Þann 12. September hittust 18 Samgusarar og 4 makar í flugstöð Leifs Eiríkssonar og tóku stefnuna á Sam norræna ráðstefnu í Helsinki, en ráðstefnan ásamt skoðunarferðum  stóð frá 13. til 16. September.

Hópurinn lenti í Helsinki klukkan 14.00 að staðartíma. Frjáls tími það sem eftir var dags til að skoða nánasta umhverfi en hótelið er einstaklega vel staðsett í miðborginni, beint á móti brautarstöðinni. Stutt er í helstu kennileiti borgarinnar eins og bókasafn, tónlistarhöll, listigarð og bryggjusvæðið. Hópurinn var mjög duglegur að ganga og skoða ýmsa staði og byggingar.

Á degi tvö byrjaði formleg dagskrá við Kauppatori bryggju þar sem hópurinn fór með báti yfir í Vallisaari eyju. Eyjan var herstöð í marga áratugi áður fyrr en er núna opin almenningi. Þar var að finna listasýningar tengdar náttúru og listaverkum bæði í skóginum og í gömlum herbyggingum. Eftir leiðsögn um svæðið í mikilli rigningu var boðið upp á veitingar í gamalli skemmu sem gegnir hlutverki samkomuhús. Þar kynntu gestir sig fyrir hópnum.  Klukkan 18.00 fór ferjan aftur til baka á bryggjuna í Kauppatori og gekk hópurinn til móttöku í ráðhús Helsinki þar sem boðið var upp á léttar veitingar og ráðstefnugestir gátu spjallað saman.

Dagur þrjú hófst í Oodi bókasafni Helsinki klukkan 8.15 og fólk skráði sig formlega inn á ráðstefnuna. Fyrirlestrar byrjuðu klukkan 9.00 báða ráðstefnudagana,  þar sem haldnir voru góðir fyrirlestrar af ýmsum aðilum, bæði finnskum, lettneskum og þýskum. Megin þemað í dagskránni var umhverfisvernd og hlýnun jarðar ásamt áskorunum í aukinni úrkomu og úrlausnum varðandi flóð og fl.  Einnig var fjallað um líffræðilegan fjölbreytileika og hvernig má koma fyrir meiri gróðri í borgir og mikilvægi þess. Hádegisverður var sameiginlegur í tónlistarhöllinni sem er staðsett við sama torg og garð og bókasafnið.  Seinni ráðstefnudaginn hélt hönnuður garðsins Töölöhlahti sem staðsettur er við bókasafnið fyrirlestur um hönnun og uppbyggingu á svæðinu sem er töluvert fjölbreytt, stórt og nær niður að sjó. Eftir klukkutíma fyrirlestur var borðaður hádegiverður og síðan var gengið um svæðið og skoðað í fylgd hönnuðar. Á föstudagskvöldinu var sameiginlegur hátíðar kvöldverður ráðstefnugesta.

Laugardaginn 16. September var skoðunarferð með rútu þar sem keyrt var um eldri og yngri borgarhluta Helsinki og kynning á görðum og hverfi Helsinki allt frá tímum fyrri heimsstyrjaldar til dagsins í dag. Klukkan 14.00 var síðan formlegri dagskrá lokið.

Félagsmenn nýttu tímann vel og það sem eftir var dags hélt hver og einn í göngutúra, verslunarferðir eða sjósunds en um kvöldið snæddi íslenski hópurinn saman á góðum veitingarstað.
Sunnudaginn 17. September var síðan lagt af stað til Íslands eftir vel heppnaða og fræðandi ferð.