Aðalfundur SAMGUS 2013

Skýrsla stjórnar
milli aðalfunda 2012-2013

Stjórn SAMGUS frá 27. apríl 2012:
Friðrik Baldursson, formaður

Björn Bögeskov Hilmarsson, gjaldkeri

Jón Arnar Sverrisson, ritari

Erla Bil Bjarnardóttir, meðstjórnandi

Björg Gunnarsdóttir, meðstjórnandi

Stjórnin
Ný stjórn tók við á síðasta aðalfundi og er hún þannig skipuð: Friðrik Baldursson formaður, Björn Bögeskov Hilmarsson gjaldkeri, Jón Arnar Sverrisson ritari, Erla Bil Bjarnardóttir og Björg Gunnarsdóttir sem eru meðstjórnendur. Um var að ræða 60% endurnýjun, þar sem aðeins Jón Arnar og Erla Bil voru í fyrri stjórn.

Stjórnarfundir

Haldnir voru 8 stjórnarfundir með reglulegu millibili á starfsárinu í öllum sveitarfélögum stjórnarmanna. Að auki voru að sjálfsögðu mikil samskipti í síma og tölvupóstum. Að mínu mati er þetta búið að vera mjög gott og ánægjulegt samstarf.

Markmið stjórnar

Eitt af aðalmarkmiðum stjórnarinnar var að halda ráðstefnu í tilefni af afmæli SAMGUS og það náðist. Annað markmið var að halda að minnsta kosti einn fund hjá hverjum stjórnarmanni á starfsárinu og hefur það tekist. Önnur markmið voru m.a. að bæta upplýsingarflæði til félagsmanna og verða aðrir að meta hvernig það hefur tekist.

Samskipti og tenglar
SAMGUS hefur fulltrúa og tengiliði í ýmsum nefndum o.þ.h. Hér er upptalið það helsta í þeim efnum.

LBHÍ, fagnefndir o.fl.

SAMGUS á fulltrúa í fagnefndum garðyrkjunámsins. Í fagnefnd skrúðgarðyrkjubrautar er Friðrik Baldursson og Björn B. Hilmarsson varamaður. Í fagnefnd skógar- og náttúrubrautar er Erla Bil Bjarnardóttir og varamaður var Gunnþór Guðfinnsson. Axel Knútsson var síðan á haustfundi tilnefndur fulltrúi SAMGUS í vinnuhóp sem vinnur að því að skólinn geti tekið nema á verknámssamning í skrúðgarðyrkju.

Þá situr Erla Bil einnig í stjórn Hollvinafélags Landbúnaðarháskólans.

Norræn samskipti

Þórólfur Jónsson er tengiliður SAMGUS við norrænu systrasamtökin í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Á fjögurra ára fresti er haldin sameiginleg ráðstefna og eins og áður hefur verið rætt á þessum vettvangi hefur SAMGUS gefið frá sér að halda ráðstefnuna á næsta ári. Þess í stað verður hún haldin í Svíþjóð. Þórólfur fékk boð um að mæta þar á undirbúningsfund en ekki var hægt að verða við því.

SATS

Samskipti við SATS (Samtök tæknimanna hjá sveitarfélögum) komust í fastari skorður á árinu þegar þeir óskuðu eftir að fulltrúi SAMGUS sæti stjórnarfundi hjá þeim. Á haustfundi var Björn B. Hilmarsson tilnefndur þessi tengiliður SAMGUS. SATS, ásamt Félagi byggingarfulltrúa og Félagi skipulagsfulltrúa, fundar að vori og hausti, líkt og SAMGUS. Líklega hafa aldrei fleiri SAMGUSarar sótt haustfund SATS en sl. haust þegar um þriðjungur félaga mætti, enda margt áhugaverðra erinda um blágrænar ofanvatnslausnir, sorpmál og gæðalýsingar vegna gróðurvinnu. Vorfundur SATS verður haldinn 2.-3. maí í Fjarðabyggð og mun Friðrik Baldursson verða þar með hugleiðingu um hvort stór tré séu stórmál í þéttbýli.

Staðardagskrárhópurinn

Margir SAMGUSarar sjá um Staðardagskrármálin hjá sveitarfélögunum. Þau hittast reglulega á óformlegum fundum og ræða sameiginleg mál. Tómas G. Gíslason er tengiliður hópsins við SAMGUS.

Vinnuskólahópurinn

Margir SAMGUSara hafa rekstur vinnuskóla á sinni könnu. Frá 1995 hafa forstöðumenn vinnuskóla á SV-horninu og víðar að hist 1-2 sinnum á ári og borið saman bækur sínar. Síðasti fundur var 7. nóvember sl. í Garði í tengslum við SAMGUS-ráðstefnuna. Friðrik Baldursson er tengiliður þessa hóps við SAMGUS en Kópavogur hefur um langt árabil séð um gagnaöflun og greiningarvinnu varðandi vinnuskóla sveitarfélaganna.

„Vestnorræn samskipti“ – heimsókn frá Færeyjum
Það var ánægjulegt að taka á móti fjórum Færeyingum sem hingað komu dagana 7.-8. september og geta þar að nokkru endurgoldið þá miklu gestrisni sem SAMGUS naut í ríkum mæli í Færeyjaferðinni haustið 2011, en þangað var farið til að fagna 20 ára afmæli SAMGUS. Þetta voru þeir Tróndur Leivsson landskógavörður, Ronnie Thomasen samstarfsmaður hans hjá Umhverfisstofu, Tóri í Hoyvík garðyrkjustjóri Þórshafnar og Michael Jakobæus landslagsarkitekt þar. Þeir mynda vinnuhóp sem er að skipuleggja 20 ha svæði í nágrenni Þórshafnar sem á að verða útivistarsvæði og komu hingað til að fá innblástur. SAMGUS tók að sér að skipuleggja skoðunarferðir dagana tvo í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Aðalsteinn Sigurgeirsson á Mógilsá tók einnig þátt í þessu með SAMGUS og voru gestirnir himinlifandi yfir móttökunum og héldu heim fullir hugmynda. Við þurfum endilega að halda við og styrkja sambandið við systkin okkar í Færeyjum.

„Arfur“
Núverandi stjórn fékk nokkurn „arf“, ef svo má segja, frá síðasta aðalfundi. Er þar átt við mál sem nýrri stjórn var falið að fylgja eftir. Þessi mál eru:

· Leikvallareglugerðin sívinsæla, stjórnin átti að athuga með stöðu mála hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Gerð verður grein fyrir því máli hér á eftir.

· Könnun SAMGUS, en stjórninni var falið „að fara yfir könnunina og átta sig á hvað eigi að fá út“, eins og segir í fundargerð síðasta aðalfundar. Þetta mál var sett í bið hjá stjórninni en gerð var afmörkuð könnun um jólaskreytingar sem kynnt verður hér á eftir.

Heimasíða SAMGUS
Þrátt fyrir að heimasíðan okkar, www.samgus.is, hafi batnað verulega undanfarin ár, sá stjórnin ástæðu til þess taka hana til endurskoðunar, skoða hvað betur mætti betur fara, hvað mætti bara fara og hvað mætti koma í staðinn. Vinna við þetta er nú í gangi og sér Björg Gunnarsdóttir um þau mál. Fram hefur komið sú hugmynd að SAMGUS, SATS og tengd félög reki sameiginlega heimasíðu og tel ég að það sé nokkuð sem megi skoða betur, þó auðvitað þurfi að halda kostnaði í lágmarki.

LBHÍ, námskeið
Sl. haust var óskað eftir aðkomu SAMGUS, ásamt FÍLA og Félagi skrúðgarðyrkjumeistara, að undirbúningi námskeiðs um sjálfbærni í umhirðu á opnum svæðum. Daninn Jan Thejsen og Svíinn Stefan Lagerquist, sem er garðyrkjustjóri í smábænum Sävsjö, fræddu okkur um málin og Friðrik Baldursson og Þórólfur Jónsson ásamt fleirum komu með íslensku hliðina. Námskeiðið var vel heppnað og sóttu það um 160 manns.

Hafinn er undirbúningur að öðru námskeiði með aðkomu SAMGUS og annara fagfélaga sem væntanlega verður haldið í haust og fjallar um hættur við garðyrkjustörfin.

Styttra er á veg komin hugmynd um að halda sameiginlegt námskeið SAMGUS og LBHÍ um óhefðbundin leiksvæði í haust í tengslum við haustfund SATS, en unnið verður áfram að því máli.

Fastir fundir SAMGUS
SAMGUS hefur frá upphafi haldið tvo fasta fundi á hverju ári, annan að vori og hinn að hausti, og þannig var það líka 2012. Ítarleg fundargerð var send út til SAMGUSara og er því ekki ástæða til að endurtaka hana hér, heldur aðeins stikla á stóru. Gestgjöfunum og skipuleggjendum, þeim Frey Ævarssyni á Fljótsdalshéraði og Val Þór Hilmarssyni í Fjallabyggð þakkar stjórnin góðar móttökur og fræðandi dagskrár.

Aðalfundur

Aðalfundur SAMGUS 2012 var haldinn á Fljótsdalshéraði dagana 26.-27. apríl.

Mættir voru: Bjarni Ásgeirsson, Björn Bögeskov Hilmarsson, Erla Bil Bjarnardóttir, Freyr Ævarsson, Friðrik Baldursson, Guðjón Steinar Sverrisson, Guðrún Björgvinsdóttir, Helga Gunnlaugsdóttir, Íris Reynisdóttir, Jan Klitgaard, Jón Arnar Sverrisson, Jón Birgir Gunnlaugsson, Kári Aðalsteinsson, Marta María Jónsdóttir, Sigurður Hafliðason, Smári Guðmundsson, Steinunn Árnadóttir, Svavar Sverrisson, Tómas G. Gíslason, Valur Þór Hilmarsson, Þórólfur Jónsson og Úlfar Tr. Þórðarson gestur.

Freyr fór með okkur víða um þetta víðfeðma sveitarfélag. Byrjað var á gróðrarstöðinni Barra og þaðan haldið í Vallanes til Eymundar bónda og síðan litið við í Eik listiðju í Miðhúsum. Bæjarskrifstofur og Skógrækt ríkisins voru heimsótt auk þess sem farið var fótgangandi um Egilsstaði. Þá var haldið í upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs, síðan fræðst um fornleifauppgröftinn á Skriðuklaustri og samnefnt hús skáldsins heimsótt. Í dagslok var okkur svo sýnd viðarkyndingin á Hallormsstað.

Seinni daginn var síðan sjálfur aðalfundurinn. Dagskráin endaði síðan á gönguferð um trjásafnið í Mörkinni og heimsókn í fyrirtækið Holt og heiðar.

Haustfundur

Haustfundur var haldinn í Fjallabyggð 20.-21. september.

Mættir voru: Ágúst Þór Bragason, Björg Gunnarsdóttir, Björn Bögeskov Hilmarsson, Erla Bil Bjarnardóttir, Freyr Ævarsson, Friðrik Baldursson, Guðjón Steinar Sverrisson, Guðrún Björgvinsdóttir, Jón Arnar Sverrisson, Jón Birgir Gunnlaugsson, Páll Ingi Kristinsson, Sigurður Hafliðason, Smári Guðmundsson, Svavar Sverrisson, Valur Þór Hilmarsson og Þorgeir Adamsson.

Valur kynnti staðina tvo sem mynda Fjallabyggð, Siglufjörð og Ólafsfjörð, og hve ólíkar aðstæður og mannlíf þar er. Mikil uppsveifla er á Siglufirði, ekki síst eftir að bærinn komst í betra samband við opnun gangnanna 2011. Heldur minna er um að vera á Ólafsfirði.

Fyrri daginn var farin var skoðunarferð um Siglufjörð og m.a. fræðst um uppbyggingu félagsins Rauðku, snjóflóðavarnargarða, golfvallarsvæði og skógræktina í Skarðsdal.

Seinni daginn var komið við í Héðinsfirði á leið til Ólafsfjarðar þar sem fundað var. Aðalefni haustfundar var fyrirhuguð afmælisráðstefna sem verið var að leggja lokahönd á. Einnig sagði Þorgeir Adamsson frá moltugerð hjá Kirkjugörðunum. Fundurinn endaði á Kleifum, gömlum byggðarkjarna við norðanverðan Ólafsfjörð.

20 ára afmælisráðstefna
Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar var hafist handa við undirbúning ráðstefnu í tilefni 20 ára afmælis SAMGUS. Ákveðið var að þemað yrði tenging hinna ýmsu mála við sveitarfélögin og einkum starfssvið félagsmanna. Ráðstefnan var síðan haldin 8. nóvember, í tengslum við haustfund SATS, á 20. hæð í Turninum í Kópavogi. Eins og starfssviðið voru erindin fjölbreytt: „Fyrir hvað stendur SAMGUS?“, „Samstarf SAMGUS og SATS“, „Breytingar á plöntuvali“, „Að læra undir berum himni“, „SAMGUS og garðyrkjunámið“, „Samstarf skógræktarfélaga og sveitar-félaga“, „Fjölbreytni friðunar“, „Leiðbeiningar um garðyrkjuvinnu“, „Götutré og borgarskóg-rækt“, „Ævintýraveröld – óhefðbundið leiksvæði“ og „Útivist og lýðheilsa“.

20 ára afmælisráðstefna SAMGUS tókst í alla staði vel og sóttu hana um 110 manns. Ekki var verra að hún stóð undir sér fjárhagslega.

Félagaskrá
Nokkrar breytingar hafa orðið á félagaskrá frá síðasta aðalfundi og umtalsverð fjölgun félaga.

Þeir sem hafa hætt á árinu eru: Birgir Haraldsson hjá Sandgerði og Gunnþór Guðfinnsson hjá Ölfusi.

Nýir félagar á þessum aðalfundi eru: Eygerður Margrétardóttir og Margrét Sigurðardóttir hjá Reykjavík, Samson Bjarnar Harðarson hjá LBHÍ, Kristján Bjarnason hjá Grindavík, Sunna Áskelsdóttir hjá Ölfusi og Birgir Haraldsson sem starfar nú hjá Rangárþingi ytra.

Við þökkum þeim sem hætt hafa á árinu fyrir samstarfið og óskum þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi. Jafnframt bjóðum við nýja félaga, suma reyndar gamalkunnuga!, velkomna í SAMGUS.

Í fyrsta skipti eru SAMGUSarar orðnir fleiri en 40 og hugsanlegt er að enn fjölgi, því eftir því sem best er vitað hefur ekki verið ráðið í stöður sem auglýstar hafa verið í Hveragerði, Húnaþingi vestra, Ísafjarðarbæ og Hornafirði. Það er reyndar umhugsunarefni að fyrirhugað er að ráða í sumar stöðurnar til skamms tíma, jafnvel aðeins í 4 mánuði.

Meðfylgjandi skýrslu stjórnar SAMGUS er ársreikningur fyrir árið 2012 og fjárhagsáætlun stjórnar fyrir 2013.

Fyrir hönd stjórnar,

Friðrik Baldursson, formaður