Aðalfundur SAMGUS haldinn á Húsavík

  1. september – 1 október 2004

Skýrsla stjórnar

Fræðslu- og aðalfundur Samgus árið 2003 var haldinn í sveitarfélaginu Ölfus daganna 9.-10. október. Formaður félagsins Davíð Halldórsson hafði veg og vanda af undirbúningi og allri framkvæmd.  Bæjarstjóri Ölfuss Ólafur Áki Ragnarsson tók á móti okkur og bauð fundarmenn velkomna. Davíð og þeim Ölfusingum eru færðar bestu þakkir fyrir frábærar móttökur.

Dagskrá fundarins var fjölbreytt og móttökur allar til fyrirmyndar og þakkar félagið öllum sem hlut áttu að máli.

Aðalskipulag Ölfuss.

Gísli Gíslason frá Landmótun kynnti aðalskipulag Ölfuss sem er á lokastigi. Sýndir voru uppdrættir og farið yfir helstu forsendur skipulagsins. Skipulagssvæðið er mjög víðfeðmt blanda af þéttbýli þar sem Þorlákshöfn er fjölmennasta byggðalagið, landbúnaðarsvæðum og nýjum fyrirhuguðum þéttbýliskjarna við þjóðveginn.

Skógrækt.

Aðalsteinn Sigurgeirsson forstöðumaður Rannsóknarstöðvar skógræktar ríkisins að Mógilsá flutti erindi um ýmislegt varðandi vandamál í skógrækt. Megin þema var skemmdir af völdum veðurfars og vágesta. Einnig fór hann yfir stöðu rannsókna á ryðsvepp í öspum sem sveitarfélögin hafa styrkt.

Skoðunarferð.

Haldið til Selfoss og snæddur hádegisverður hjá Snorra fyrrum Samgusara. Snorri hélt okkur við efnið með því að ræða ýmis mál m.a. fyrirkomulag garðyrkjunnar  í Árborg  í dag.

Næst var stoppað í Nátthaga, garðplöntustöð Ólafs Njálssonar sem, tók á móti okkur og greindi okkur frá uppbyggingu og rekstri stöðvarinnar. Ekið var um Ölfus að Strandakirkju þar voru nýlegar framkvæmdir og umhverfið skoðað. Að lokum var haldið að sumarbústað Aðalsteins Sigurgeirssonar og fjölskyldu en fyrst var skoðaður tilraunareitur Mógilsár á söndunum norðan Þorlákshafnar. Þar skoðuðum við gróðursetningarathuganir á berangri þar sem athugað var m.a. gróðursetningardýpt.

Um kvöldið þáðum við rausnarlegt  kvöldverðarboð sveitarstjórnar Ölfus á veitingastaðnum Hafið bláa hafið við Ölfusárósa. Magnað kvöld frábær matur og ævintýralegt á að horfa þegar máninn lýsti upp brimið við ströndina. Að því loknu var ekið á Selfoss á krá og dansað.

Aðalfundurinn

Aðalfundurinn var haldinn samkvæmt lögum félagsins. Skýrsla stjórnar var greinargóð hjá formanninum. 19 félagar voru mættir. Síðasti samþykkti ársreikningur félagsins nær yfir tímabilið 1.maí 2001-30. september 2002, en þar sem stjórnin hafði samþykkt að rekstrarreikningur félagsins miðaðist við almanaksár lagði Erla Bil gjaldkeri fram rekstrarreikning fyrir tímabilið 1. október 2002 til 31. desember 2002.

Oddgeir gerði athugasemdir við endurskoðun reikninganna og taldi að bæta þyrfti vinnulagið.

Nokkrar tillögur vegna reikninga voru samþykktar, efnislega eftirfarandi:

Aðalfundur Samgus 2003 samþykkir að hér eftir skuli miða ársreikning félagsins við almanaksár.

Nýir félagar greiði árgjald frá því að þeir ganga í félagið. Heiðursfélagi Einar E Sæmundsen greiði ekki árgjald til félagsins. (Stjórn félagsins var falið að ganga frá ýmsum lausum endum varðandi eldri skuldir félaga og vegna greiðslu nýrra félaga.) Ákveðið var að afskrifa félagsgjöld 2002 og eldri, sem kemur fram í ársreikningi 2003.

Þá var samþykkt tillaga um heimasíðuna og sérstakar þakkir til Benedikts Björnssonar vegna vinnu hans við síðuna.

Stjórnarkjör.

Davíð lét af störfum sem formaður og Helga gekk úr stjórn. Nýr í stjórn  var kosinn Þórólfur Jónson Reykjavík.

Skoðunarmenn ársreikninga voru kosnir Oddgeir Árnason og Þorgeir Adamsson

 Fundinum lauk svo með heimsókn í Garðyrkjuskólann Þar sem þeir Sveinn Aðalsteinsson skólameistari og Ólafur Melsted fagdeildarstjóri tóku á móti okkur. Sveinn kynnti skipulag væntanlegs meistara- og tækninám við skólanna ásamt möguleikum á fjarnámi. Einnig áform um uppbyggingu húsnæðis skólans en það hefur að mestu verði dæmt ónýtt.

Ólafur kynnti nýja  námskrá og fram kom að nýjar fagdeildarnefndir verði skipaðar í nóvember nk. Einnig kynnti hann í fjarveru Baldurs Gunnlaugssonar samstarfsverkefni skólans, Samgus, FILA og Félags skrúðgarðyrkjumeistara um gerð umhirðuáætlana / umhirðuviðmiða.

Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skipti stjórnin með sér verkum þannig.

Ágúst Þór Bragason, meðstjórnandi. Davíð Halldórsson, spjaldskrárritari.  Þórólfur Jónsson, ritari og tengiliður við norðurlandafélögin. Erla Bil Bjarnadóttir, gjaldkeri og Tryggvi Marinósson, formaður.

Stjórnarfundir.

Þar sem stjórnin er dreifð um land allt eru haldnir fáir formlegir fundir en fundahöld stjórnarinnar byggjast fyrst og fremst á símafundum. Samtals voru haldnir 12 stjórnarfundir á árinu tveir fundir voru haldnir í Reykjavík en hinir voru símafundir.

Málefni félagsins.

Eins og gengur voru ýmismál rædd á fundum stjórnarinnar. Tímafrekast var að undirbúa hina tvo árlegu félagsfundi samtakanna. Auk þess var talsvert rætt um fjármál og skipulag félagsins, heimasíðuna, fjallað var um norrænt samstarf. Stöðu Garðyrkju- og umhverfisstjóra, málefni Garðyrkjuskólans, endurmenntun. Samstarf og  samskipti við önnur samtök í græna geiranum og fleiri samtök.

Fjármál.

Á aðalfundi var samþykkt stjórnarinnar að reikningsár félagsins væri almanaksárið staðfest. Auk þess samþykkti aðalfundurinn að stjórnin afgreiddi ýmsa lausa enda frá fyrri árum. Erla Bil gjaldkeri og Ágúst Þ Bragason settu upp ársreikning með því sniði sem tíðkast almennt. Gerð var fjárhagsáætlun fyrir 2004 og nú fyrir aðalfund fyrir árið 2005 og gengið frá eldri málum m.a. skuldir innheimtar og eða afskrifaðar. Samkvæmt ábendingu var svo farið með reikningana í endurskoðun. Reikningshald er í góðu lagi. Innheimta félagsgjalda gekk vel fyrir árið 2004. Aðalfundur samþykkti óbreytt árgjald fyrir árið 2004 kr. 8.000.   

Skipulag.

Nokkuð var rætt um skipulag félagsins án þess að nokkuð mikilvægt kæmi út úr því. Ákveðið var að tengsl við norðurlöndin væru innan stjórnar en Oddgeir Árnason hefur annast þau undanfarinn ár. Eins var ákveðið að einn stjórnarmaður annaðist félagatalið sérstaklega. Nokkur umræða var um tíð formannskipti o.fl.

Heimasíðan.

Á mörgum fundum stjórnarinnar var fjallað um heimasíðuna en talsvert var fjallað um hana á síðasta aðalfundi. Í ritnefnd sitja Baldur Gunnlaugsson og Tryggvi Marinósson og fram á mitt ár Kolbrún Oddsdóttir. Baldur hefur séð um að gera þær breytingar sem gerðar hafa  á síðunni Ritnefndin gerði prufu með að fá bæjarstjóra til að rita pistil um stöðu garðyrkjumála í sínu sveitarfélagi. Eingin viðbrögð urðu við þessu. Ljóst er að það er vandaverk og tímafrekt að halda úti heimasíðu auk þess kostar það talsvert. Virkja þarf fleiri félaga við þetta verkefni og finna því þannig farveg að það virki á þann hátt að félagarnir séu sáttir og hafi gagn af síðunni.

Staða garðyrkju- og umhverfisstjóra.

Á síðustu árum hafa orðið nokkrar hræringar á stöðu garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélagna vítt og breitt um landið. Stjórnin hefur reynt að fylgjast með þessum málum og rætt þau nokkuð. Ágúst Þór Bragason hélt fróðlegt erindi um þetta mál á vorfundinum í Reykjavík. Frá síðasta aðalfundi hefur einn félagi okkar hætt störfum vegna skipulagsbreytinga þ.e. Kolbrún Oddsdóttir, umhverfisstjóri Hveragerðisbæjar. Hljótum við að harma að blómabærinn Hveragerði, sem órjúfanlega tengist garðyrkjunni á margan hátt sjái sér ekki fært að hafa fagmann við stjórn þessa málaflokks. Einn nýr garðyrkjustjóri tók til starfa á árinu, Jón Arnar Sverrisson hóf störf sem garðyrkjustjóri á Dalvík, þar hefur ekki verið garðyrkjustjóri síðan Kristín Rós hætti störfum. Þá má nefna að Þórólfur Jónsson fékk að nýju titilinn garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar eftir vorheimsókn Samgus til Borgarinnar.

Nýir félagar.

Eftir lagabreytingar 2002 í þá veru að rýmka skilyrði fyrir inngöngu í félagið á þann hátt að heimila aðild þeirra starfsmanna sveitarfélaga, sem eru yfirmenn garðyrkju- og umhverfisdeilda hefur nokkuð fjölgað í samtökunum. Stjórnin hefur samþykkt inngöngu eftirtalinna 5 nýrra félaga frá síðasta aðalfundi Axel Knútsson yfirverkstjóri, Guðný Arndís Olgeirsdóttir, yfirverkstjóri og Gunnsteinn Olgeirsson, yfirverkstjóri öll  frá Reykjavík, Jón Arnar Sverrisson, garðyrkjustjóri Dalvík og Stefán Gunnarsson, yfirverkstjóri á Akureyri. Félagar nú eru 32.  

Norðurlandasamstarf.

Talsverð samskipti hafa verið á milli norrænu samtakana á þessu starfsári aðallega með tölvupósti. Peter Bjørno Jensen, er duglegur að senda okkur póst um ýmis efni er tengjast starfi félaganna. Stjórnin ákvað sl. vor að gerast aðili að H.C. Andersen- skógi, sem stofnað var til í  vegna 200 ára árstíðar H.C.A., með því að kaupa eitt tré í skógin á 5000. kr. Stjórnin ákvað einnig að kosta ásamt Reykjavíkurborg ferð Þórólfs á formannafund samtakanna, sem haldin var í Rovaniemi í Finnlandi dagana 11. – 13. júní s.l. Þetta er í fyrsta sinn sem félagið stendur að því að senda fulltrúa á þennan fund en fulltrúar félagsins sátu fundinn sem haldin var í Reykjavík árið 2000 Næsta sumar verður garðyrkjuráðstefna í Odense. Skipuleggjendur höfðu áhuga á að fá Árna Steinar Jóhannsson, eða annan heppilegan fyrirlesara þar. Stjórnin er með þetta mál í vinnslu. Við Þetta má bæta að samgus studdi  skipan garðyrkjustjóra í Kotka sem  heiðurskonsúl Íslands í Kotka, og  sendum við honum heillaóskir Samgus.

Málefni Garðyrkjuskólans.

Málefni garðyrkjuskólans hafa verið nokkuð í umræðunni hjá stjórn félagsins en ný reglugerð tók gildi um síðustu áramót. Friðrik Baldursson var skipaður sem fulltrúi Samgus í fagnefnd skólans og Erla Bil varamaður. Mikil aðsókn varð í nýtt framhaldsnám á háskólastigi, sem hófst við skólann í haust. Nokkrir félagar í Samgus sitja nú á skólabekk. Skipun nýs rektors við Landbúnaðarháskólann þ.m.t. garðyrkjuskólans hefur verið talsvert í umræðunni og hefur stjórnin m.a. rætt um að senda frá sér ályktun um það efni. Ljóst er að staða skólans er nokkuð breytt og þurfum við að vera vel á verði varðandi framhaldið. Endurmenntunarstjóri Garðyrkjuskólans hefur leitað eftir tillögum varðandi námskeið en stjórnin hefur ekki verið mjög virk í þessu efni og þarf að taka þessi mál til athugunar. Ósk barst frá Magnúsi Hlyn að fulltrúi Samgus mæti 4. okt nk. til kynningar á Samgus, stjórnin ákvað á síðasta fundi að Erla Bil mætti f.h. félagsins.

Vorfundurinn.

Vorfundur Samgus árið 2004 var haldinn í Reykjavík. 1. og 2. apríl. Þórólfur Jónsson hafði veg og vanda af undirbúningi og allri framkvæmd. Dagskrá fundarins var fjölbreytt og móttökur allar til fyrirmyndar og þakkar félagið öllum sem hlut áttu að máli.

Fyrsti hluti fundarins fór fram í höfuðstöðvun borgargarða í Laugardalnum hjá Axel Knútssyni og hans fólki.   Ellý K.J. Guðmundsdóttir forstöðumaður Umhverfis- og heilbrigðistofu Reykjavíkur kynnti starfsemi borgarinnar á þessu sviði. Farið var í skoðunarferð um Grasagarðinn og síðan var öllum boðið í mat í Flórunni. Eftir hádegi var kynning á hinum ýmsu þáttum er snerta starfsemi garðyrkjudeildarinnar og fl. Ýmsir yfirmenn deilda og stofnanna kynntu starfsemi á þeirra vegum svo sem gatnamála, fasteigna þ.e.  lóðamála og staðardagskrá. Margrét Sigurðardóttir landslagsarkitekt skýrði fyrirhugaða stækkun Grasagarðsins.  Miklar og fjörugar umræður urðu um ýmis mál.

Skoðunarferð.

Að loknum fundarhöldum var farið í skoðunarferð í Öskjuhlíð og ræktunarstöðina í Fossvogi. Að lokum bauð Reykjavíkurborg öllum til glæsilegs kvöldverðar á Kaffi Reykjavík.

Landslag ehf.

Að morgni föstudags var mætt í morgunmat hjá Landslagi ehf. Þar fengum við að kynnast starfsemi þeirra og þeim fjölmörgu verkefnum sem þeir hafa unnið og eru  með í vinnslu.

Fíla bauð Samgusfélögum að eignast LANDSKAP márit 2004 tileinkað íslenskum landlagsarkitektúr.

Gönguferð.

Eftir fróðlegt stopp hjá Landslagi var farið í gönguferð um garða og götur miðborgarinnar undir leiðsögn Þórólfs. Skoðaðir voru merkir staðir umhverfis tjörnina og í næsta nágreni. Komið var við í Höfuðborgarstofu þar sem var  kynning á starfseminni. Á Vinnumiðlun ungs fólks Hitt húsið kynntumst við því sem Reykjavíkurborg gerir til að útvega ungu fólki atvinnu t.d. á stofnunum borgarinnar og aðra starfsemi sem þar fer fram fyrir ungt fólk. Í lokinn á þessum hluta var litið inn á Umhverfis- og heilbrigðisstofu.

Fundur í Skúlatúni.

Eftir hádegið var haldinn fundur í Skúlatúni 2, gamla borgarstjórnarsalnum. Þar flutti Baldur Gunnlaugsson kynningu á “Umhirðuviðmiðunum, sem hann og Ólafur Melsted höfðu unnið. Góður rómur var gerður að verkinu og talsverðar umræður. Kynningarstjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur flutti kynningu á starfsemi og skógræktarverkefnum félagsins í og við borgina.  Ágúst Þór Bragason hélt erindi um stöðu garðyrkju- og umhverfistjóra hjá sveitarfélögunum. Talsverðar umræður urðu um þetta málefni að venju. Að þessu loknu var formlegri dagskrá lokið en öllum sem vildu var boðið í Garðheima á vörukynningu. Að venju voru höfðinglegar móttökur þar og margt að skoða og spjalla.

Samstarfsverkefni og samstarf.

Umhirðuviðmið.

Samstarfsverkefni Samgus, FILA, Félags skrúðgarðyrkjumeistara og Garðyrkjuskólans til nokkurra ára, sem fór síðan alfarið til Garðyrkjuskólans lauk árinu með 1. útgáfu Umhirðuviðmiða grænna svæða. Garðyrkjuskólinn gefur út en Baldur Gunnlaugsson og Ólafur Melsted unnu verkið. Útgáfan samanstendur af geisladiski og vandaðri möppu. Hér er komið langþráð og vel unnið hjálpartæki sem mun vonandi hafa veruleg áhrif til hins betra í umhirðu grænna svæða sveitarfélaga landsins.

Urban Forestry Pratice. 

Félaginu barst lokaskýrsla frá Þórarni Benedikz vegna verkefnisins “Urban Torestry Pratice,,. Árni Steinar Jóhannsson var fulltrúi Samgus í verkefninu. Efnið kynnt lauslega á vorfundi og félögum boðið að fá gögnin í hendur.

 Samband Íslenskra sveitarfélaga.

 Lítil samskipti voru á árinu þó lítillega vegna Heimasíðunnar. Sótt var um styrk vegna ferðar Þórólfs á formannafundinn í Finnlandi, en umsókninni var hafnað.    

Skógræktarfélag Íslands.

Skógræktarfélag Íslands hélt aðalfund sinn í Kópavogi. Að venju var félaginu boðið að senda fulltrúa. Ekki var sendur sérstakur fulltrúi en nokkrir félagar sátu fundinn að venju.

Umhverfisráðuneytið.

Boðað var til umhverfisþings í Reykjavík. Erla Bil var fulltrúi félagsins.

Afmælisráðstefna.

Í tilefni af 65 ára afmæli Garðyrkjuskólans, 60 ára afmæli Félags garðyrkjumanna og 30 ára afmæli Félags skrúðgarðyrkjumeistara var haldin fjölmenn ráðstefna í Reykjavík daganna 18. og 19. mars. Yfirskrift ráðstefnunnar var “Gróður er góður. Margir Samgusar voru á ráðstefnunni sem var bæði fróðleg og skemmtileg. Tryggvi Marinósson f.h. Samgus, flutti viðkomandi árnaðaróskir í tilefni tímamótanna. Árni Steinar, Tryggvi og Þórólfur allir félagar í Samgus fluttu erindi á ráðstefnunni.

Skrúður.

Stjórnin ákvað að styrkja framkvæmdir við Skrúð í Dýrafyrði um kr 10.000 og komast þar með á heiðurslista Tabula Skruð.

Börkur frábært framtak.

Eins og flestum er kunnugt hefur Friðrik Baldursson unnið merkilegt verk um söfnun og uppröðun garðplöntunafna ásamt lýsingu á reynslu af ræktun o.fl., úr bókum, tímaritum, plöntulistum garðplöntustöðva o.fl. Viðamikið verk og þarft ,sem vafalítið á eftir að nýtast mörgum vel. Gagnasafnið verður innan tíðar aðgengilegt í einhverju formi á vefsvæði Garðyrkjuskólans. 

Að lokum vil ég þakka samstarfsfólki í stjórn vel unnin störf og öllum félögum gott og ánægjulegt samstarf.

Fh. stjórnar Samgus.

Tryggvi Marinósson.