Ferðalangar hittust hressir og kátir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þriðjudaginn 6. september og fóru þaðan með flugvél Icelandair til Glasgow.
Á flugvellinum tók Inga fararstjóri á móti okkur og við hittum hinn bráðfyndna bílstjóra Kenny, sem keyrði okkur til West End þar sem við nærðum bæði líkama og sál í Kelvingrove safninu.
Þaðan lá leiðin í Botanic Gardens, lítinn almenningsgarð með gömlum og fallegum gróðurhúsum. Eitthvað hafði tímabókun okkar þar skolast til og enduðum við á að fá leiðsögn frá Ewen sem er framkvæmdastjóri garðsins, en hann sýndi okkur allt það merkilegasta.
Einstaklega fróðleg og skemmtileg skoðunarferð um alla ranghala gróðurhúsanna og fengum við að sjá margt sem er í gangi á bakvið tjöldin. Að því loknu fórum við á hótelið og fengum smá tíma fyrir sameiginlegan kvöldverð sem var haldinn á La Bonne Auberge. Þar var einnig haustfundurinn haldinn við góðar undirtektir.
Miðvikudaginn 7. september fórum við í hin mögnuðu húsakyni Glasgow City Chambers þar sem þau George og Christine fóru yfir Green Glasgow 2015 verkefnið. Einstaklega metnaðarfullt og skemmtilegt verkefni þar sem unnið var markvisst að því allt árið að byggja upp græna menningu í borginni og hvetja íbúa til að vera umhverfisvænni í hugsun og hegðun.
Enduðum við daginn með skoðunarferð um Necropolis kirkjugarðinn og skoðuðum þar fjölda skúlptúra, styttur eftir fræga hönnuði og mikilfengleg grafhýsi.
Fimmtudagurinn 8. september rann upp blautur og já… mjög blautur, skipuleggjendum til lítillar gleði þar sem til stóð að vera mikið utandyra þennan daginn. Kenny hressi rútubílstjórinn fór á kostum eins og áður á meðan Inga sagði okkur frá því sem fyrir augu bar á leið okkar til Mugdock Country Park. Vegna veðurs var skoðunarferðin færð inn í myrkan lítinn sal, en virkilega fróðlegt og skemmtilegt starf sem þarna fer fram. Eins var Gilian Neil hjá West Lothian Council mjög fróð og sagði okkur margt um Balloch Country Park. Enn rigndi á okkur þar, en þó örlítið minna en hafði gert fyrr um daginn. Veðrið var svo hið fínasta þegar við komum til Luss en við fengum okkur hádegismat á virkilega notalegum stað sem heitir The Village Rest. Södd og sæl fórum við af stað í sól og blíðu, en leiðin lág til Glengoyne Distillery þar sem við smökkuðum á viskí samhliða leiðsögn um verksmiðjuna.
Ferðanefnd þakkar kærlega fyrir sig og hlakkar til að fara aftur út með félagsmönnum SAMGUS við næsta tækifæri, enda frábær og skemmtilegur hópur.