).
Skoðunarferð um Húsavík.-Heimferð.
Eftir hádegi var skoðunarferð um Húsavík. Byrjað var á Hvalasafninu undir fróðlegri leiðsögn forstöðumanns þess. Fallegur, fjölbreyttur og vel hirtur skrúðgarðurinn var skoðaður undir leiðsögn Jans og einnig uppeldishús og gróðurreitir. Í þessari ferð bar margt fróðlegt á góma.
Á leiðinni til Akureyrar var komið við í Laxárvirkjun og Vaglaskógi þar sem Sigurður Skúlason skógarvörður tók á móti hópnum og sýndi meðal annars fræhúsin með lerki- og birkifrærækt.
Stjórnarfundir.
Þar sem stjórnin er dreifð um land allt eru haldnir fáir formlegir fundir en fundahöld stjórnarinnar byggjast fyrst og fremst á símafundum. Þar sem stjórnin hittist t.d. á ráðstefnum eða námskeiðum reynir stjórnin að nota tækifærið og ræða málefni félagsins. Samtals voru haldnir 11 stjórnarfundir á árinu. Á miðju ári hætti Guðmundur Bjarnason sem garðyrkjustjóri á Egilstöðum og sagði sig úr stjórninni. Ekki var skipaður maður í stjórnina í stað hans.
Málefni félagsins.
Eins og gengur voru ýmis mál rædd á fundum stjórnarinnar. Tímafrekast var að undirbúa hina tvo árlegu félagsfundi samtakanna. Málefni Garðyrkjuskólans voru fyrirferðamikil í störfum stjórnarinnar ásamt undirbúningi að stofnun samtaka græna geirans. Auk þess var talsvert rætt um fjármál og skipulag félagsins, heimasíðuna og endurmenntun svo eitthvað sé nefnt. Fulltrúar félagsins sóttu ýmsa fundi og ráðstefnur í nafni þess.
Nefndir og fulltrúar.
Starfandi er nefnd á vegum félagsins sem kanna á og undirbúa útgáfu á bæklingi á vegum félagsins. Jón Birgir, Björn vinna að málinu.
Ritnefnd heimasíðunnar er í uppnámi vegna manneklu. Sama er að segja um nefnd um notkun eiturefna.
Þórólfur annast samskipti við erlend systrafélög
Að beiðni LBHÍ hefur stjórn Samgus tilnefnt fulltrúa í fagnefndir Garðyrkjuskólans. Eftirtaldir félagsmenn voru skipaðir:
Friðrik Baldursson í fagnefnd skrúðgarðyrkjubrautar.
Erlu Bil Bjarnadóttur í fagnefnd skógræktarbrautar á starfsmenntastigi.
Oddgeir Þór Árnason í fagnefnd umhverfisbrautar á starfsmenntastigi.
Fjármál.
Gerð var fjárhagsáætlun fyrir 2004-2005 og nú fyrir aðalfund fyrir árið 2006. Reikningshald og fjárhagur félagsins er í góðu lagi undir styrkri stjórn Ágústar Þórs Bragasonar. Innheimta félagsgjalda gekk vel fyrir árið 2005 en stjórnin ákvað að hefja innheimtu strax í upphafi árs. Aðalfundur samþykkti óbreytt árgjald fyrir árið 2005
- 8.000.
Heimasíðan.
Á mörgum fundum félagsins og stjórnarinnar hefur verið fjallað um heimasíðuna. Svo var einnig á síðasta ári. Síðan var vistuð á nýjum stað til að lækka kostnað. Hakkarar komust inn á síðuna í sumar og varð hún upp frá því ónothæf og hefur henni nú verið lokað.
Staða garðyrkju- og umhverfisstjóra.
Á síðustu árum hafa orðið nokkrar hræringar á stöðu garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélagna vítt og breitt um landið. Stjórnin hefur reynt að fylgjast með þessum málum og rætt þau nokkuð. Frá síðasta aðalfundi hafa nokkrir félagar okkar hætt störfum. Baldur Gunnlaugsson lét af störfum sem garðyrkjustjóri á Garðyrkjuskólanum, Guðmundur Bjarnason hætti hjá ný sameinuðu Fljótsdalshéraði m.a. vegna skipulagsbreytinga, Hrafnkell Proppé hætti á Akranesi, í Hafnarfirði hafa orðið breytingar þær að Björn er í 7 mánaða fríi frá stöfum, en Jóhannes hættur þar og málefni garðyrkjustjórans í Vestmannaeyjum hafa verið í óvissu. Einnig var Ásthildi sem er einn stofnfélaga Samgus sagt upp störfum og skipt við sem verktaka hjá Ísafjarðarbæ.
Nýir félagar.
Eftir lagabreytingar 2002 í þá veru að rýmka skilyrði fyrir inngöngu í félagið á þann hátt að heimila aðild þeirra starfsmanna sveitarfélaga, sem eru yfirmenn garðyrkju- og umhverfisdeilda. Enginn nýr félagi hefur bæst í hópinn frá síðasta aðalfundi. Félagar nú eru 28.
Norðurlandasamstarf.
Nokkur samskipti hafa verið á milli norrænu samtakana á þessu starfsári aðallega með tölvupósti. Peter Bjørno Jensen, er duglegur að senda okkur póst um ýmis efni er tengjast starfi félaganna. Norræn könnun.
Í tengslum við norrænu ráðstefnuna Nordiske Park Kongres í Odense barst erindi frá norrænu systrasamtökunum um aðstoð við könnunar á starfháttum og umhverfi garðyrkjudeilda á Norðurlöndunum. Þórólfur annaðist þetta verk fyrir hönd stjórnar.
Nordiske Park Kongres í Odense 24-26. ágúst.
Þórólfur og Oddgeir sóttu Nordiske Park Kongres í Odense í ágúst. Árni Steinar Jóhannsson hélt þar erindi.
Viðburðardagatal og fréttabréf.
Sú nýbreytni var tekinn upp hjá félaginu að senda út reglulega viðburðardagatal þar sem bent er á ýmsa viðburði sem tengjast störfum okkar. Þetta hefur mælst vel fyrir og hefur Erla annast þetta fyrir hönd stjórnar. Í byrjun árs ritaði formaður bréf til félagsmanna með ýtarlegum upplýsingum um það helsta sem á stjórnin var að fást við.
Málefni Garðyrkjuskólans.
Eftir síðasta aðalfund til loka síðasta árs og í byrjun þessa voru málefni Garðyrkjuskólans mikið í umræðunni hjá stjórn félagsins. Ljóst er að staða skólans er nokkuð breytt frá því sem verið hefur.
Eftirfarandi ályktun var samþykkt á aðalfundinum
Aðalfundur Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra haldinn á Húsavík 1. okt. 2004 fagnar yfirlýsingu landbúnaðarráðherra í Bændablaðinu 28. sept. s.l. þar sem lýst er yfir áframhaldandi uppbyggingu á Reykjum og áformum um byggingu nýs skólahúss á staðnum. Það er álit samtakanna að lögheimili garðyrkjunnar eigi að vera á Reykjum enda staðurinn órjúfanlega tengdur garðyrkju í landinu. Nýtt skólahús er mjög aðkallandi fyrir starfsemi Garðyrkjuskólans, öflugt þróunarstarf í tilraunahúsi og á útisvæðum skólans hefur mikla þýðingu fyrir menntun fagfólks. Því er mjög brýnt að ráðist verði í uppbyggingu á Reykjum sem allra fyrst.
Einnig var samþykkt:
Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra fagna stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands en benda jafnframt á nauðsyn þess að fulltrúi garðyrkjunnar sitji í háskólaráði hins nýstofnaða háskóla, sérstaklega í ljósi þess að fjöldi nemenda sem stunda nám í garðyrkjufræðum.
Í framhaldi af samþykkt aðalfundar um málefni Garðyrkjuskólans sendi stjórnin bréf til landbúnaðarráðherra og nýskipaðs rektors Landbúnaðarháskólans. Formaður átti einnig stutt viðtal við landbúnaðarráðherra um málið. Félagið var einnig aðili að undirbúningi fundar ýmissa félaga um málefni skólans og sátu fulltrúar félagsins þann fund. Þann 1. janúar 2005 tók svo Landbúnaðarháskóli Íslands til starfa en skólinn varð til með sameiningu Garðyrkjuskólans, Rannsóknarstofnunar Landbúnaðarins (RALA) og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Starfsmenn eru um 130 og nemendur um 300. Skipulagsbreytingarnar hafa verið að koma til framkvæmda m.a. á Garðyrkjuskólanum. Talsverðar mannabreytingar hafa orðið við þessar breytingar, skólastjóri Sveinn Aðalsteinsson og þeir Ólafur Melsted, Baldur Gunnlaugsson og Magnús Hlynur Hreiðarsson hafa allir látið af störfum við skólann. Félagið þakkar þeim öllum gott og farsælt samastarf.
Samtök græna geirans.
Á aðalfundi var samþykkt tillaga um að vinna að stofnun samtaka allra þeirra er teljast til Græna geirans í landinu. Þann 23. nóv. 2004 var haldinn undirbúningsfundur með fulltrúum ýmissa fagfélaga innan græna geirans að frumkvæði Félags garðplöntu framleiðenda. Nokkrir undirbúningsfundir voru haldnir yfir veturinn sem Erla Bil mætti á f.h. Samgus og vann þetta mál fyrir hönd stjórnar. Samtökin voru svo stofnuð formlega þann 20. apríl í Grasagarðinum í Reykjavík. Auk Samgus eiga eftirtalin samtök aðild að Græna geiranum: Samband garðyrkjubænda, Félag garðplöntu-framleiðanda, Félag grænmetisframleiðenda, Félag blómaframleiðenda, Landssamband kartöflubænda, Félag gulrófnabænda, Félag blómaskreyta, Félag íslenskra landslagsarkitekta, Félag skrúðgarðyrkjumeistara, Félag iðn- og tæknigreina, Félag blómaverslana, Verndum og ræktum (Vor).
Samtökin hafa í samvinnu við Bændasamtök Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands, boðað til ráðstefnu sem haldin verður á Loftleiðum þann 16. september. Sem fyrr hefur Erla Bil haft veg og vanda að verkefninu fyrir hönd félagsins.
Endurmenntun.
Eftir fund formanns og Magnúsar Hlyns á Akureyri fjallaði stjórnin um fyrirkomulag endurmenntunnar og gerði eftirfarandi tillögur að efnisvali á námskeið skólaárs 2005 – 2006. Ekki Guðrúnu Lárusdóttir hefur verið ráðin endurmenntunarstjóri og mun hún starfa að Reykjum. Ráðgert er að boðað endurmenntunarnefndir til funda nú í september.
Leiksvæði
Efni: Hönnun – öryggismál – úttektir
Farið í pakkann frá A-Ö þ.e. uppsetningu, frágang, viðhald og eftirlit.
Umhirðuáætlun.
Leiðbeiningar að gerð einstaka áætlana varðandi umhirðu opinna svæða, eftir nýrri útgáfu Baldurs Gunnlaugssonar.
Uppbygging á útivistarsvæðum í útmörk/eða ofan byggðar
Gerð fræðslustíga þ.e. fræðsluefni hönnun þess. Annar búnaður s.s. skýli, grillaðstaða, vatnspóstar, lýsing án ljósmengunar….
Búnaður á opnum svæðum
Hönnun, burðarþol, smíði göngubrúa, palla, girðinga, bryggja… sem er byggingaleyfisskyld samkv. byggingarreglugerð. Auk hugmynda smærri smíða s.s. útiborð, bekkir, prílur o.fl.
Moltugerð
Á vegum sveitarfélaga er stunduð moltugerð af lífrænum úrgangi frá opnum svæðum við misjafnar aðstæður. Heppilegt efni á námskeið.
Nýjar plöntur notagildi eldri.
Kynntar nýjar (efnilegar) plöntutegundir til nota á opnum svæðum. Einnig breyttar eða nýjar áherslur í notkun eldri tegunda.
Fyrir starfsfólk garðyrkjudeilda
Plöntuþekking þ.e. ágrip og almenn umhirða opinna svæða. Verkskipulag…..
Vorfundurinn.
Vorfundur Samgus árið 2005 var haldinn í Mosfellsbæ 7. og 8. apríl. Oddgeir Árnason hafði í samvinnu við stjórn veg og vanda af undirbúningi og allri framkvæmd fundarins. Dagskrá fundarins var fjölbreytt og móttökur allar til fyrirmyndar og þakkar félagið öllum sem hlut áttu að máli.
Mættir voru eftirtaldir 23 félagar:
Arnar Birgir Ólafsson, Sigurður Hafliðason, Guðný A. Olgeirsdóttir, Helga B. Gunnlaugsdóttir, Þorgeir Adamsson, Jan A. H. Klitgaard, Tryggvi Marínósson, Ágúst Þ. Bragason, Jón Birgir Gunnlaugsson, Baldur Gunnlaugsson, Stefán Gunnarsson, Erla Bil Bjarnadóttir, Steinunn Árnadóttir, Friðrik Baldursson, Axel Knútsson, Svavar Sverrisson, Guðjón Sverrisson, Davíð Halldórsson, Björn B. Hilmarsson, Kristinn H. Þorsteinsson, Oddgeir Þ. Árnason, Hrafnkell Proppé, Þórólfur Jónsson
Dagskráin hófst á bæjarskrifstofunum þar sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri tók á móti okkur ásamt Tryggva Jónsyni bæjarverkfræðingi og Oddgeiri Árnasyni garðyrkjustjóra. Eftir stutta kynningu á Mosfellsbæ var haldið í skoðunarferð um nágrenið.
Leiksvæði: Aðalaskoðun.
Eftir hádegið komu þær Brynja Jóhannsdóttir frá Umhverfisstofnun sem fór yfir leikvallareglugerð og Rósa Magnúsdóttir deildarstjóri Hollustuhátta hjá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur lýsti því hvernig framkvæmd reglugerðarinnar snýr að eftirlitinu. Töluverðar umræður urðu um reglugerðina og hvernig hægt sé að framfylgja henni. Stjórninni var falið að koma ábendingum félagsins á framfæri eftir því sem við á. Stjórnin fjallaði um þetta mál og sendi frá sér eftirfarandi ályktun.
Stjórn Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra skorar á viðkomandi yfirvöld að endurskoða reglugerð nr. 942/2002 ásamt síðari breytingum um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim. Endurskoðunin snúi aðallega að þeim greinum þar sem fjallað er um aðalskoðun leikvalla og leikvallartækja. Lagt er til að ákvæði um aðalskoðun verði fellt út eða að framkvæmd hennar verði með öðrum hætti, t.d. að dregið verði úr tíðni aðalskoðunar. Ennfremur hvetur stjórnin til þess að settar verði samræmdar verklagsreglur um aðkomu heilbrigðiseftirlits að málinu þannig að sömu reglur gildi í öllum umdæmum þess. Þá vill stjórnin hvetja til aukinnar fræðslu og kynningar á reglum þeim er gilda um uppbyggingu og rekstur leiksvæða.
Skoðunarferð.
Að loknum fundarhöldum var farið í skoðunarferð. Fyrst var farið um Mosfellsbæ og síðan var Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins að Mógilsá heimsótt. Þar tóku á móti okkur þeir Guðmundur Halldórsson og Þórarinn Benedikz. Um kvöldi var svo snæddur kvöldverður á sveitakránni Ásláki í boði Mosfellsbæjar.
Málefni Samgus.
Á föstudagsmorgninum var haldinn fundur um innri mál félagsins og bar þar margt á góma.
Farið var yfir skýrslu stjórnar og reikninga. Kynnt staða mála vegna stofnunar regnhlífasamtaka innan græna geirans. Kynntar hugsanlegar lagabreytingar, annars vegar að færa aðalfund til vors og hins vegar hvaða skref ætti að stíga til að breikka grundvöll félagsins. Í því samhengi bar á góma mögulegt samstarf við Sats sem áður hefur verið rætt innan félagsins.
Rætt um endurgerð trjáfellingabæklings og eða nýs bæklings en Jóni Birgi og Birni (Bödda) var falið að skoða það á síðasta fundi. Baldur og Jan höfðu lýst áhuga á síðasta fundi að kafa aðeins í málefni sem tengjast vistvænni garðyrkju, safnhaugar engin eiturefni o.s.frv.
Norræn ráðstefna garðyrkjustjóra í Odense 24.- 26. ágúst var kynnt og dreift kynningarefni. Rætt um samnorræna skoðanakönnun sem gera á í tengslum við ráðstefnuna.
Ýmislegt var nefnt s.s. kynningu félagsins, viðurkenningar hjá Garðyrkjufélaginu, fræðslu til vinnuskóla um garðyrkjunám o.fl.
Áhættumat.
Steinar Harðarson frá Vinnueftirliti ríkisins ræddi um áhættumat vegna vinnu starfsmanna í garðyrkju.
Skógrækt og útivistarsvæði.
Jón Geir Pétursson og Einar Gunnarsson skógfræðingar frá Skógræktarfélagi Íslands kynntu hugmyndir um s.k. Græna trefil sem er skógræktar- og útivistarsvæði umhverfis allt höfuðborgarsvæðið, er liggur um skógræktar- og umsjónarsvæði skógræktarfélaganna á svæðinu.
Gljúfrasteinn.
Eftir hádegið bauð Mosfellsbær upp á heimsókn í hús skáldsins að Gljúfrasteini og nutu félagsmenn hinnar vönduðu leiðsagnar um húsið.
Gróðrarstöðin Grásteinn.
Formlegri dagskrá vorfundarins lauk svo með heimsókn í Gróðrarstöðina Grástein í Mosfellsdal. Þar tók á móti okkur Björn Sigurbjörnsson ásamt starfsmönnum sínum og eiginkonu. Móttökur voru að vanda einstakar. Fram fór fróðleg kynning á starfseminni og skemmtilegar umræður.
Um kvöldið bauð svo Jóhann Helgi & co. fundarmönnum til kvöldverðar á veitingastaðnum Rossopommodoro við Laugarveg.
Lokaorð
Þar sem undirritaður gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn Samgus vil ég þakka öllu samstarfsfólki í stjórn vel unnin störf og öllum félögum gott og ánægjulegt samstarf.
Fh. stjórnar Samgus.
Tryggvi Marinósson.