Aðalfundur SAMGUS 2003 haldinn í Þorlákshöfn 9-10 okt.
Skýrsla stjórnar
Ágætu félagar!
Haldnir hafa verið 8 stjórnarfundir frá síðasta aðalfundi. Einnig hittumst við á óformlegum fundi í Perlunni í byrjun árs.
Í byrjun febrúar var haldinn samráðsfundur Samgus og stjórnendur Garðyrkjuskólans um stöðu okkar hjá sveitarfélögunum í kjölfar þess að tveimur félögum okkar var sagt upp störfum.. Eftir fundinn var send ályktun til Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem birtist í öðru tölublaði af Sveitarstjórnarmálum.
Vorfundur félagsins var haldinn á Akureyri í lok mars. Við heimsóttum bæjarskrifstofur þar sem okkur var kynnt fjárhagsbókhald bæjarins sem var mjög fróðlegt. Við heimsóttum Teikn á lofti þar sem við fengum kynningu á verkefni sem var í vinnslu fyrir Garðabæ. Við fengum frábærar móttökur hjá þeim. Við fórum í skoðunarferð um bæinn, skoðuðum Framkvæmdamiðstöðina, heimsóttum Kristnes þar sem við fengum leiðsögn um garðinn. Friðrik kynnti skýrslu um öryggi á leiksvæðum sem hann lét Línuhönnun gera fyrir sig. Tryggvi kynnti fyrir okkur verkbókhaldið hjá Akureyrabæ.
Ég vil þakka þeim Jóni Birgi og Tryggva fyrir frábærar móttökur í vor.
Frá síðasta aðalfundi, sem haldinn var í Skagafirði, hafa þrír félagar okkar hætt störfum, Hafsteinn frá Árborg, Ágúst frá Blönduósi og Benedikt frá Fjarðarbyggð. Okkur þykir miður að ekki skuli vera búið að ráða nýja garðyrkju- eða umhverfisstjóra á þessa staði.
Ágúst var svo ráðinn sem umhverfisstjóri Höfðahrepps og Arnar Jónsson var ráðinn til Siglufjarðarkaupstaðar sem við fögnum.
Á síðasta aðalfundi voru samþykktar lagabreytingar sem heimila okkur að taka inn nýja félaga sem eru yfirmenn garðyrkju- og umhverfisdeilda samanber 2. gr. laga um aðild að samtökunum. Einnig var ákveðið að menn skyldu sækja um inngöngu formlega til stjórnar á þar til gerðu eyðublaði sem stjórnin útbjó í vetur. Hafa nú fjórir nýjir félagar gengið inn í félagið, Siggeir frá Árborg, Sigurður frá Garðabæ, Guðjón og Jóhannes frá Hafnarfjarðarbæ og erum við þá orðin 28 félagar í Samgus. Vil ég bjóða þá velkomna í félagið.
Erla Bil hefur unnið að því að reyna að lækka kostnaðinn við heimasíðu okkar. Hefur síðan verið flutt á nýjan vefþjón, sem er talsvert ódýrari en sá sem við vorum með.
Eins og fram kom hér á undan þá hætti Benedikt í vor sem garðyrkjustjóri Fjarðarbyggðar og þar af leiðanidi hætti hann líka í félaginu okkar. Benedikt hafði séð um heimasíðuna frá upphafi og vil ég þakka honum fyrir þá vinnu. En þó að hann sé hættur þá á hann erfitt með að sleppa af því hendinni.
Í skagafirði síðastliðið haust var kosin ritnefnd sem á að halda utan um heimasíðunna okkar. En ritnefndina skipa Baldur, Kolbrún og Tryggvi.
Mun Tryggvi koma upp hér á eftir og skýra nánar frá störfum nefndarinnar.
Á síðasta starfsári fór verkefnið Græni hirðirinn til garðyrkjuskólans. Stjórnin hefur sett sig í samband við Baldur um gang mála og hefur hann tjáð okkur að hann er að vinna að verkefninu, sem hann kallar Umhirðuplanið, en þetta taki langan tíma. Því miður gat Baldur ekki verið með okkur hér í dag en okkur gefst kostur á að ræða þetta verkefni nánar seinna í dag við Svein skólastjóra þegar við heimsækjum garðyrkjuskólann.
Nýlaga barst okkur bréf frá Umhverfisráðuneytinu þar sem okkur var boðið að taka þátt í Umhverfisþingi sem verður haldið dagana 14. – 15. október í Reykjavík. Ákveðið var að Erla Bil myndi fara á þingið sem fulltrúi Samgus
Þónokkur samskipti hafa verið á milli norrænu samtakana á þessu starfsári og þá aðallega tölvupóstur. Því er helst frá því að segja að það var haldinn formannafundur í Odense þann 15. ágúst s.l. þar sem að skrifað var undir nýjan samning um samstarf á milli norðulandana. Engin fulltrúi frá Samgus fór á þennan fund en ég fékk samningin sendan og skrifaði undir fyrir hönd Samgus og sendi hann tilbaka. Næsti formannafundur verður haldinn dagana 11. – 13. júní 2004 í Rovaniemi í Finnlandi.