Hafnarfjörður 8.apríl 2022

 

Aðalfundur SAMGUS – Hafnarfjörður 2022

Skýrsla stjórnar 2021

Stjórn SAMGUS frá 1. október 2021:

Berglind Ásgeirsdóttir, formaður

Sigríður Garðarsdóttir, gjaldkeri

Heiða Ágústsdóttir, ritari

Ingibjörg Sigurðardóttir, meðstjórnandi

Anna Berg Samúelsdóttir , meðstjórnandi

Stjórnin

Stjórn SAMGUS frá síðasta aðalfundi er þannig skipuð: Berglind Ásgeirsdóttir formaður, Sigríður Garðarsdóttir gjaldkeri, Heiða Ágústsdóttir ritari, Ingibjörg Sigurðardóttir og Anna Berg Samúelsdóttir meðstjórnendur.
Endurskoðendur ársreikninga voru á síðasta aðalfundi kjörnir þeir H. Birgir Haraldsson og Kári Aðalsteinsson.

Haldnir voru þrettán stjórnarfundir á tímabilinu 2021-2022. Auk þess sem mikil samskipti voru í síma,tölvupóstum og messenger. Samstarfið hefur að venju gengið mjög vel.

Samskipti og tenglar

LbhÍ, Garðyrkjuskólinn og FSu

Eins og síðustu ár hefur mikið gengið á, en staðan í dag er sú að nám garðyrkjuskólans mun færast undir  FSu næsta haust, en þó er enn tekist á um húsnæðið á Reykjum að einhverju leyti.
Ráðuneytið hefur gefið út að kennsla verði áfram á Reykjum en þó hefur einnig verið rætt um mögulega uppbyggingu á skemmu við verknámshúsið hjá FSu á Selfossi.  Framtíðin er því enn óljós en tengiliður Samgus mun halda áfram að fylgjast með.  Berglind tekur það hlutverk að sér.  

SATS 

Litlar fréttir hafa borist frá SATS á tímum heimsfaraldurs en boðað hefur verið til fundar í Vestmannaeyjum núna 28. Til 29. Apríl.  Sjá má dagskrá og aðrar upplýsingar á www.samgus.is en félagsmenn Samgus eru velkomin á Sats fundi.
Sats hefur alltaf óskað eftir erindi frá Samgus fyrir fundi hjá þeim og höfum við oftast fundið eitthvað skemmtilegt út úr því.
Formaður tók að sér að vera tengiliður og óskaði eftir að fá boð á stjórnarfundi, en hefur ekki fengið boð.
Ný stjórn Samgus mun í haust hafa samband við stjórn Sats og kanna hvort ekki er hægt að bæta í samskipti á milli félaganna. En ljóst að Covid tíminn hefur ekki hjálpað til síðustu ár.
Norræn samskipti

Þórólfur Jónsson hefur leitt þessi samskipti sem áður en nýjast er að frétta að búið er að taka ákvörðun um að fresta fyrirhugaðri samnorrænni ráðstefnu í Finnlandi til ársins 2023.
Ekki hafa nýjar upplýsingar borist en Þórólfur og Berglind munu halda áfram að halda utanum samskipti þar til ljóst er hvernig verður staðið að ráðstefnu.
Félagsmenn og stjórn SAMGUS hafa áður talað um að fjölmenna á þessa ráðstefnu í Finnlandi. 

Vinnuskólahópurinn 

Þessi hópur hefur ekki hist á formlegum fundi á tímabilinu en tíð samskipti eru í tölvupóstum og á facebook síðu vinnuskólastjórnenda milli einstakra skóla.  Hópurinn ætlaði að hittast í vetur en lítið varð úr því þó fólk hafi samband sín á milli enda vinnuskólar sumstaðar ekki með heilsársstarfsmenn.
Könnun var send út á meðal vinnuskóla stjórnenda á dögunum og er ætlunin að halda fjarfund með niðurstöðum könnunar í maí 2022. 

Heimasíða SAMGUS 

Heimasíðan www.samgus.is er opin og eru nýlegar fréttir komnar þar inn. Félagsmenn eru hvattir til að fara reglulega inn á síðuna og fylgjast með nýjustu upplýsingum og fréttum. Einnig mega félagsmenn vera duglegir að senda inn efni sem má birta á síðunni eða benda stjórn á hvað þeim finnst að ætti að skoða og birta. Heiða Ágústsdóttir ritari hefur séð um að uppfæra nýtt efni á síðunni og má senda til hennar á heida@mos.is fréttir og tilkynningar til birtingar á síðunni. 

Facebook síður

Stjórn minnir á opna síðu Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga og lokaða síðu Félagsmanna SAMGUS. Eru allir félagar hvattir til þess að gerast meðlimir í lokaða hópnum og líka við opnu síðuna. Þar er góð leið að deila myndum og öðru efni sem má svo færa yfir á heimasíðuna www.samgus.is þegar fundist hefur hentugur miðill til að halda utan um myndirnar á vefnum.

Ritnefnd Samgus næstu ár

Annáll SAMGUS hefur verið ritaður frá 1992-2002 og er aðgengilegur inná heimasíðu SAMGUS. Ritnefnd var valin á síðasta aðalfundi. Buðu þau Erla Bil Bjarnardóttir, Steinunn Árnadóttir, Björn Bögeskov Hilmarsson og Friðrik Baldursson sig fram í ritnefnd og vinna þau að því að  skrá annál Samgus frá árunum 2002-2022. 

Fastir fundir SAMGUS

Samgus hefur frá stofnun samtakanna árið 1992 haldið tvo fasta fundi á ári, annan að vori og hinn að hausti. Undanfarin ár hefur venjan verið sú að aðalfundur sé haldin að vori. Vegna Covid 19 var aðalfundur 2021 haldin að hausti í Múlaþingi. 

Stjórnin þakkar gestgjöfum og skipuleggjanda Frey Ævarssyni fyrir undirbúning, góðar móttökur og skemmtilega dagskrá. 

Aðalfundur September 2021 – Múlaþing – stiklað á stóru
Egilsstaðaflugvöllur 29.september 2021. Freyr tekur á móti hópnum og farið var með rútu að Gamla Blómabæ þar sem Björn Ingimarsson Sveitarstjóri bauð félagsmenn velkomna í Múlaþing.

Ekið var á Seyðisfjörð og farið í skoðunarferð um bæinn. Sigurður O. Sigurðsson starfsmaður Þjónustumiðstöðvar tók á móti hópnum þar. Gist var á Seyðisfirði.

Fimmtudagur 30. September var farið á Borgarfjörð Eystri þar sem Jón Þórðarson Hreppstjóri fór með hópinn um Borgarfjörðinn og sagði frá. Gist á Hótel Álfheimum þar sem kvöldverður var borinn fram.

Föstudagurinn 1.október var haldin aðalfundur Samgus. 

Ítarlega fundargerð haustfundar 2021 má nálgast á www.samgus.is