Í janúar kom út hjá Landgræðslunni skýrslan Lífrænn úrgangur til landgræðslu – tækifæri. Þar kemur m.a. fram að almennt má segja að lífrænn úrgangur hafi ekki verið notaður á markvissan hátt nema af bændum sem nota húsdýraáburð á tún og önnur ræktarlönd. Í skýrslunni er farið yfir þau tækifæri sem felast í nýtingu lífræns úrgangs bæði sem efnivið til landgræðslu en einnig sem umhverfisvæna aðgerð til að minnka mengun og sóun verðmæta. Það sem einna helst snýr að sveitarfélögunum er förgun seyru, en innan fárra ára verður urðun lífræns úrgangs óheimil og líklegt að það muni einnig eiga við um að veita seyru í hafið. Fimm sveitarfélög í Árnessýslu; Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Flóahreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur, gengu frá samningi við Landgræðsluna árið 2015 um nýtingu seyru til uppgræðslu og úttekt á henni til ársins 2022. Sveitarfélögin í Rangárvallasýslu; Ásahreppur, Rangarþing eystra og Rangarþing ytra, hafa einnig skrifað undir samning um samskonar úttekt á uppgræðslu með seyru. Auk áðurnefndra sveitarfélaga hefur Sveitarfélagið Ölfus lýst yfir áhuga á að feta svipaða slóð.
Sveitarfélögin fimm í Árnessýslu eru frábær dæmi um hvernig hægt er að nýta seyru með góðum árangri. Vonandi fylgja önnur sveitarfélög á eftir með því að hreinsa á viðurkenndan hátt þá seyru sem til fellur og finna leiðir til að nýta hana, en þar liggja mikil tækifæri þar sem nýting seyru er nánast engin í dag.