Kópavogi 3. apríl 1998
SAMGUS – skýrsla fyrir starfsárið 1997-98
Það er óhætt að segja að margt hafi verið á döfinni hjá SAMGUS s.l. ár og starfsemin verið í blóma. Ég ætla í þessari skýrslu að stikla á stóru í því helsta:
Frá síðasta aðalfundi hafa nokkrar breytingar orðið á félaginu. Kolbrún Valvesdóttir frá Snæfellsbæ og Guðlaugur Ásgeirsson frá Hvammstanga eru bæði hætt. 2 önnur sveitarfélög réðu til sín garðyrkjustjóra, Hveragerði Kolbrúnu Oddsdóttur og Þorlákshöfn Davíð Halldórsson. Hugsanlega bætist Stykkishólmur við, en þar hefur Jóna Valdís starfað.
Stjórnarfundir voru alls 16 á árinu, þar af 2 opnir öllum félagsmönnum, þ.e. haustfundurinn og almennur fundur um byggingarreglugerð í jan. s.l.
Nánar verður vikið að þessum fundum hér á eftir.
Þá voru 8 bréf send öllum félögum á tímabilinu og var leitast við að láta fljóta með ýmis gögn til upplýsingar og kynningar.
Líkt og undanfarin ár var gerð könnun meðal félagsmanna um fjölda plantna í gróðursetningum og uppruna þeirra, ásamt könnun á starfmannahaldi, eins og greint var frá hér í morgun.
Það er mitt álit að þessi könnun eigi að vera fastur liður í starfi SAMGUS og þurfi ekki að taka um hana ákvörðun á hverju ári. Frekar væri að auka hana með því að taka fyrir öðru hverju upplýsingar um annað, t.d. fjölda sumarblóma, rekstur og gjaldtöku í skólagörðum og fyrirkomulag garðlanda svo eitthvað sé nefnt.
Einnig var gerð samantekt á rekstri málaflokksins hjá sveitarfélögum, þó slíkt sé alltaf takmörkunum háð. Samskipti við Samb. sveitarfél. hefur verið styrkt, enda kveður á um það í lögum SAMGUS að stuðla eigi að slíku.
Samband sveitarfélaga tilnefndi s.l. vor garðyrkjustjóra í fræðslu- og endurmenntunarnefndir í skrúðgarðyrkju- og umhverfisbraut Garðyrkjuskólans eftir ábendingu SAMGUS. Stjórnin lítur á þetta sem mikla viðurkenningu á félaginu. Eins og fram kom í morgun er þar orðin veruleg þörf á endurbótum, svo ekki sé meira sagt.
Auk setu SAMGUS í þessum nefndum sat stjórn SAMGUS kynningarfund með landbúnaðarráðuneyti og stjórnum fagfélaga, þar sem fjallað var um skýrslu nefndar um samþættingu rannsókna, leiðbeininga og fagmenntunnar í landbúnaði, sem tengist frumvarpsdrögum um stofnun landbúnaðarháskóla, sem Garðyrkjuskólinn yrði hluti af ásamt Hvanneyri og Hólum.
Önnur viðurkenning, og ekki síðri, var s.l. haust þegar stjórn SAMGUS var gefinn kostur á að tilnefna fulltrúa í nefnd um borgarskógrækt á vegum ES. Um þau mál vísast til erindis á fræðsludegi í fyrradag og kynningu hér í morgun.
Fræðsludagar (haustfundur) var haldinn skv. venju í september. Fyrri daginn var farið í skoðunarferðir um Reykjavík og Mosfellsbæ, en síðari daginn var ýmislegt skoðað í Reykjanesbæ. Einnig fórum við í heimsókn á Völlinn og Svartsengi og snæddum að lokum kvöldverð í boði bæjarstjórnar.
Á haustfundinn mættu 15 félagar og tókst hann í alla staði vel.
Eins og fyrr sagði var haldinn almennur fundur í jan. þar sem fjallað var um fyrirhugaðar breytingar á byggingarreglugerð. 11 mættu á fundinn sem var mjög gagnlegur og var á honum skipaður vinnuhópur sem skilaði breytingartillögum til skipulagsstjóra, eins og farið var yfir hér í morgun.
Stjórn SAMGUS skipaði 2 fulltrúa í vinnuhóp vegna undirbúnings ráðstefnunnar “Trjágróður í þéttbýli”, en í hópnum voru einnig fulltrúar Félags garðyrkjumanna, FÍLA og Félags skrúðgarðyrkjumeistara, auk Garðyrkjuskólans.
Það er skoðun mín að auka eigi enn frekar samstarf við þessi félög og önnur í “græna geiranum” og mætti e.t.v. hugsa sér “Græna ráðið”, skipað fulltrúum félaganna, og “Græna vefsíðu” á Netinu til kynningar í því sambandi. Hins vegar set ég spurningarmerki við skrifstofu og að ráða “öflugan talsmann” eins og hugmynd kom um á ráðstefnunni 1. apríl s.l.
Samstarf við Skógræktarfélag Íslands er í nokkuð föstum skorðum. SAMGUS var boðið að senda fulltrúa á aðalfund félagsins, sem að þessu sinni var haldinn að Núpi í Dýrafirði og var greint frá á haustfundi.
Hér liggja frammi upplýsingar um Norræna skógræktarþingið sem haldið verður í Danmörku í júní n.k., ef einhverjir félagar skyldu vera þar á ferðinni þá.
Fjölmörgum stofnunum, félögum og fyrirtækjum hefur verið sent bréf til kynningar SAMGUS ásamt félagatali. Félagsmenn hafa orðið varir við þetta, m.a. í formi bréfs frá StrÍ um leiktækjastaðla, RALA o.fl.
Í samræmi við ákvörðun haustfundar 1997 var 9 sveitarfélögum, sem eru með yfir 1.000 íbúa og eru án garðyrkjustjóra, sent bréf og er vonandi að árangur þess verði jákvæður.
Sameining sveitarfélaga hefur undanfarin ár verið mikið í umræðunni. Þetta kemur líklega til með að breyta starfi einhverjar félaga vegna þess að starfssvæðið stækkar, íbúum fjölgar og og í einhverjum tilvikum breytist starf garðyrkjustjóra.
Annað sem ég tel að verði mikið á döfinni í starfi okkar á næstu árum er Staðardagskrá 21, eins og við fengum að kynnast hér í gær.
Eins og fram hefur komið eru að byrja að myndast tengsl við SK, þ.e. “danska SAMGUS”, og í framhaldi af því Norðurlandasamtök garðyrkjustjóra.
Þetta er í samræmi við lög SAMGUS, þar sem segir að stefnt skuli að samskiptum við slík félög. Þó of snemmt sé að segja til um hvernig þessi tengsl muni þróast tel ég að vænta megi mikils af þeim, og þau geti hjálpað okkur að víkka sjóndeildarhringinn.
Þá held ég láti þessa upptalningu um helstu mál SAMGUS á síðasta starfsári lokið og þakka fyrir.
Friðrik Baldursson