Lög samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra.
1. gr. Tilgangur og markmið.
Félagið er samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra skammstafað SAMGUS
tilgangur og markmið þess er:
- a) að stuðla að þróun umhverfismála í víðasta skilningi þess hugtaks.
- b) að vinna að bættri menntun, endurmenntun og aukinni fagþekkingu félagsmanna.
- c) að koma á umræðu og fræðslu um umhverfismál meðal félagsmanna, t.d. með fundarhöldum, námsstefnum, skoðunarferðum og umræðu í fjölmiðlum.
- d) að vinna að því að auka skilning almennings á mikilvægi umhverfismálefna sveitarfélaga.
- e) að vinna að samstarfi Sambands íslenskra sveitarfélaga og annarra aðila sem vinna að umhverfismálum.
Félagið er ekki stéttarfélag.
2. gr. Aðild að samtökum.
Félagsmenn geta þeir orðið sem eru yfirmenn garðyrkju- og umhverfisdeilda sveitarfélaga, sameiginlegra rekinna stofnana sveitarfélaga, hlutafélaga sem starfa á sama sviði og eru í eigu sveitarfélaga eða sambærilegra stofnana á vegum ríkisins.
Félagar sem láta af störfum fyrir aldurs sakir geta haldið aukaaðild að félaginu.
Sækja þarf um aðild að samtökunum til stjórnar.
3. gr. Réttindi og skyldur félagsmanna.
Félagar hafa aðgang að öllum fundum félagsins með málfrelsi, tillögu- eða atkvæðisrétt samkvæmt venjulegum fundarsköpum.
Félagsmönnum ber að leggja fram sérþekkingu sína í þágu félagsins þegar stjórn þess óskar, t.d. með þátttöku í nefndarstörfum og erindaflutningi á fundum og/eða námskeiðum.
Félögum er skylt að taka kjöri til trúnaðarstarfa, en geta beðist undan endurkosningu. Félagsmenn skulu greiða árgjöld samkvæmt ákvörðun aðalfundar.
Aukaaðilar skv. 2. gr. greiða ekki félagsgjald og eru ekki atkvæðisbærir á aðalfundi.
4. gr. Stjórn félagsins.
Stjórn félagsins er kosin á aðalfundi og skal hún skipuð 5 mönnum; formanni, ritara, gjaldkera, varaformanni og meðstjórnanda.
Stjórnin skiptir með sér verkum, þó er formaður kosinn sérstaklega. Stjórn sér um daglega starfsemi og kemur fram út á við fyrir hönd félagsins. Stjórn félagsins getur skipað í nefndir til þess að sinna ákveðnum verkefnum innan félagsins. Stjórnin undirbýr alla fundi félagsins og sér um boðun þeirra.
Við kosningu í embætti á vegum félagsins skal þess gætt að hinar ýmsu stærðir sveitarfélaga eigi fulltrúa og að jafnvægi sé milli landshluta og starfsgreina. Jafnframt skal leitast við að eðlileg endurnýjun eigi sér stað í stjórninni.
5. gr. Aðalfundur.
Aðalfundur er æðsta stjórn félagsins og skal hann halda árlega, í september eða október. Erindi sem óskast sett sérstaklega á dagskrá aðalfundar skulu berast stjórn félagsins a.m.k. 6 vikum fyrir aðalfund. Stjórn ákvarðar hvaða mál eru sett á dagskrá aðalfundar. Aðalfund skal boða með minnst 30 daga fyrirvara og sendist fundarboð öllum félögum með dagskrá.
Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
Á dagskrá aðalfundar skal m.a. vera:
- Setning aðalfundar.
- Kosning fundarstjóra.
- Skýrsla stjórnar.
- Reikningar félagsins.
- Kosning formanns og stjórnar, auk tveggja endurskoðenda.
- Ákvörðun um árgjald fyrir næsta starfsár.
- Ákvörðun um fjárhags- og starfsáætlun fyrir næsta starfsár.
- Erindi sem borist hafa.
- Ákvörðun um tíma og stað fyrir næsta aðalfund.
- Önnur mál.
Fundi skal stjórnað samkvæmt venjulegum fundarsköpum.
6. gr. Lagabreytingar.
Til breytingar á lögum þessum þarf samþykki 2/3 viðstaddra félagsmanna á aðalfundi. Önnur mál eru til lykta leidd með einföldum meirihluta.
7. gr. Norrænt samstarf.
Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra tekur þátt í norrænu samstarfi hliðstæðra félaga á norðurlöndunum eftir því sem efni og aðstæður leyfa á hverjum tíma.
8. gr. Lok samtaka.
Verði félagið lagt niður, skulu gögn þess og eigur afhentar Sambandi íslenskra sveitarfélaga til varðveislu.
Félagið telst vera lagt niður séu ekki boðaðir fundir á vegum þess í 3 ár samfleytt.
Samþykkt á aðalfundi 4. október 2002 í Skagafirði.