Ísafirði 30. apríl 1999

 1998 – 1999  Skýrsla formanns SAMGUS

 Á aðalfundinum í Kópavogi fyrir rúmu ári mættu 19 félagar, sem er met. Síðan þá hafa verið haldnir 12 bókaðir fundir og eru þá meðtaldir haustfundur á Austur-Héraði í september, þar sem 15 mættu, fundur um trjágróðurmál í desember (9 mættu) og 2 fundir í “útgáfunefnd”.

 Talsverðar breytingar hafa orðið á félagatali: Bjarnheiður, Sigrún og Inga Rós eru hættar, en Guðmundur Bjarnason hefur verið ráðinn í stað Sigrúnar og Kristín Gunnarsdóttir í stað Ingu Rósar. Hafsteinn Hafliðason kom inn í samtökin s.l. vor og Vestmannaeyjar hafa aftur “eignast” garðyrkjustjóra, Kristján Bjarnason. Enginn hefur enn verið ráðinn í Reykjanesbæ í stað Bjarnheiðar. Ekki er enn búið að ráða í stöðu garðyrkjustjóra hjá Fjarðarbyggð, en með honum verða sveitarfélög með garðyrkju-/umhverfisstjóra væntanlega orðin 22 talsins og hafa ekki verið fleiri.

 Fjöldi mála hefur að venju verið tekinn fyrir á fundum SAMGUS á starfsárinu og hafa mörg þeirra verið kynnt í bréfum til félagsmanna. Þrennt finnst mér þó standa upp úr á árinu:

Samtökin hafa styrkst og gert sig meira gildandi. SAMGUS er formlega orðið eitt af fagfélögum “Græna geirans”, sérstaklega á sviði skrúðgarðyrkju, ræktunar og náttúruverndar. Þetta hefur tekist með kynningu á SAMGUS undanfarin ár. Í þessum efnum verður ekki aftur snúið og ný stjórn verður að vera virk, því til hennar mun berast fjöldi erinda og fyrirspurna víðsvegar að.

Málefni Garðyrkjuskólans að Reykjum hafa tekið mikinn tíma en það er trú mín að nú sé að hefjast nýtt skeið, þar sem skólinn verður “rifinn upp”. Það er e.t.v. kaldhæðnislegt að hræringar í skólanum á s.l. ári urðu til þess að formenn fagfélaga Græna geirans fóru að hittast og ræða saman og styrkja tengslin. Á einum fundanna lagði landbúnaðarráðherra til að formenn félaganna stofnuðu samtök sem yrðu bakhjarl skólans. Einn gárunginn fann meira að segja nafn á félagsskapinn; LGG+ (landssamtök græna geirans + garðyrkjuskólinn!).

Á árinu er fyrirhuguð stofnun garðyrkjumiðstöðvar að Reykjum og tel ég mikilvægt að SAMGUS komi þar eitthvað að málum.

Trjágróðursmál hafa einnig verið áberandi. Þau mál hafa verið rakin ítarlega hér á fundinum í gær og í bréfum til félagsmanna, en segja má að stigið verði nýtt skref hjá SAMGUS með útgáfu bæklingsins um “Trjágróður í þéttbýli”.

Margt annað hefur gerst hjá SAMGUS á s.l. ári.

Haustfundur var haldinn á Egilsstöðum (Austur-Héraði) í lok september. Mæting var góð og dagskráin sömuleiðis. Farið var í Barra og Sólskóga, á skrifstofu Skógræktar ríkisins og farið í stórkostlega haustlitaferð um Hallormsstaðaskóg undir leiðsögn Sigurðar Blöndal. Síðan var að sjálfsögðu skoðunarferð um bæinn að ógleymdri kynningu á umhverfisverkefni Egilsstaða. Einhverjir vildu meina að heimsókn SAMGUS hefði verið orsök glundroðans sem skapaðist á Héraði eftir fundinn, en það er algerlega úr lausu lofti gripið!

 Eins og fyrr sagði var umhverfisverkefnið kynnt á Egilsstöðum og mikið rætt um Staðardagskrá 21 sem margir félagar hafa komið að, eins og ég “spáði” í skýrslu á aðalfundinum 1998.

Utanlandsferð SAMGUS, sem lengi hefur staðið til, hefur nú verið undirbúin og er vonandi að góð þátttaka fáist, því ferðin er mjög áhugaverð.

Ýmsar formlegar kynningar hafa verið á SAMGUS, s.s. fyrir nemendum garðyrkjuskólans í október og á fundi Náttúruverndar ríkisins og umhverfisnefnda á SV-horninu sem haldinn var í Garðabæ í febrúar, auk þess sem fulltrúi frá Fjarðarbyggð sótti fundinn á Egilsstöðum. Einnig hefur verið mikið um óformlegri kynningar á hinum ýmsu fundum.

 Skógræktarmál eru alltaf í gangi. Formaður sótti aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var á Hvolsvelli í ágúst og margir félagar sóttu ráðstefnu sem haldin var á Akureyri í mars um rekstur útivistarskóga og samskipti skógræktar- og sveitarfélaga.

 Ýmis önnur mál hafa komið upp. Fulltrúar SAMGUS sátu fund með nefnd sem vinnur að stefnumörkun og endurskoðun laga um landgræðslu og komu sjónarmiðum sveitarfélaga þar að. Einnig fundi vegna Dags umhverfisins o.fl. o.fl.

Boð hefur borist um fund formanna samtaka garðyrkjustjóra norðurlandanna sem haldinn verður í Kotka í Finnlandi í júní n.k. Kynningarbréf frá SAMGUS verður sent á fundinn.

SAMGUS hefur einnig borist tilkynning um garðyrkjusýningu í Yunnan-héraði í Kína í sumar, ef einhver skyldi eiga þar leið hjá!

 Í lokin vil ég koma með þá tillögu að ný stjórn skoði vel hvort eindurskoða eigi lög félagsins og veita fleirum aðild, jafnvel tveimur frá hverju sveitarfélagi eins og sumstaðar er gert á norðurlöndum.

 Að síðustu tel ég að félagsmenn þurfi að ákveða hvað SAMGUS eigi að verða “þegar það verður stórt”! Segja má að nú séu samtökin búin að slíta barnskónum, orðin 7 ára gömul. Eða verður SAMGUS kannski aldrei stórt?

Þar sem ég geng nú úr stjórn SAMGUS, vil ég þakka öllum ánægjulegt samstarf á undanförnum árum, en þó ég sé hættur í stjórn verð ég samt ekki langt undan!

 Takk fyrir 
Friðrik Baldursson