Skýrsla stjórnar
milli aðalfunda 2017-2018

Stjórn SAMGUS frá 7. apríl 2017:

Freyr Ævarsson, formaður

Berglind Ásgeirsdóttir, gjaldkeri

Sigríður Garðarsdóttir, ritari

Bjarni Ásgeirsson, meðstjórnandi

Valur Þór Hilmarsson, meðstjórnandi

Stjórnin
Stjórn SAMGUS frá síðasta aðalfundi er þannig skipuð: Freyr Ævarsson formaður, Berglind Ásgeirsdóttir gjaldkeri, Sigríður Garðarsdóttir ritari og Bjarni Ásgeirsson og Valur Þór Hilmarsson meðstjórnendur. Endurskoðendur ársreikninga voru á síðasta aðalfundi kjörnir þeir Haraldur Birgir Haraldsson og Björn Bögeskov Hilmarsson.

Haldnir voru tíu stjórnarfundir á starfsárinu, auk þess sem mikil samskipti voru í síma og tölvupóstum. Samstarfið hefur að venju gengið mjög vel.

Samskipti og tenglar
SAMGUS hefur fulltrúa og tengiliði í ýmsum nefndum o.þ.h. Hér er það helsta talið upp.

SATS
Sigurður Hafliðason hefur verið tengiliður SAMGUS við SATS (Samtök tæknimanna hjá sveitarfélögum) frá síðasta aðalfundi og setið stjórnarfundi hjá þeim. Hann er jafnframt fulltrúi okkar í sérstakri heiðursmerkjanefnd samtakanna. SATS, ásamt Félagi byggingarfulltrúa og Félagi skipulagsfulltrúa, heldur sína fundi að vori og hausti, líkt og SAMGUS. Óskað hefur verið eftir að SAMGUS leggi til erindi á þessum fundum og/eða stingi upp á fyrirlestrum og hefur félagið orðið við því.

Vorfundur SATS 2017 var haldinn í Vík í Mýrdal 4. og 5. maí og flutti Hjalti J. Guðmundsson þar erindi.

Haustfundur SATS var að venju í Reykjavík, að þessu sinni 3. nóvember. Báða fundina sótti nokkur fjöldi SAMGUSara venju samkvæmt.

Vorfundur SATS 2018 verður haldinn á Húsavík 3.-4. maí nk. Við vonumst til að einhverjir SAMGUSarar sjái sér fært að mæta til Húsavíkur í maí.

LBHÍ
SAMGUS á fulltrúa í fagnefndum garðyrkjunámsins við Landbúnaðarháskóla Íslands. Í fagnefnd skrúðgarðyrkjubrautar eru Friðrik Baldursson og Björn Bögeskov Hilmarsson. Í fagnefnd skógar- og náttúrubrautar er Anna Berg Samúelsdóttir fulltrúi SAMGUS. Axel Knútsson er fulltrúi SAMGUS í vinnuhóp sem vinnur að því að garðyrkjuskólinn geti tekið nema á verknámssamning í skrúðgarðyrkju.

Norræn samskipti
Þórólfur Jónsson er tengiliður SAMGUS við norrænu systrasamtökin í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Á fjögurra ára fresti er haldin sameiginleg ráðstefna og í ágúst 2014 var hún haldin í Malmö. Þórólfur fór þangað og hélt erindi. SAMGUS mun standa fyrir næstu ráðstefnu sem verður 2018 og er undirbúningur í höndum Berglindar Ásgeirsdóttur, Friðriks Baldurssonar, Sigríðar Garðarsdóttur auk Þórólfs. Heimasíða ráðstefnunnar var opnuð í vetur og þá var einnig farið að taka við skráningum. Ekki er gert ráð fyrir að félagsmenn SAMGUS skrái sig í gegnum heimasíðuna heldur geta þeir skráð sig á aðalfundinum eða hjá Sigríði.

Samráðshópur um Staðardagskrá 21
Margir SAMGUSarar sjá um Staðardagskrármálin hjá sveitarfélögunum. Þau mynda samstarfshóp sem hittist reglulega og ræða sameiginleg mál. Lúðvík E. Gústafsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga situr einnig fundina. Tómas G. Gíslason er tengiliður hópsins við SAMGUS og mun hann gefa stutt yfirlit um þau mál á fundinum.

Vinnuskólahópurinn
Samskonar hópur er starfandi um málefni vinnuskóla, enda hafa margir SAMGUSarar rekstur vinnuskóla á sinni könnu. Sl. 20 ár hafa forstöðumenn vinnuskóla á SV-horninu og víðar að hist 1-2 sinnum á ári og borið saman bækur sínar, þó hefur mjög lítið verið fundað undanfarin ár. Berglind Ásgeirsdóttir er tengiliður þessa hóps við SAMGUS.

Heimasíða SAMGUS
Heimasíðan okkar, www.samgus.is, hefur verið opin sl. ár og settar hafa verið inn fréttir af helstu atburðum. Þó mætti vera talsvert meira líf í heimasíðunni og eru félagsmenn hvattir til að senda stjórninni fréttir sem eiga erindi á heimasíðuna.

Facebook síður
Tvær síður sem Berglind Ásgeirsdóttir stofnaði, eru fyrir SAMGUSara. Annars vegar opin síða sem heitir Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga og hins vegar lokaður hópur sem heitir Félagsmenn SAMGUS. Allir félagar eru hvattir til að gerast meðlimir í lokaða hópnum og líka við opnu síðuna.

Eldri gögn SAMGUS
Nú á vordögum afhenti Erla Bil Bjarnardóttir Þjóðskjalasafni Íslands talsvert magn gagna sem safnast hafa fyrir hjá henni frá stofnun SAMGUS árið 1992. Aðrir félagar sem kunna að hafa í sínum fórum gögn, sem eiga erindi á Þjóðskjalasafnið eru hvattir til að afhenda þau þannig að sem mest af gögnum séu tiltæk fyrir þá sem áhuga kunna að hafa á sögu samtakanna.

Stjórnin þakkar Erlu Bil hennar ríkulega þátt í að varðveita sögu samtakanna fyrstu 25 ár þeirra.

Fastir fundir SAMGUS
SAMGUS hefur frá stofnun samtakanna árið 1992 haldið tvo fasta fundi á ári, annan að vori og hinn að hausti. Mörg undanfarin ár hefur venjan verið að vera með aðalfund að vori. Ítarlegar fundar­gerðir þessara funda voru sendar félögum og er því ekki ástæða til að endurtaka þær hér, heldur aðeins stikla á stóru. Árið 2017 var aðalfundur félagsins haldinn í Mosfellsbæ og haustfundurinn á Dalvík, í Hrísey og á Akureyri. Gestgjöfum og skipuleggjendum, þeim Bjarna Ásgeirssyni, Tómasi G. Gíslasyni, Guðrúnu Birnu Sigmarsdóttur, Val Þór Hilmarssyni og Jóni Birgi Gunnlaugssyni, þakkar stjórnin undirbúning fundanna, góðar móttökur og fræðandi dagskrár.

Aðalfundur SAMGUS haldinn í Mosfellsbæ
6.-7. apríl 2017
Mættir voru (sumir ekki báða dagana): Axel Knútsson, Berglind Ásgeirsdóttir, Bjarni Ásgeirsson, Björn Bogeskov Hilmarsson, Erla Bil Bjarnardóttir, Freyr Ævarsson, Friðrik Baldursson, Guðbjörg Brá Gísladóttir, Guðrún Birna Sigmarsdóttir, Heiða Ágústdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Jón Ingvar Jónasson, Jóna Valdís Sveinsdóttir, Kári Aðalsteinsson, Sigríður Garðarsdóttir, Sigurður Hafliðason, Steinunn Árnadóttir, Svavar Sverrisson, Tómas Guðberg Gíslason, Valur Þór Hilmarsson og Þórólfur Jónsson.

Félagsmenn mættu í félagsheimilið Harðarból upp úr 9.30 og þá var boðið upp á kaffiveitingar. Fundur var svo settur klukkan 10, af Bjarna Ásgeirssyni. Tómas, Guðrún og Bjarni sögðu frá grænum málum í Mosfellsbæ og Ólafur Melsted skipulagsfulltrúi fjallaði um umhverfisskipulag í Mosfellsbæ.

Friðrik Baldursson fjallaði um skemmtilegri leik- og grunnskólalóðir. Friðrik sagði frá vinnu við að skrá aðstöðu/leiktæki á lóðum allra leik- og grunnskólalóða í Kópavogi til að geta farið í umbóta­vinnu.

Eftir hádegisverð sem var í boði Mosfellsbæjar var farið í skoðunarferð í rútu um Mosfellsbæ undir leiðsögn Bjarka Bjarnasonar. Við heimsóttum hjónin í Hjallabrekku sem búa í gróðurhúsi. Í gróðrarstöðinni Lambhaga tók Magnús á móti okkur á hjóli. Hann fór með okkur um gróðurhúsið og sagði frá framleiðslunni. Við stoppuðum í Álafosskvosinni og Tómas og Bjarki sögðu frá sögu staðarins. Við keyrðum fram hjá ævintýragarðinum, Meltúnreit, leiksvæðinu Víðiteig, Reykjum/Reykja­hvol. Við Hafravatnsrétt var stoppað og þar var boðið upp á snaps. Áður en haldið var aftur í félagsheimilið var stoppað í þjónustumiðstöð garðyrkjunnar og þar var boðið upp á veitingar og fróðleik.

Sameiginlegur kvöldverður var í félagsheimilinu Harðarbóli kl. 19.

Aðalfundur var settur klukkan 10. þann 7. apríl í félagsheimilinu Harðarbóli.
Sigurður Hafliðason var samþykktur sem fundarstjóri. Freyr formaður las upp skýrslu stjórar 2016.

Meðlimir voru hvattir til að skrá sig í FB hópa og senda greinar til stjórnar til að setja inn á samgus.is.

Berglind las upp skýrslu um Glasgow ferð 2016.

Berglind sagði frá fundi hóps um Vinnuskólann. Vinnuskólahópurinn er á Facebook.

Berglind greindi frá ársreikningum. Meiri útgjöld voru á síðasta ári vegna Glasgow ferðar.

Ársreikningur var lagður fram til samþykktar. Rætt um ógreidd félagsgjöld. 4 meðlimir hafa ekki greitt. Þarf að senda ítrekun. Ársreikningur samþykktur og skrifað undir.

Berglind kynnti fjárhagsáætlun. Félagsgjöld verða hærri en áætlað var. Spurning var lögð fram um minningarreit Árna Steinars Jóhannssonar. Félagsmönnum finnst framlag okkar 100.000- vera of lágt. Fjárhagsáætlun samþykkt.

Berglind stakk upp á óbreyttu félagsgjaldi en Björn Bögeskov Hilmarsson og Axel Knútsson stungu upp á 3.000 kr. hækkun. Var hækkunin samþykkt og verða því félagsgjöldin kr. 15.000.

Freyr greindi frá fagnefndum. Það vantar aðila í fagnefnd skóg- og umhverfis. Anna Berg Samúels­dóttir bauð sig fram og var hún samþykkt. Vantar nýjan tengilið Vinnuskóla, stungið upp á Steinunni Árnadóttur og stjórnin ætlar að ræða við hana.

Sigríður Garðarsdóttir sagði frá að tíu hafi sótt um aðild og voru níu samþykktir. Þau eru Guðbjörg Brá Gísladóttir Garðabæ, Heiða Ágústdóttir Mosfellsbæ, Hjalti Steinar Guðmundsson Reykjanesbæ, Hrafnhildur Tryggvadóttir Borgarbyggð, Ingibjörg Sigurðardóttir Hafnarfjörður, Jóna Valdís Sveinsdóttir Reykjavíkurborg, Kári Aðalsteinsson Kirkjugarðar Reykjavíkur, Lulu Munk Andersen Hvalfjarðarsveit og Sindri Birgisson Akranesbæ. Stefán Jónsson frá Golfklúbbi Reykjavíkur uppfyllti ekki skilyrði um inngöngu. Freyr sagði frá þeim sem hættu á árinu, tveir fluttu sig til (Hjalti Steinar og Kári) en fjögur yfirgáfu félagið, þau Þorgeir Adamsson, Þorkell Gunnarsson, Ólafur Melsted og Íris Reynisdóttir.

Erla bað um að það yrði sent út nýtt félagatal. Stjórnin lofaði að senda það út til félagsmanna.

Friðrik Baldursson sagði frá vinnu við að skipuleggja norrænu ráðstefnuna sem verður haldin í ágúst 2018. Nefndin hefur fundað reglulega en í nefndinni eru auk Friðriks, þau Berglind Ásgeirs­dóttir og Þórólfur Jónsson. Berglind og Þórólfur fóru til Kaupmannahafnar í desember til að hitta norrænu nefndina. Fyrirtækið Athygli sér um allt nema dagskrána. Skráningar hefjast í haust í gegnum heimasíðu. Ráðstefnan mun fjalla um náttúruna, garða og útivistarsvæði. Samstarf er við Færeyjar og Grænland. Dagskráin er blanda af fyrirlestrum og ferðum.. Búið er að taka frá Kaldalón í Hörpu og hótelherbergi. Farið var yfir bréf sem sent var til tilvonandi samstarfsfélaga. Verið er að leita eftir styrkjum til að greiða flug og hótel fyrir erlenda fyrirlesara. Verið að skoða útfærslu á hvernig er hægt að lækka gjald fyrir félagsmenn SAMGUS gegn vinnuframlagi á ráðstefnu, verður kynnt frekar á næstu fundum. Allur pakkinn er á kr. 75.000.- og í því er innifalið hátíðarkvöldverður. Daggjaldið er kr. 30.000.- og í því er innifalið hádegisverður og ferðir. Nefndin hefur ekki áhyggjur af að ráðstefnan standi ekki undir sér. Við höfum ekki efni á dýrum fyrirlesurum eins og hefur verið boðið upp á hjá hinum Norðurlöndunum. Við förum okkar leið, ódýra leið. Norðmenn hafa áhuga á fræðslu um útivistarsvæði. Tómas er með tengingu í norræna nefnd um útivistarsvæði og mun nefndin nýta sér það.

Gert er ráð fyrir að Haraldur Birgir verði áfram skoðunarmaður reikninga. Björn Bogeskov samþykkti að taka eitt ár í viðbót.

Valur sagði frá skipulagningu haustfundar 2017 sem haldinn verður á Dalvík 31. ágúst -1. september. Minningarreitur Árna Steinars verður beint á móti æskuheimili hans. Starfsmenn Dalvíkurbyggðar ætla í vor að leggja hellur, planta og koma fyrir bekk. Við fengum styrk frá Rarik upp á kr. 350.000.- Dalvíkurbyggð ætlar að leggja til bekk. Ákveðið var á fundinum að félagsmenn munu setja niður lauka í minningarreitinn. Valur greindi frá plöntuvali í minningarreitnum og sagði frá fjárhagsáætlun. Sýning verður á Dalvík á teikningum Árna Steinars og skólafélögum frá 1977. Öllum bæjarbúum verður boðið. Erla stakk upp á að sett yrði upp myndasýning um Árna Steinar.

Minnt var á SATS fundinn í Vík í Mýrdal.

Tómas Guðberg Gíslason sagði frá Staðardagskrárhóp sem hittist á tveggja mánaða fresti til að skiptast á skoðunum. Meðal þess sem hópurinn ræðir á fundum er veggjakrot, vorhreinsun, lausa­ganga hrossa, hundaeftirlit, endurheimt votlendis, samgönguvika, rafhleðslustöðvar, plastmál og að samræma vistkerfi Íslands. Tómas hvatti meðlimi til að hafa samband við nefndina ef þeir væru með hugmyndir eða spurningar.

Erla Bil Bjarnardóttir var gerð að heiðursfélaga og afhenti formaður henni blómvönd, gjafabréf og heiðursskjal.

Fundi var slitið 11.54.

Haustfundur SAMGUS 4. – 5. september 2017 haldinn á Dalvík, Akureyri og í Hrísey.
4. september
Mættir voru: Anna Berg Samúelsdóttir, Berglind Guðmundsdóttir, Bjarni Ásgeirsson, Björn Bögeskov Hilmarsson, Björn Júlíusson, Davíð Halldórsson, Erla Bil Bjarnardóttir, Freyr Ævarsson, Friðrik Baldursson, Heiða Ágústsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Jón Birgir Gunnlaugsson, Jón Ingvar Jónasson, Jóna Valdís Sveinsdóttir, Marta María Jónsdóttir, Sigríður Garðarsdóttir, Sigurður Hafliðason, Smári Jónas Lúðvíksson, Steinunn Árnadóttir, Svavar Sverrisson, Tómas G. Gíslason, Valur Þór Hilmarsson og Þórir Sigursteinsson

Valur Þór Hilmarsson og Jón Birgir Gunnlaugsson sáu um skipulagningu haustfundarins.

Fundurinn hófst á því að keyrt var frá Akureyri að Hauganesi þar sem snæddur var hádegisverður. Í boði var fiskisúpa, plokkfiskur og brauð á matsölustaðnum Baccalá Bar. Eftir að hafa hlýtt á eigandann segja frá tilurð staðarins og uppbyggingu var keyrt á Árskógssand. Í brugg­verk­smiðjunni Kalda fræddumst við um fyrirtækið og fengum að smakka eða öllu frekar drekka bjór því það var vel fyllt þrisvar sinnum á glösin sem við fengum svo að eiga. Á Ársskógssandi skoðuðum við einnig Bjórböðin sem bjóða upp á bjórbað, bjórdrykkju og slökun.

Eftir það var haldið til Dalvíkur til að vera við vígslu minningarreits um Árna Steinar Jóhannsson. Minningar­reiturinn er staðsettur við fallega tjörn og gosbrunn, beint á móti æskuheimili Árna Steinars. Valur Þór Hilmarsson, Tryggvi Marinósson, Erla Bil Bjarnardóttir og Steinunn Árnadóttir minntust Árna Steinars með skemmtilegum sögum af vinnu hans og áhugamáli. Árni Steinar var mikill frumkvöðull og gerði mikið fyrir garðyrkjuna á Akureyri. Hann var skemmtilegur og hreif samstarfsmenn sína með sér.

Dalvik minningarreitur

Minningarreiturinn um Árna Steinar Jóhannsson, á Dalvík.

Á bókasafni Dalvíkur var haldin sýning á skólaverkefni Árna sem hann vann í Kaupmannahöfn ásamt skólasystkinum sínum. Gengið var um lóð leikskólans Krílakots á Dalvík og dáðst að frumlegum leikstækjum.

Eftir að allir höfðu losað sig við töskur á hótelinu, var ekið um Svarfaðardal og inn í Skíðadal og Valur sagði frá því sem bar fyrir augu. Rútan stoppaði við Húsabakka og þaðan gengu flestir yfir í Hánefsstaðareit. Á leiðinni var farið yfir nýja hengigöngubrú sem mörgum þótti gaman að hoppa á til að fá brúna til að sveiflast til. Eftir þennan góða göngutúr sem tók lengri tíma en áætlað var, var farið að Völlum. Þar var snædd mjög góð súpa, brauð og dásamlegur berjaeftirréttur í skemmti­legu umhverfi. Eigandinn Bjarni Óskarsson sagði okkur frá uppbyggingu staðarins sem gengi það vel að hann vantaði starfsfólk. Margir versluðu í búð sem er í næsta húsi og seldi ýmis matvæli en sami eigandinn á hana og matsölustaðinn.

5. september
Þriðjudaginn 5. september var ferjan tekin út í Hrísey og var haustfundurinn haldinn á veitingastaðnum Verbúðin 66. Eitt erindi var á haustfundinum, norræna ráðstefnan, og sagði Friðrik Baldurson frá skipulagi hennar. Útivist og ferðamál verða viðfangsefni ráðstefnunnar sem verður haldin í Hörpu í ágúst 2018. Heimasíðan verður opnuð í október og gjald verður 70.000- Það verða 2-3 erlendir fyrirlesarar og 2 fræðsluferðir í boði.

Bjarni Thorarensen var heimsóktur og fyrirtækið hans Hrísiðn. Við fengum að sjá hvernig hann smíðar og setur saman tréhrífur. Auk hrífusmíðarinnar var Bjarni með 25 manns í vinnu í sumar við að tína hvönn. Hvönnin er svo þurrrkuð og seld til Saga Medica sem notar hvönnina í heilsulyf.

Gengið var um Hrísey og Jón Birgir Gunnlaugsson fræddi okkur um að síðan 2006 hafi verið reynt að útrýma kerfli og lúpínu úr eyjunni. Á leiðinni virtu meðlimir fyrir sér bekki, skilti og gróður á þessari dásamlegu gönguleið sem ætluð er til að fá fólk til að gleyma amstri hversdagsins, njóta náttúrunnar og friðarins í eyjunni.

Dalvik Hrisidn

Hvannarblóm í þurrkun hjá Hrísiðn í Hrísey.

Dalvik Hrisey

Úr Hrísey

Eftir mat héldum við frá Hrísey til Akureyrar þar sem Lystigarðurinn var heimsóktur. Umsjónarmaður garðsins Guðrún Kristín Björgvinsdóttir tók á móti okkur og gekk með okkur um garðinn sem er alveg einstaklega vel hirtur og fallegur.

Akureyri Lystigardur

Fundarmenn í Garðskálanum í Lystigarði Akureyrar.

Farið var að skátasvæðinu Hömrum og þar tók Tryggvi Marinósson á móti okkur og sagði okkur frá útivistarsvæðinu og uppbyggingu þess. Haustfundurinn endaði svo með göngu um Kjarnaskóg og nýjustu útisvæðin þar. Samgusarar dáðust að leiksvæðum, grillsvæði, borðtennisborðum og blakvelli.

Skipuleggjendum og gestgjöfum fundarins eru færðar bestu þakkir fyrir móttöku og leiðsögn.

Félagaskrá
Á aðalfundi 2014 náði fjöldi félagsmanna í SAMGUS í fyrsta skipti 50. Síðan þá hefur fjölgun í félaginu verið hæg en örugg og verða félagsmenn eftir aðalfund 2018 orðnir 60.

Það er líka ánægjulegt að hlutur kvenna eykst, en hlut­fall kvenna í félaginu nálgast nú 40%.

Aðeins einn félagsmaður hætti í SAMGUS á árinu en það var Ari Eggertsson hjá Hveragerðisbæ.

Nýir félagar á þessum aðalfundi eru: Helga Björk Einars­dóttir – Fjarða­byggð, Hjalti Steinar Guð­munds­son – Reykjanesbæ, Höskuldur Þorbjarnarson – Hvera­gerð­is­bæ og Rut Jónsdóttir – Akureyrarbæ

Stjórnin þakkar Ara fyrir samstarfið og óskar honum vel­farnaðar á nýjum vettvangi. Jafnframt bjóðum við nýja félaga velkomna í SAMGUS.

Fyrir hönd stjórnar,

Freyr Ævarsson, formaður